Fjórir Litháar sem eru í haldi lögreglu vegna gruns um manndráp í sumarbústað í Kiðjabergi í Árnessýslu voru að vinna við byggingu í bústað þar. RÚV greinir frá.
Mennirnir hafa verið úrskurðaðir í gæsluvarðhald vegna láts samlanda þeirra um helgina. Tveir í þriggja daga varðhald og hinir tveir í varðhald til 30. apríl. Þeir síðarnefndu hafa kært gæsluvarðhaldsúrskurðinn til Landsréttar og a.m.k. annar hinna tveggja.
Mennirnir voru að vinna við byggingu nýs bústaðar á svæðinu en byggingarfélagið Reir verk stendur fyrir framkvæmdunum. Þrír Litháanna voru að störfum á vegum undirverktakafyrirtækisins Nordhus við að smíða þak á bústaðinn. Við hlið lóðarinnar var annar bústaður sem var leigður undir verktakana og þar fannst maðurinn látinn.