BBC segir að til að koma í veg fyrir þetta hafi eistnesk stjórnvöld dælt peningum og vopnum til Úkraínumanna. Nema framlög Eistlands rúmlega 1% af vergri þjóðarframleiðslu. „Ef sérhvert NATÓ-ríki gerði þetta, myndi Úkraína sigra,“ sagði Kaja Kallas, forsætisráðherra Eistlands.
Þegar hún var spurð hvert plan B Eista sé ef Úkraína tapar stríðinu var svarið: „Við erum ekki með neitt plan B sem gerir ráð fyrir sigri Rússa. Ástæðan er að þá myndum við hætta að fókusera á plan A sem er að hjálpa Úkraínu að hrinda rússnesku innrásinni. Við eigum ekki að gefa okkur svartsýni á vald. Sigur Úkraínu er ekki bundinn við landsvæði. Ef Úkraína gengur í NATÓ, jafnvel án þess að hafa full yfirráð yfir öllu landsvæði sínu, þá er það sigur því þá verður Úkraína hluti af regnhlíf NATÓ.“