fbpx
Laugardagur 27.júlí 2024
Fréttir

Fjölmiðlamenn takast á um boð og boðun – „Uppi typpið á þeim Hádegismóamönnum“

Ragna Gestsdóttir
Þriðjudaginn 14. maí 2024 18:37

Ekki missa af Helstu tíðindum dagsins í pósthólfið þitt

Lesa nánar

Fjölmiðlamaðurinn góðkunni Egill Helgason gerir góðlátlegt grín að fyrirsögn fréttar Mbl.is þar sem segir „Boðar Höllu Tómasdóttur í Spursmál.“ 

Birtir Egill skjáskot af fréttini og segir „Ekki rekur mig minni til þess að hafa boðað fólk í Silfur Egils. Ég bauð því.“

Umrædd frétt er eins konar kitla fyrir Spursmálþátt næsta föstudags þar sem fram kemur að: „Þegar ljóst er orðið að Halla Tóm­as­dótt­ir mæl­ist með yfir 10% í könn­un Pró­sents fyr­ir Morg­un­blaðið hef­ur Stefán Ein­ar Stef­áns­son, stjórn­andi Spurs­mála boðað hana til viðtals. Verður hún gest­ur þátt­ar­ins næst­kom­andi föstu­dag.“

Gefið hafi verið út í upphafi kosningabaráttunnar að fram­bjóðend­ur sem mæld­ust með 10% eða meira í könn­un­um yrðu kallaðir til viðtals í þætt­in­um. Þau fjögur sem mælst hafi hæst í könnunum hafi þegar verið í þættinum, Baldur Þórhallsson, Halla Hrund Logadóttir, Jón Gnarr og Katrín Jakobsdóttir. 

Það er þó ekki þátturinn sem slíkur eða efnistökin sem Egill hnýtir í, heldur fyrirsögn Mbl.is eins og áður sagði. Færslan vakti athygli og hafa margir tjáð sig í athugasemdum. 

„Já, það er uppi typpið á þeim Hádegismóamönnum,“ segir Jakob Bjarnar Grétarsson fjölmiðlamaður á Vísi. Stefán Einar er snöggur til svars og spyr hvort sé ekki betra að ná því upp en ekki. „Við Moggamenn þurfum ekki pillur til verksins…. allra síst frá Agli Helgasyni,“ segir Stefán Einar.

Stefán Einar skrifar einnig athugasemd undir færsluna þar sem hann segir: „Einkennilegt að sjá hvað maður eins og Egill Helgason er lítill í sér, maður sem árum saman býður vildarvinum sínum, alltaf þeim sömu, í nóvember og desember til að kynna nýjustu vörur sínar. Það er gert á kostnað almennings. Ætli fjölmiðlanefndin láti sig þetta nokkru varða? Eða er munur á súkkulaðistykkjum og Agli Helgasyni?“

Vísar Stefán Einar þar til nýlegrar ákvörðunar Fjölmiðlanefndar um dulin viðskiptaboð á mbl.is, en þar er lögð stjórnvaldssekt á Árvakur að fjárhæð 1,5 milljónir króna vegna ítrekaðra brota á lögum sem banna duldar auglýsingar, og Kiljunnar, þáttar Egils á RÚV.

Sigmundur Ernir Rúnarsson fyrrum ritstjóri Fréttablaðsins segir í athugasemd: „Skipunarvaldið er þeim ríkast sem ræna völdum …„ og fær umsvifalaust athugasemd tilbaka frá Stefáni Einari: „segir ritstjóri miðilsins sem fór í þrot og rændi þar með lífeyrisiðgjöldum og launum fólks. Þú ert nú meiri brandarakarlinn.“ Bendir Sigmundur Ernir þá á að „Mogginn hefur fengið 10 milljarða afskrifaða frá ríkinu, pilsfaldurinn er notalegur.“

„Eru fleiri aðilar í samfélaginu en löggan og Mogginn sem geta boðað fólk í viðtöl?“ spyr einn karlmaður.

Kona ein vekur athygli á mismunandi fyrirsögnum eftir hvaða frambjóðandi á í hlut. „Og svo er gaman að velta fyrir sér hvernig hver frambjóðandi er kynntur hérna í fyrirsögnum … Katrín fer í sitt fyrsta STÓRA viðtal fyrir forsetaframboðIN en hin eru annaðhvort spurð ERFIÐRA spurninga eða KRAFNIR um svör eða SITJA fyrir svörum.“

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Mest lesið

Nýlegt