Þann 5. október næstkomandi verður aðalmeðferð við Héraðsdóm Reykjavíkur í máli sem héraðssaksóknari hefur höfðað á hendur karli og konu, sem bæði eru rúmlega þrítug, fyrir fíkniefnabrot og peningaþvætti.
Í fyrsta ákærulið er maðurinn sakaður um að hafa þann 1. nóvember 2019 haft í vörslum sínum 70 kannabisplöntur og 1,5 kg af kannabislaufum á heimili sínu í Mosfellsbæ.
Í öðru lagi er hann sakaður um að hafa staðið að innflutningi á tæplega 2 kg af kókaíni og 4,4 g af metaamfetamíni en erlendur maður flutti efnin fyrir hann með flugi frá París í Frakklandi í mars árið 2020þ
Í þriðja ákærulið eru bæði ákærð fyrir að hafa haft 240 g af maríhúana í vörslum sínum að Sölkugötu í Mosfellsbæ í maí árið 2020.
Í fjórða ákærulið er maðurinn sakaður um peningaþvætti en inn á reikninga hans voru greiddar hátt í 50 milljónir króna sem hann gat ekki gert grein fyrir, á árunum 2017 til 2020.
Í fimmta ákærulið er konan ákærð fyrir samskonar brot en upphæðin þar nemur 7,5 milljónum króna.
Krafist er þess að bæði verði dæmd til refsingar og greiðslu alls sakarkostnaðar. Auk þess er krafist upptöku á ýmsum munum, m.a.s kannabisplöntum og ýmsum tækjum til ræktunar kannabis úr fórum mannsins. Krafist er upptöku á Lois Vuitton íþróttatösku og handtösku úr fórum konunnar.