Fannar Jónsson, bæjarstjóri Grindavíkur, segir að kalt mat sé að Grindvíkingar geti verið að horfa fram á 6-8 mánuði frá heimilum sínum í Grindavík. Staðan hans fólki sé æði misjöfn en það sem helst brenni á Grindvíkingum sé að komast með fjölskyldur sínar í skjól í húsnæði þar sem horft sé til einhverra vikna eða mánaða. Þetta kom fram í viðtali við Fannar í Sprengisandi nú í morgun.
„Vonandi er tíminn styttri en það,“ segir Fannar. Hann bendir á tíðar bilanir og stopula afhending í veitu- og rafmagnskerfinu og hans fólk óttist að þannig verði ástandið áfram. „Ef fráveitan er ekki í lagi þá er ekki hægt að ætlast til þess að fólk búi í húsunum,“ segir Fannar og bætir við að þetta eigi sérstaklega við þau hús sem eru á þeim svæðum þar sem sprungan liggur eftir miðjum bænum, þar sé ástandið langverst.
Segir hann að bæjaryfirvöld geri ráð fyrir því að það muni ganga erfiðlega að laga fráveitukerfið um hávetur. Hann reikni því með að endurbætur og uppbygging, ef allt fer á besta veg, geti hafist á vormánuðum, apríl og maí, og mundi standa yfir fram eftir sumri og fram á haust.
Hann segir að möguleiki sé á að íbúar vestast og austast í bænum geti flutt inn fyrr. „En ég held að það þýði ekki að gera ráðstafanir upp á styttri tíma hvað búsetu varðar heldur en 6-8 mánuði, við vinnum með það,“ segir Fannar.
Aðspurður segir Fannar að áætlanir séu að stöðugt að breytast og Grindavíkingar þurfi að vera undir það búnir. Segir hann að íbúar sem hann hafi rætt við kunni að meta það að heyra einhverjar mögulegar tímasetningar varðandi heimkomuna, þó að þær breytist, frekar en að vera í stöðugri óvissu.
Segir hann nú mikilvægt að stjórnvöld vinni að því að þau úrræði sem Grindvíkingum verði boðið upp á séu í hálft ár hið minnsta. Segir hann að sem betur fer sé hluti íbúa þegar búnir að finna slíkar lausnir en enn sé alltof stór hópur sem sé á hrakhólum. Telur Fannar að um 600 fjölskyldur þurfi frekari úrlausnir, enginn sé á götunni en að húsnæðið sé ekki boðlegt til lengri tíma.
Það sé erfitt, sérstaklega í ljósi þess að jólin með öllum sínum hefðum séu framundan.
„Við verðum að horfa til þess að það verða öðruvísi jól hjá okkur,“ segir Fannar.