fbpx
Fimmtudagur 15.maí 2025
Fréttir

Jón Viðar lét Egil heyra það: „Þið þóttust vera voða sjokkeraðir, þú og rithöfundurinn“

Ritstjórn DV
Fimmtudaginn 28. desember 2023 09:03

Ekki missa af Helstu tíðindum dagsins í pósthólfið þitt

Lesa nánar

Óhætt er að segja að fjörugar umræður hafi farið fram á Facebook-síðu Jóns Viðars Jónssonar, eins þekktasta leikhúsgagnrýnanda þjóðarinnar, í gærkvöldi.

Jón Viðar deildi þar pistli sem lögfræðingurinn Helgi Áss Grétarsson skrifaði og birti á vef Vísis í gærmorgun. Í pistli sínum gagnrýndi Helgi meðferðina á séra Friðriki Friðrikssyni, stofnanda KFUM og KFUK, og þá einkum hvernig staðið var að rannsókn á ásökunum á hendur honum.

Sjá einnig: Helgi orðlaus yfir vinnubrögðunum:„Samviskunnar vegna sé ég mig knúinn til að benda á hið augljósa“

Kynnt með „leikrænum“ tilburðum

Jón Viðar hrósaði skrifum Helga og sagði að loksins væri kominn fram einhver sem segði eitthvað af viti um þá „aðför“ sem borgaryfirvöld og borgarráð hafa hrundið af stað að minningu og mannorði séra Friðriks.

„Eins og Helgi Áss lýsir eru þær „sannanir“ sem bornar hafa verið fram til þessa um meint kynferðisafbrot séra Friðriks gersamlega haldlausar, einnig þetta siðferðisvottorð eða hvað á að kalla það sem stjórn KFUM pantaði og kynnt var nú síðast með leikrænum tilþrifum í Kastljósi Sjónvarpsins,“ sagði Jón Viðar meðal annars í pistlinum á Facebook.

Leikrit sem kom „ruglinu“ af stað

Fjölmargir lögðu orð í belg við færslu Jóns Viðars og var Egill Helgason, fjölmiðlamaður og þáttastjórnandi Kiljunnar, í þeim hópi. Það var einmitt í þætti Egils í október síðastliðnum sem Guðmundur Magnússon, sagnfræðingur og höfundur bókar um séra Friðrik, varpaði ljósi á ásakanir gegn séra Friðriki.

Egill var tiltölulega stuttorður í athugasemd sinni við færslu Jóns Viðars og sagði um skrif Helga: „Ég sé engin merki þess í greininni að hann hafi lesið bókina.“

Því svaraði Jón Viðar svona:

„Það varð raunar ekki heldur séð að þú sjálfur hefðir lesið hana i þessu leikriti sem þú og GM settuð á svið í þætti þínum og kom öllu ruglinu af stað,“ sagði Jón Viðar en GM í þessu samhengi er áðurnefndur Guðmundur Magnússon.

Jón Viðar ekki sáttur

Egill svaraði að bragði að hann hefði nú bara tekið viðtal við höfund um nýútkomna bók eins og hann gerir í hverjum einasta þætti af Kiljunni.

„Og bókina las ég vandlega, þekki reyndar efnið ansi vel enda alinn upp á heimili þar sem Sr. Friðrik var í hávegum hafður. Ætli ég hafi ekki verið svona fimm ára þegar ég handfjatlaði fyrst bók Valtýs Stefánssonar um Friðrik og ég er nokkuð góður í að segja sögur af honum. Ég var sjokkeraður að lesa bókina vegna aðdáunar minnar á karlinum. En að ætla Guðmundi Magnússyni sagnfræðingi og Jakobi F. Ásgeirssyni útgefenda einhvers konar samsæri varðandi þessa bók – og aðrir séu svo þátttakendur í því – það er nokkuð út í hött enda ekki menn sem eru þekktir fyrir að vera ikonoklastar – helgimyndabrjótuðir. En það er ansi slappt hjá borgarfulltrúanum að hafa ekki lesið bókina,“ sagði Egill.

Jón Viðar var ekki á þeim buxunum að láta Egil sleppa auðveldlega.

„Hafir þú lesið bókina, þá kom það hvergi fram með skýrum hætti i þessu svokallaða viðtali, enda töluðuð þið nánast ekki um neitt annað i bókinni en þessar getsakir um kynlif prestsins. Og já – þið þóttust vera voða sjokkeraðir, þú og rithöfundurinn, en þær leiktilraunir voru afskaplega gegnsæjar, vægast sagt, get ég fullvissað þig um sem fagmaður á sviði leiklistar. Ég hef svo engan heyrt áður nefna orðið „samsæri“ i þessu samhengi, en það væri sosum eftir öllu öðru að þú reyndir að troða upp sem fórnarlamb i þessu fári sem þið GM eigið mestan „heiður“ að. – En hvað bókina varðar, þá er vissulega enginn öfundsverður af þvi að þurfa að plægja i gegnum hana – þú mátt bera mig fyrir þvi.“

Umræðurnar má lesa hér að neðan.

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Mest lesið

Nýlegt

Fréttir
Fyrir 18 klukkutímum

Svíar sjá merki um hernaðaruppbyggingu Rússa nærri Finnlandi og Noregi

Svíar sjá merki um hernaðaruppbyggingu Rússa nærri Finnlandi og Noregi
Fréttir
Fyrir 18 klukkutímum

Lík fannst í sjónum á milli Engeyjar og Viðeyjar

Lík fannst í sjónum á milli Engeyjar og Viðeyjar
Fréttir
Í gær

Geymdi dauðan frænda sinn bílskúrnum í fimm ár – Keypti eðlur fyrir bæturnar

Geymdi dauðan frænda sinn bílskúrnum í fimm ár – Keypti eðlur fyrir bæturnar
Fréttir
Í gær

VÆB áfram í Eurovision!

VÆB áfram í Eurovision!