Alls létust 10 manns og 25 slösuðust eftir að rúta full af brúðkaupsgestum valt í vínræktarhéraði Ástralíu.
Slysið varð í héraði sem kallast Hunter Valley og nær yfir landsvæði sem er 120 til 310 kílómetra norðan við borgina Sydney.
Fram kemur í frétt BBC að rútan hafi verið á leið með farþegana frá vettvangi brúðkaupsins þegar hún valt. Slysið átti sér stað klukkan 23.30 að staðartíma á sunnudagskvöld en ökumaður rútunnar hefur þegar verið ákærður fyrir háskaakstur sem hafi orsakað dauðsföllin tíu.
Enn er verið að bera kennsl á hin látnu en brúðhjónin voru ekki um borð.
Mikil þoka er sögð hafa verið á svæðinu. Rútan valt þegar hún var að beygja á hringtorgi. Talið er víst að gestirnir hafi verið á leið til gististaðar.
Að minnsta kosti einn hinna slösuðu er í lífshættu.
Forsætisráðherra Ástralíu, Anthony Albanese, tjáði sig um slysið og sagði það grimmilegt, sorglegt og ósanngjarnt að gleðilegur dagur á fallegum stað skyldi enda með svo hörmulegum hætti.