Eygló Guðmundsdóttir, sálfræðingur, er búsett í borginni Gaziantep,skammt frá landamærum Tyrklands og Sýrlands, og flúði heimili sitt í nótt og aftur í dag vegna jarðskjálftanna sem riðu þar yfir í nótt og í dag.
„Ég var í fastasvefni þegar skjálftinn reið yfir í nótt, aðdragandinn var enginn. Ég svaf í joggingbuxum, hettupeysu og ullarsokkum af því það er búið að vera svolítið kalt. Um fjögurleytið vakna ég við að allt hristist. Ég hef upplifað jarðskjálfta heima, eins og skjálftann árið 2000, þannig að ég gerði mér fulla grein fyrir að þessi skjálfti var harðari. Ég átta mig eftir svona 20 sekúndur að eitthvað er að gerast, gríp gleraugun mín og skóna, klæði mig í skó og úlpu og þegar ég opna fram á stigagang átta ég mig á að eitthvað mikið er í gangi og frekar mikið panik,“ segir Eygló í viðtali við DV.
„Ég bý á sjöttu og efstu hæð, það er myrkur í stigaganginum, enda ekkert rafmagn. En ég var sallaróleg af einhverjum ástæðum. Nágranni minn á hæðinni fyrir neðan mig var með börn sín, tveggja og sjö ára, á sitt hvorri mjöðminni og alveg að fríka út.“
Eygló segist ekki hafa fengið neina viðvörun að hún telji, en hún talar ekki tyrknesku og segir fáa nágranna hennar tala ensku. Leigusali hennar og konan hans komu á bíl stuttu eftir að hún kom út og tóku Eygló upp í bílinn, auk nágrannastúlku hennar og móður hennar.
„Það var ekki hægt að standa úti enda hiti við frostmark og ekki heldur hægt að hafa bílinn í gangi, enda vissum við ekki hvað tæki við og hversu langt við þyrftum að fara. Það er enginn viðbúinn við svona og með fullan bensíntank. Og það var líka búið að biðja fólk að vera ekki að keyra um. Um sex leytið fórum við í mosku hér rétt hjá og þar var mér boðið fallega inn, þar var búið að setja upp ofna og ég komst á salerni. Mér var rétt vatnsflaska og þó við skildum ekki hvort annað með orðum þá skildum við hvort annað. Rétt fyrir sjö var okkur sagt að fara aftur út í bíl, en von var á öðrum skjálfta um sjöleytið.“
Flutti til Gaziantep í haust
Eygló flutti til Gaziantep í september og kom heim um jólin, og flutti síðan aftur út í janúar. „Maður getur bara verið hér þrjá mánuði í einu, ég ákvað að þar sem ég hafði möguleika á að vinna mikið á fjarfundum á sama tíma og ég þurfti frí fyrir skapandi hliðina mína til að klára að skrifa bókina mína og rannsóknargreinar, að flytja hingað til Langtíburtistan til að eiga tíma fyrir sjálfa mig. Það var alls konar álag í COVID, ekki starfið mitt sem slíkt, heldur fann ég að ég þurfti að koma mér aðeins í burtu til að hafa rými til að einbeita mér að því sem ég þurfti að skapa.“
Eygló flutti ein út og hefur komið til Gaziantep um 25 sinnum áður síðustu ár og þekkir því vel til á svæðinu. „Ég kann rosalega vel við mig og er svona spútnik sem vill ekki búa í aðalborgunum og sitja og borða með Svíum og Dönum. Ég vil búa þar sem ég get lært á kúltúrinn annars get ég bara verið heima eða á Benidorm. Þannig hef ég gaman af að ferðast og kynna mér hluti,“ segir Eygló sem segist ekki hafa hitt Íslelnding enn á svæðinu og segir heimamenn hafa mikinn áhuga á þessari miðaldra konu sem er öll í húðflúrum og með hring í nefinu.
Örstutt hvíld heima við
Eygló fékk að snúa aftur á heimili sitt um eitt leytið í dag, enda talið óhætt. Eygló eldaði sér ommelettu og lagðist upp í rúm að hvíla sig. „Ég geri mér alveg grein fyrir að líkaminn var í áfalli eftir þessi átök. Ég næ að sofa í svona 20 mínútur og vakna við að allt er að byrja að skjálfa aftur. Þá er komin meiri panik í stigaganginum og úti. Nágrannar mínir eru að bera út dót og föt og hún segir mér að þau séu að fara í þorp til ættingja sinna 100 km frá.“
Parið var að pakka bíl sinn fullan af dóti og fara í þorp til ættingja sinna um 100 km frá Gaziantep. „Þau voru miður sín að geta ekki boðið mér með. Ég hringdi í vin minn sem sagði að hér væri „safehouse“ og ég sagðist redda mér. Síðan kom ungur maður, dásamlegur nágranni minn sem ég var að hitta í fyrsta sinn, sem var að keyra af stað með tveimur systrum sínun og hann sagðist taka mig með þeim,“ segir Eygló og segir þau hafa keyrt framhjá fjölda fólks, sem bar töskur og eigur sínar. Þau hafi reynt við þrjú „safehouse“ sem öll hafi verið lokuð. Nágranninn hringdi síðan í föður sinn sem var á leið í skóla sem hann kennir í.
„Skólinn er á öruggu svæði en ekki opinn almenningi og þau buðu mér að koma með. Þegar ég kem hingað þá átta ég mig á af hverju ástandið var svona kaótískt. Það er von á öðrum skjálfta í kvöld upp á 8,5 þannig að fólk er að koma ser út úr borginni í 100 km radíus. Hér sit ég bara,“ segir Eygló. Búið er að elda mat og bjóða henni og beddi fyrir nóttina er til staðar. Segir Eygló að ekki sé um háa byggingu að ræða og þau muni fara út þegar skjálftinn ríður yfir. „Ég mun samt örugglega ekki sofa vel í nótt. Hér er ég með yndislegu fólki, kennurum, börnunum þeirra og barnabörnum. Og eins og alls staðar er vel og fallega tekið á móti mér, þau koma með te og mat. Þetta er ein ástæða þess að mér þykir vænt um að vera hér í Gaziantep, það er alltaf einhver til í aðstoða mig. Fólk á lítið en býður með sér.“
„Ég er ótrúlega keppin ég er búin að búa ekki viku í þessu hverfi. Í fyrra hverfinu sem ég bjó í voru hærri byggingar og mun meiri skemmdir þar. Það voru stöðugir eftirskjálftar og fólk beðið um að keyra í burtu frá hverfum með háum byggingum. Við keyrðum framhjá byggingum um kílómetra frá mín húsi sem höfðu gjörsamlega lagst við jörðu, þó húsin væru aðeins 3-4 hæðir.“
Eygló lét fjölskylduna heima vita af sér. „Ég lét börnin mín vita af mér í nótt, þau eru vön að mamma þeirra er á allskonar þvælingi og lendi í alls konar ævintýrum. Eins með foreldra mína, sem eru vön að ég sé alltaf að þvælast um heiminn. Ég er búin að láta börnin mín vita af skjálftanum sem von er á í kvöld.“
Segir Eygló að hafa verið stöðugt áreiti frá fréttamiðlum, en hún sé hálffeimin við þessa athygli, þrátt fyrir að vera opin að eðlisfari. „Ég sagði áðan við einhvern Dana, sem spurði hvernig mér liði: „Þetta er bara eins og það er, ég get ekkert gert. Dönsk vinkona mín vildi koma mér úr landi. Það er ekkert panik hér hjá okkur og ég hugsaði að það er ekkert sem við getum gert nema bíða. Ég ætla að trúa að ég sé öruggari hér en heima á sjöttu hæð.“
Engin ástæða til að rjúka til Íslands
Eygló segist ekki hafa dottið í hug að fara strax heim til Íslands þegar hægt verður eftir skjálftana. „Af hverju á ég að gera það, ég sé ekki tilgang með þvi. Ef ástandið mun vara í marga mánuði og ég mun ekki hafa neinn stað að búa á, þá kannski. En ég skil dönsku vinkonu mína, sem vildi senda einkavél eftir mér. Ég er kannski að eðlisfari róleg í tíðinni, ég hef farið í gegnum ýmislegt í lífinu og sumu getum við ekki stjórnað. Ég get alveg eins orðið fyrir strætó heima. Staðan er eins og hún er og svo sér maður hvernig þetta verður. Á morgun koma kannski frekari upplýsingar. En hver veit hvernig ég verð eftir skjálftann sem von er á.“