„Tjónið er ekkert en þetta er óþægileg tilfinning,“ segir Guðrún Þórólfsdóttir sem flaug nýlega með Icelandair heim frá Tenerife og uppgötvaði við heimkomu að farið hafði verið í ferðatösku hennar og rótað mikið í innihaldinu.
„Það var ekkert fémætt í töskunni, ég passaði mig á því. Ég var með allt skart í handfarangri, sem og alla mikilvæga pappíra. Við keyptum síma í fríhöfninni áður en við fórum út og ég setti hann í handfarangur. En allt sem var með rennilás í töskunni, það var rifið upp. Þarna var lítil budda sem við notum undir smámynt, hún var opnuð, sömuleiðis tvö veski. Líka var þarna budda með hleðslutækjunum okkar, hún var opnuð. Allt með rennilás var rifið upp. Ég ímynda mér að þjófarnir hafi verið að leita að gulli eða einhverju slíku,“ segir Guðrún. Umgengni þjófanna við töskuna var ruddaleg:
„Það var allt á rúi og stúi. Ég var þarna með krem og ilmvötn og þetta var bara eins og hráviði í töskunni. Það var ein túba opin en þetta hefði getað farið miklu verr en það gerði.“
Guðrún segist af ásettu ráði hafa haft töskuna ólæsta þar sem læstar töskur gefi kannski fremur til kynna að eftir einhverju sé að slægjast. Hafi hún enda heyrt dæmi um að læstar töskur hafi verið brotnar upp.
Guðrún er meðvituð um fréttir þess efnis að starfsmenn á flugvellinum í Tenerife hafi verið staðnir að verki við þjófnað úr ferðatöskum. DV greindi frá þessu þann 6. mars. Starfsmenn öryggisteymis flugvallarins komu starfsmönnunum, og þjófunum meintu, að óvörum þegar öryggisstarfsmennirnir sinntu hefðbundnum öryggisstörfum. Á Tenerife á stuldur úr ferðatöskum sér aðallega stað í sjálfu farangursrými flugvallarins þar sem engar myndavélar eru.
Þetta vekur Guðrúnu sérstakar áhyggjur: „Maður veit þá að þessir menn menn hafa allan tímann í veröldinni til að athafna sig án þess að hafa áhyggjur af öryggismyndavélum.“
„Þessi eyja er dásamleg en maður fer að setja spurningamerki við hana,“ segir Guðrún ennfremur. Hún segist hafa stundað Ameríkuflug í yfir 30 ár og aldrei lent í því áður að þjófar hafi farið í tösku hennar. Hún hafi hugsað sér að hætta að fljúga til Ameríku og taka þess í stað upp Tenerife-ferðir, en „það er beygur í manni út af þessu. Ég meina, ég hafði til dæmis ekki lyst á að nota tannburstann minn aftur þegar ég sá að einhverjir ókunnugir menn höfðu farið höndum um hann,“ segir Guðrún en mennirnir rótuðu öllu upp úr snyrtitöskunni hennar.
Fjölmargir aðrir Tenerife-farar frá Íslandi hafa lýst svipaðri reynslu. Skiptar skoðanir eru um það hvort rétt sé að læsa töskum, láta plasta þær eða einfaldlega hafa þær ólæstar og gæta þess að hafa ekkert verðmætt í ferðatöskunni, heldur geyma verðmæti í handfarangri. Ein kona í FB-hópnum Tenerife spjallið segir svo frá:
„Ég kom heim frá Tenerife í gærkveldi þann 14. mars. Það var greinilega búið að róta í farangrinum, opna bakpoka sem var í töskunni og opna öll hólf og rífa upp landakort sem voru í pokanum. Ekkert var tekið því við vorum mjög meðvituð um að hafa ekkert verðmætt í innrituðum töskum. Hvar tilkynnum við svona?
Þó ekkert sé tekið er óþægileg tilfinning að vita af ókunnugum höndum á fötunum sínum.“
Ekki síst farþegar Icelandair hafa lent í ferðatöskuþjófum á Tenerife. Þó að ekki sé þar við Icelandair að sakast vaknar sú spurning hvort flugfélagið muni krefja flugvallarrekendur á Tenerife um úrbætur. DV sendi fyrirspurn um málið til upplýsingafulltrúa Icelandair og bíður svara.