Rætt er við hana í viðtalsþættinum Mannamáli sem verður sýndur á Hringbraut í kvöld. Þar segir hún meðal annars að baráttunni við COVID-19 sé ekki lokið, enn greinist 20 til 30 smit á dag en þau séu líklegast helmingi fleiri. Hún segir að COVID-19 muni fylgja mannkyninu um ókomin ár. Þetta kemur fram í Fréttablaðinu í dag.
Hún segir einnig að það komi fleiri heimsfaraldrar í framtíðinni og langlíklegast sé að heimsfaraldur inflúensu verði næsta viðfangsefni mannkynsins á þessu sviði.
Hún segir að loftslagsbreytingarnar geti haft þau áhrif að skæðar pestir, sem herja á heitari löndin núna, færist yfir til þeirra kaldari. Þarna megi til dæmis nefna smitsjúkdóma sem fylgja moskítóflugum. Einnig megi reikna með að nýtt afbrigði fuglaflensu komi fram á sjónarsviðið. Það muni ekki bara berast úr dýrum í menn, eins og nú er, heldur einnig á milli manna.