Sema Erla Serdar, aktivisti og stofnandi Solaris – hjálparsamtaka fyrir hælisleitendur og flóttafólk á Íslandi – segir ríkislögreglustjóra hafa logið að Umboðsmanni Alþingis.
Frá því var greint í dag að Umboðsmaður Alþingis hafi lokið athugun sem gerð var á embætti ríkislögreglustjóra eftir að hælisleitanda um alþjóðlega vernd hafi verið vísað úr landi í nóvember.
Í bréfi sínu til umboðsmanns sagði Sigríður Björk Guðjónsdóttir, ríkislögreglustjóri, að stoðdeild lögreglu hafi gert ráð fyrir að flytja Hussein Hussein til Keflavíkur í bíl sem væri útbúinn fyrir fólk í hjólastól. Aðstæður hafi þó breyst vegna mótmælenda og hafi lögregla ekki geta tryggt öryggi á vettvangi vegna þeirra.
Sema Erla segir að um lygar sé að ræða í langri færslu á Facebook sem birtist rétt í þessu.
„Ríkislögreglustjóri lýgur opinberlega upp á almenning!,“ skrifar Sema Erla.
Hún segir að ríkislögreglustjóri kenni mótmælendum um „ómannúðlega meðferð“ á Hussein og hversu illa var staðið að brottvísuninni.
„Ríkislögreglustjóri segir að ekki hafi verið hægt að „tryggja öryggi viðkomandi vegna mótmæla, bæði í búsetuúrræði og á hóteli“ sem Hussein og fjölskylda voru flutt á eftir að hafa verið frelsissvipt af lögreglu og fjarlægð af heimili sínu og þá sérstaklega vegna „einstaklinga sem hugðust jafnvel koma i veg fyrir brottflutninginn.“
Hér er Ríkislögreglustjóri að ljúga mjög alvarlegum sökum upp á almenna borgara!“
Sema Erla segir að hún hafi verið ein af þeim sem leitaði fjölskyldu Husseins uppi eftir að fjölskyldan hafi verið frelsissvipt, færð af heimili sínu og sett í felur í þeim tilgangi að varpa ljósi á mannréttindabrot sem væru að eiga sér stað „í skjóli nætur“.
„Við fundum fjölskylduna á hóteli í Hafnarfirði og tókum okkur stöðu fyrir utan hótelið. „Við“ voru ca. sex einstaklingar, plús fréttamaður og upptökumaður frá RÚV. Fjölskyldan var á þriðju eða fjórðu hæð á hótelinu og lögregla sýnileg um allt hótelið.
Ég stóð fyrir utan hótelið og sendi út í beinni útsendingu á Instagram það sem var að eiga sér stað. Aðrir tóku mest allt upp. Ég tók einnig myndir sem fóru í mikla dreifingu í fjölmiðlum og á samfélagsmiðlum. Það er því allt til á filmu sem átti sér stað.
Það er auðvitað hlægilegt að Ríkislögreglustjóri skulu halda því fram að lögreglan, sem taldi á tímabili fleiri en 20 lögregluþjóna, hafi ekki getað „tryggt öryggi“ Hussein og fjölskyldu fyrir mótmælendum.“
Sema Erla segir að fjölskyldunni hafi allan tímann stafað mikið meiri ógn af lögreglunni heldur en af þeim sem væru mætt á svæðið til að sýna fjölskyldunni stuðning.
„Það stóð aldrei til að reyna að koma í veg fyrir brottvísunina og það var ALDREI reynt að hindra störf lögreglu. Við vitum það alveg að við hefðum öll verið handtekin ef svo hefði verið.
Ég neita að sitja þegjandi undir ásökun frá Ríkislögreglustjóra um að eiga sök á illri meðferð lögreglunnar og stjórnvalda á fötluðum flóttamanni og ég furða mig mjög á þessari ósvífni yfirvalda að ljúga upp á samfélagsþegna!“
Telur Sema Erla að skýringar ríkislögreglustjóra séu til þess fallnar að þagga niður gagnrýni á störf lögreglunnar enda hafi Umboðsmaður Alþingis ákveðið að hætta skoðun málsins vegna svara ríkislögreglustjóra. Ekki hafi þeim sem mættu til að styðja fjölskylduna verið gefinn kostur á að svara fyrir sig.
„Í sama bréfi segir Ríkislögreglustjóri sjálfur að þarna hafi lögreglan verið að brottvísa einstaklingi í hjólastól í fyrsta skipti og að skoða þurfi verkferla í kringum það. Samt getur embættið ekki viðurkennt að þau komu illa fram við Hussein og brutu á honum. Í staðinn er logið upp á almenna borgara.
Ég krefst þess að Ríkislögreglustjóri dragi þessi ósannindi til baka og biðjist afsökunar á að ljúga upp á almenna borgara!
Þessu máli er ekki lokið!“