fbpx
Fimmtudagur 29.febrúar 2024
Fréttir

Lýsa ógnvekjandi ferð með strætisvagni – „Æ oftar mega farþegar upplifa og verða vitni að hrikalegum dónaskap bílstjóra“

Ágúst Borgþór Sverrisson
Miðvikudaginn 6. desember 2023 17:30

Mynd úr safni

Ekki missa af Helstu tíðindum dagsins í pósthólfið þitt

Lesa nánar

Maður og kona hafa sent bréf til fjölmiðla, borgarfulltrúa, stjórnar Strætó bs., lögreglu og fleiri aðila, vegna framkomu strætisvagnsstjóra við sig og aðra farþega. Segja þau atvikið sem þau lýsa ekkert einsdæmi og kalla eftir aðgerðum.

Fyrir utan að keyra mjög hratt á bíl með mjög löskuðum afturöxli sakar fólkið vagnstjórann um ógnvekjandi og dónalega framkomu, auk þess sem hann hafi ekki skeytt um ábendingar þess efnis að hann var að keyra vel á undan áætlun og stöðvaði ekki vagninn við stoppistöðvar þar sem hann átti að stöðva. Frásögnin hefst svona:

„Við vorum tvö saman og tókum leið 15 í Mosfellsbæ kl. 13:15 (2 mín. á undan áætlun kl. 13:17) frá Hlemmi í dag, sunnudaginn 3. des  – og greiddi ég fargjöldin með síma mínum eftir hefðbundið stríð við Klappið.

Ferðinni var heitið í austanverðan Mosfellsbæ og hugðumst við fara úr vagninum við Krikaskóla, þangað sem vagninn skyldi vera kominn kl. 13:45 samkvæmt tímatöflu Strætó.

Bílstjórinn ók ansi greitt, þrátt fyrir að vagninn væri auðfinnanlega mjög laskaður á afturöxli, líkast því að miklar misfellur væru í hjólbörðum eða að legur væru ónýtar, nema hvorttveggja væri, enda nötraði vagninn allur og skalf, beinlínis líkast því sem keyrt væri á þvottabretti þegar hraðinn var mestur.

Við vorum einmitt í sætunum yfir afturöxlinum, hægra megin aftan við dyrnar og fundum þetta því mjög vel, furðandi okkur á því að vagninum skyldi yfirleitt vera ekið.

Á Miklubrautinni ók bílstjórinn svo greitt sem hann komst, rétt hægði á sér við Sogamýris-biðstöð og tók svo þar fram úr kyrrstæðum strætisvagni þótt frekar óljóst væri hvort einhver væri þar að bíða eftir leið 15.

Í þann mund sem vagninn var að renna inn á Ártúns-stöðina leit ég á klukkuna í vagninum, sem fór þá af kl. 13:25 yfir á kl. 13:26. Svo sem ég geri stundum í strætó þá tékkaði ég á tímatöflunni og sá að samkvæmt henni hefði vagninn átt að vera að koma inn á Miklubraut um þetta leyti og vera síðan á Skeifu-stöð og Sogamýris-stöð kl. 13:26 – en síðan ekki fyrr en kl. 13:31 í Ártúni.

Ég gekk fram í vagninn og sýndi bílstjóranum tímatöfluna í síma mínum og benti honum á að hann væri 5 til 6 mínútum á undan áætlun þarna í Ártúni og hefði því líka verið það á stöðvunum á undan fyrir vikið.

Hann virtist lítt skilja íslensku eða ensku og brást ekki vel við. Ég hafði einnig ætlað mér að benda honum á að vagninn væri óökuhæfur og hvort ekki væri ástæða til að skipta um vagn í bækistöð Strætó á Hestálsi, enda alveg í leiðinni, en hætti við það vegna viðbragða hans og gekk til baka aftur í vagninn.“

Gaf fingurinn

Í bréfinu segir að framkoma bílstjórans hafi fyrst keyrt um þverbak við Lágafellsskóla en þá tók hann upp á því að hafa dyr vagnsins opnar þrátt fyrir mikinn kulda. Segir að framkoma vagnstjórans hafi verið svo ógnvekjandi að þau hafi ákveðið að yfirgefa vagninn áður en komið var á áfangastað. Er þau gengu burt frá vagninum reis vagnstjórinn á fætur úr sæti sínu og gaf þeim fingurinn:

Það var svo við Lágafellsskóla sem ballið aldeilis byrjaði. Áður voru allir farnir út úr vagninum nema við og ein kona sem sat til hliðar við okkur, hún til vinstri andstætt við afturdyrnar en við rétt aftan við þær. En þarna stoppar vagninn og opnar afturdyrnar og bara bíður, með okkur þrjú ein innanborðs. Eftir nokkrar mínútur kallar konan til bílstjórans og biður hann um að loka hurðinni, enda lagði ískaldan næðing inn. Hann kallar eitthvað til baka, eitthvað bíða eða waiting, sem erfitt var þó að skilja, en einfaldast var að álykta að hann væri að bíða eftir öðrum vagni til að skipta á.

En ekkert gerðist, og loks lokaði hann hurðinni og ók af stað. Endurtók sig sami leikurinn á næstu stoppistöðvum án þess að neinir nýir farþegar kæmu í vagninn, né þá heldur neinir færu út – hann stoppar, opnar afturhurðina, bíður og sinnir engu sem við hann er mælt, en konan bað hann ítrekað um að loka, m.a. á ensku, og gekk líka fram til hans en alls án árangurs, dyrnar stóðu jafn galopnar fyrir ísköldum næðingnum. Eftir samskonar þóf við nokkrar stöðvar yfirgaf hún svo vagninn (líklega við Álfatanga-stöð), hvort á áfangastað sínum eða ekki, vitum við ekki, en vagninn var nú orðinn um 10 mínútum á eftir áætlun!

Við vorum þá tvö ein eftir og bílstjórinn endurtók enn sama leikinn og nú á milli stoppistöðva við götuna Þverholt. Við sáum þá okkar óvænna, enda framkoma bílstjórans orðin afar ógvekjandi, og yfirgáfum við vagninn sem fór síðan af stað tómur. Í sömu mund flautaði bílstjórinn, reis upp í sæti sínu og sendi okkur fingurinn, útréttri hendi – svo vel við sáum til hans gegnum hliðargluggana – og hvarf hann svo sína leið [feitletrun DV].“

„Æ oftar mega farþegar upplifa og verða vitni að hrikalegum dónaskap bílstjóra“

Í bréfinu segir að atvikið sé langt því frá einsdæmi og lýsi vanstjórnun hjá Strætó bs og kalla þau stjórn og framkvæmdastjórn fyrirtækisins til ábyrgðar. Hér að neðan er niðurlag frásagnarinnar:

„Við gengum svo í ískaldri norðanátt og fjúki um eins kílómetra leið, fyrst drjúga leið eftir Þverholti og gegnum miðbæinn og síðan yfir göngubrúna yfir Vesturlandssveg og þaðan inn á Tröllteig, þangað sem ferð okkar var heitið – en svo sem ég hef áður sagt höfðum við ætlað okkur að okkur að fara úr vagninum við Krikaskóla-stöð, sem er skammt frá þeim stað sem við vorum á leið til.

Á göngunni reyndi ég að hringja í þjónustuver Strætó en allt auðvitað lokað þar kvöld og helgar og tilkynnti ég þetta því til lögreglunnar gegnum 112 klukkan 13:53, við þá rétt nýfarin úr vagninum. Gaf ég stutta skýrslu eftir því sem veðrið leyfði, en lögreglumaðurinn átti greinilega jafn erfitt með að heyra til mín fyrir rokinu og ég að tjá mig fyrir kuldanum.

ÖLL þessi atburðarás, sem ég hefi lýst, ætti að vera skráð í myndavélakerfi vagnsins – allt frá því við tókum hann við Hlemm kl. 13:15 og fórum úr honum við Þverholt um kl. 13:50. Hlýtur ferill vagnsins líka að vera skráður sjálfkrafa í innbyggt tövukerfi – jafnt sjálfs vagnsins sem GPS heildarkerfis Strætó – jafnt hraði hans á hverjum tíma og hvar hann hefur stoppað og hve lengi. Allar upplýsingar ættu því að staðfesta frásögn mína – og þó ekki síður skoðun á ástandi vagnsins á verkstæði, svo augljóslega og ekki síst auðfinnanlega sem það var mjög slæmt. Get ég ekki ímyndað mér annað en að allar hjólalegur séu ónýtar á afturöxli, hver sem frumorsökin annars er, ónýtir hjólbarðar, ónýt sólning eða annað.

Hvað aftur varðar bilun bílstjórans, meðferð hans á vagninum og á okkur farþegum – þá vissulega keyrði nú um þverbak og erum við þó vissulega orðin ýmsu vön, sem fjöldinn allur fleiri, svo ótrúlega sem þjónustu Strætó hefur hrakað ár frá ári, reyndar einungis farið hríðversnandi. Æ oftar mega farþegar upplifa og verða vitni að hrikalegum dónaskap bílstjóra, ekki bara til orðs og æðis heldur sem birtist ekki síður í slíku aksturslagi, endemis rykkjum og skrykkjum og hreinum sljóleika þeirra gagnvart viðfangi sínu, að myndi sannarlega varða lögreglukæru ef í hlut ættu stjórnendur gripaflutningavagna. Er fákunnáttan reyndar slík og augljóst þjálfunarleysið að þeir kunna ekki einu sinni að leggja að gangstéttarbrúnum strætóstoppistöðva, nema örfáir, ekki frekar en að hægja á sér gagnvart rauðu ljósi í stað þess að klossbremsa – nema örfáir.

Hvers mega þeir annars gjalda þeir bílstjórar og aðrir starfsmenn Strætó, innlendir sem erlendir, sem virkilega leggja sig fram og vilja vanda sig? Og hve margir skyldu þeir þó ekki vera sem geta ekki hugsað sér að vinna í slíku umhverfi sem boðið er upp á? Hve mörgum vel hæfum bílstjórum hefur Strætó bs ekki tapað fyrir vikið?

Og hve mörgum tugum milljóna króna tapar ekki Strætó bs ár hvert – einfaldlega vegna þess að farþegar forðast ferðamátann? Skyldi ekki annars frekar ræða um hundruð milljóna króna?

Við lýsum fullri ábyrgð á hendur stjórn og framkvæmdastjórn Strætó bs, svo lengi sem rauðu ljósin eru líka búin að blikka gagnvart þeim. Hér er sannarlega ekki um fjárskort að ræða heldur um vanstjórnun og vanhæfni, reyndar algjört skilningsleysi stjórnenda á viðfangi sínu. Ef um farþegaflug væri að ræða og samsvarandi skort á þjálfun flugmanna sem annarra flugliða þá væri reyndar ekkert slíkt flug, svo einfalt er það – ekki frekar en að gripaflutningar væru leyfðir undir svo algjöru aga- og stjórnleysi.“

 

 

 

 

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Mest lesið

Nýlegt

Fréttir
Fyrir 17 klukkutímum

Óvæntur starfsmannafundur til að tilkynna um sameiningu – 14 sagt upp störfum

Óvæntur starfsmannafundur til að tilkynna um sameiningu – 14 sagt upp störfum
Fréttir
Fyrir 20 klukkutímum

Pétur Jökull handtekinn – Var eftirlýstur af Interpol

Pétur Jökull handtekinn – Var eftirlýstur af Interpol
Fréttir
Í gær

Þjóðskrá segir Önnu og Gunnlaug geta ekki átt lögheimili á Íslandi – „Það er í alvöru hægt að „henda okkur úr landi““

Þjóðskrá segir Önnu og Gunnlaug geta ekki átt lögheimili á Íslandi – „Það er í alvöru hægt að „henda okkur úr landi““
Fréttir
Í gær

Rafmagnslaust víða í Eyjafirði

Rafmagnslaust víða í Eyjafirði
Fréttir
Í gær

Þorsteinn harmar leigubílafrumvarpið – „Þessa þróun þarf að stöðva strax“

Þorsteinn harmar leigubílafrumvarpið – „Þessa þróun þarf að stöðva strax“
Fréttir
Í gær

Hannes skrifar ritgerð um snjóboltakast óþekkts manns

Hannes skrifar ritgerð um snjóboltakast óþekkts manns