Maður sem kærði Maríu Lilju Þrastardóttur Kemp blaðamann fyrir meiðyrði tapaði máli sínu gegn henni í héraðsdómi. Hann áfrýjaði til Landsréttar og ákvað þar að flytja málið sjálfur þó að hann sé ólöglærður. Var málinu vísað frá Landsrétti í dag vegna ófullnægjandi greinargerðar mannsins. Greinargerðin var ógnarlöng, 49 blaðsíður, og innihélt að mati dómara margt sem kom málinu ekki við og ekki var hægt að ráða af greinargerðinni hvaða málsástæðum maðurinn tefldi fram til stuðnings kröfum sínum.
Maðurinn krafðist þess að eftirfarandi ummæli Maríu Lilju á samfélagsmiðlum yrðu dæmd dauð og ómerk:
Á Facebook-síðu hennar 18. maí 2018: „Ofbeldismenn að beita konu kúgunum og ofbeldi. Way to proof a point hálfvitar.“
Á Facebook-síðunni Fjölmiðlanördar 10. mars 2018: „Hefði það drepið blaðakonu að googla feril þessara ofbeldismanna sem fá hérað halda uppteknum hætti og hrella barnsmæður sínar óáreittir ? Hér eru hrottar sem berja konur og börn að stunda grimma sögufölsun sér í hag.“
Á Facebook-síðunni Fjölmiðlanördar 10. mars 2018: „Hvað með að flodda þetta millumerki með dómum um þá og viðtölum við mæður sem hafa orðið fyrir ofbeldi frá þeim.“
Maðurinn sem stefndi Maríu Lilju stóð í forræðisdeilu við barnsmóður sínar. Ummælin skrifaði María í tengslum við viðtal DV við nokkra karlmenn í forræðisdeilum, þar á meðal þennan mann.
Héraðsdómur komst að þeirri niðurstöðu að ummæli Maríu Lilju teldust ekki ærumeiðingar og stjórnarskrárvarið tjáningarfrelsi hennar gerði henni heimilt að viðhafa þau. Ummælin væru innleg í þjóðfélagsumræðu sem stefnandi sjálfur hefði verið mjög virkur í. Í dómnum segir:
„… gerðist stefnandi þátttakandi í þjóðfélagsumræðu, fjallaði þar um einkamálefni sín og annarra og fullyrti ítrekað um ofbeldi barnsmóður sinnar, sem og lögbrot sem hann kvað karla verða fyrir af hendi kvenna og opinberra aðila. Telja verður að með þessari framgöngu hafi stefnandi mátt gera ráð fyrir að verða fyrir gagnrýni og varð hann að þola harðari ummæli um sig en ella…“
María Lilja var sýknuð af kröfum mannsins og hann þarf að greiða henni málskostnað.
Dóma Landsréttar og héraðsdóms í málinu má lesa hér.