fbpx
Laugardagur 04.maí 2024
Fréttir

Helgi orðlaus yfir vinnubrögðunum: „Samviskunnar vegna sé ég mig knúinn til að benda á hið augljósa“

Ritstjórn DV
Miðvikudaginn 27. desember 2023 10:30

Helgi Áss Grétarsson mynd/Kristinn Ingvarsson

Ekki missa af Helstu tíðindum dagsins í pósthólfið þitt

Lesa nánar

„Samviskunnar vegna sé ég mig knúinn til að benda á hið augljósa,“ segir Helgi Áss Grétarsson lögfræðingur í aðsendri grein á vef Vísis sem birtist í morgun.

Helgi skrifar þar um mál séra Friðriks Friðrikssonar en eins og greint var frá í síðustu viku ákváðu forsvarsmenn KFUM og KFUK að biðjast afsökunar á kynferðislegri áreitni og ofbeldi sem hann var sakaður um. Var talið að hafið væri yfir skynsamlegan vafa að séra Friðrik, stofnandi KFUM og KFUK, hefði farið yfir mörk í samskiptum við drengi og áreitt þá kynferðislega.

Gagnrýnt hefur verið hvernig staðið var að rannsókn á ásökunum á hendur séra Friðriki og gerði Jón Magnússon hæstaréttarlögmaður það til dæmis að umtalsefni á dögunum. Bjarni Karlsson prestur og Sigrún Júlíusdóttir félagsráðgjafi voru fengin til að taka á móti sögum um kynferðislega áreitni og ofbeldi séra Friðriks.

Sjá einnig: Tætir í sig afsökunarbeiðni vegna séra Friðriks – „Þetta er vægast sagt ófaglegt“

Takmarkaðar sannanir

Í grein sinni segir Helgi að kynferðisbrot gegn börnum séu svívirðileg að almenningsáliti jafnt sem lögum enda við þeim lagðar þungar refsingar. Alvarleiki afbrota breyti þó engu um að rannsaka þurfi hvert mál áður en hægt er að komast að niðurstöðu um sekt eða sakleysi þess sem er sakaður um refsiverðan verknað.

Helgi bendir á að séra Friðrik hafi fæðst árið 1868 og dáið árið 1961. Fyrir aðeins um tveimur mánuðum hafi séra Friðrik verið vart umdeildur fyrir verk sín og virðing borin fyrir arfleifð hans en nú virðist eiga að skrifa söguna með þeim hætti að hann hafi farið yfir mörk í samskiptum við drengi og áreitt þá kynferðislega. „Útlit er sem sagt fyrir að framvegis megi telja að séra Friðrik hafi verið kynferðisafbrotamaður,“ segir Helgi.

Hann spyr hvaða sannanir liggja fyrir um að séra Friðrik hafi brotið kynferðislega á drengjum. „Satt best að segja eru þær takmarkaðar, svo ekki sé fastar að orðið kveðið,“ segir hann og nefnir að óljóst sé hvað eigi að hafa átt sér stað, hvort um hafi verið að ræða alvarlegt kynferðisofbeldi, kynferðislega áreitni eða eitthvað annað.

„Heimildarmenn um þau atvik sem greint hefur verið frá undanfarið eru annað hvort nafnlausir eða þá að reist er á frásögn einstaklings sem hefur frásögnina eftir öðrum einstaklingi (e. hearsay). Jafnframt er óljóst hvenær meint brot áttu sér stað en nákvæmni í þeim efnum er að lágmarki æskileg, meðal annars vegna þess að séra Friðrik var nánast orðinn alblindur um miðjan sjötta áratug 20. aldar,“ segir hann.

Erfitt að draga víðtækar ályktanir

Helgi segir vandasamt að meta trúverðugleika frásagna um meint brot séra Friðriks. Tekur hann dæmi af ummælum Guðmundar Magnússonar sagnfræðings og höfundar bókar um séra Friðrik í Kiljunni þann 25. október síðastliðinn þar sem hann sagði:

„…að það gaf sig fram við mig, óvænt, sem sagt maður á áttræðisaldri sem hafði verið í KFUM sem strákur og hann sagði mér sögu af því að hann var tekinn og leiddur útaf samkomu KFUM og á fund Friðriks sem þá er orðinn mjög aldraður og sjóndapur og svo framvegis og lendir í því að vera þar inni í stofu hans einn og veit ekkert hvað er að gerast og Friðrik fer að kjassa hann og káfa á honum öllum á mjög ósæmilegan hátt og honum er mjög brugðið og þetta er minning sem hann hefur aldrei losnað við…“

Helgi segir að það sem er umhugsunarvert við þessa frásögn, út frá sönnun, er að sá sem segir frá samskiptum sínum við séra Friðrik er ónafngreindur og miðað við lýsingu á aldri hans megi ætla að séra Friðrik hafi á þeim tíma verið afar sjóndapur, líklegast blindur.

„Lýsing á atviki sem þessu verður einnig að setja í samhengi við hvað tíðkaðist á þeim tíma sem atburður á að hafa átt sér stað en ekki hvaða mælikvarðar eru núna lagðir til grundvallar. Samandregið, þá er ekki hægt að draga víðtækar ályktanir af þessari einu frásögn.“

Orðlaus yfir vinnubrögðunum

Helgi segir að fleiri fullyrðingar hafi verið settar fram um atvik sem eiga að varpa ljósi á afbrigðilega hegðun séra Friðriks gagnvart drengjum en allar séu þær byggðar á nafnlausum frásögnum.

„Það gerir að verkum að næstum útilokað er að staðfesta með sjálfstæðum hætti hvað viðkomandi vitni varð sjálft áskynja.“

Helgi segir að kjarni málsins sé einfaldur og hann sé sá að rannsókn á ásökunum í garð séra Friðriks hafi hingað til verið ófullnægjandi. „Réttast væri að fá hæft fólk, sem hefur reynslu og sérþekkingu á þessu sviði, til að rannsaka málið frekar,“ segir hann og endar grein sína á þessum orðum:

„Þess grein er rituð vegna þess að ég er orðlaus yfir þeim vinnubrögðum sem hafa hingað til verið viðhöfð vegna ásakana á hendur séra Friðriki Friðrikssyni. Kannski er ég þó mest hugsi yfir því að frekar fátt kunnáttufólk, t.d. á sviði lögfræði og sagnfræði, hefur bent á þann veika grundvöll sem ásakanir á hendur séra Friðriki eru reistar. Að þegja er nefnilega þægilegt í svona máli og þannig fljóta með fjöldanum. En hugleysi í svona máli og þannig umbera skriðuna er ekki til eftirbreytni. Samviskunnar vegna sé ég mig knúinn til að benda á hið augljósa.“

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Mest lesið

Nýlegt

Fréttir
Fyrir 2 dögum

Íbúi í Laugardal orðinn þreyttur á suði frá sendidrónum AHA – Eigandi segir engan truflandi hávaða af drónunum

Íbúi í Laugardal orðinn þreyttur á suði frá sendidrónum AHA – Eigandi segir engan truflandi hávaða af drónunum
Fréttir
Fyrir 2 dögum

Fordæma skemmdarverk á Útilegumanninum

Fordæma skemmdarverk á Útilegumanninum
Fréttir
Fyrir 2 dögum

Karl Arnar hristir hausinn: „Snúið fyr­ir einka­fyr­ir­tæki að standa í sam­keppni við djúpa vasa rík­is­ins“

Karl Arnar hristir hausinn: „Snúið fyr­ir einka­fyr­ir­tæki að standa í sam­keppni við djúpa vasa rík­is­ins“
Fréttir
Fyrir 2 dögum

Kjartan vill að stakir frídagar verði færðir að helgum: Slíta í sundur vinnuvikuna og valda margvíslegu ónæði

Kjartan vill að stakir frídagar verði færðir að helgum: Slíta í sundur vinnuvikuna og valda margvíslegu ónæði