Ude og Hjemme segir að um ökklaband sé að ræða, eins og notað er á þá sem afplána refsingu utan fangelsis. Fram kemur að Norðmenn hafi góða reynslu af að nota slík ökklabönd á þá sem hafa hlotið dóma fyrir ofbeldi og hótanir eða ofsæki fólk og sæti nálgunarbanni af þeim sökum.
Ökklabandið virkar öfugt við það sem það gerir þegar það er notað á fólk sem er að afplána refsingu. Þegar það er notað af fólki við afplánun refsingar þá sendir það merki frá sér ef viðkomandi yfirgefur heimili sitt. Í norsku útgáfunni þá sendir það frá sér merki ef viðkomandi nálgast heimili fórnarlambsins.
Þetta þýðir að viðkomandi má ekki fara yfir mörk ákveðins svæðis og er svæðið þannig gert að það á að taka um 25 mínútur að komast frá jaðri þess til heimilis fórnarlambsins. Um leið og gerandinn fer inn fyrir þetta svæði fær lögreglan vitneskju um það og getur brugðist við á viðeigandi hátt.