fbpx
Fimmtudagur 25.apríl 2024
Fréttir

Hver er nýi sendiherra Bandaríkjanna á Íslandi? – Ofurlögfræðingurinn frá Texas

Máni Snær Þorláksson
Mánudaginn 8. ágúst 2022 13:30

Carrin F. Patman er nýji sendiherra Bandaríkjanna á Íslandi.

Ekki missa af Helstu tíðindum dagsins í pósthólfið þitt

Lesa nánar

Í gærkvöldi samþykkti öldungadeild Bandaríkjaþings tillögu Joe Biden, forseta Bandaríkjanna, um að skipa Carrin F. Patman í embætti sendiherra Bandaríkjanna á Íslandi.

Patman tekur við embættinu af Jeffrey Ross Gunter sem lét af störfum í janúar í fyrra. Gunter var nokkuð umdeildur á meðan hann var sendiherra hér á landi. Þegar Covid-19 faraldurinn var í fullum gangi árið 2020 deildi hann tísti fyrrverandi forsetans Donald Trump þar sem hann kallaði Covid-19 „kínaveiruna“. Þá vakti það athygli þegar Gunter sagðist telja að lífi sínu væri ógnað á Íslandi. Hann óskaði þess vegna eftir því að fá vopnaða lífverði en auk þess vildi hann fá að bera vopn sjálfur, fá stunguhelt vesti og skotheldan bíl.

Ekki ókunn stjórnmálunum

En hver er þessi nýji sendiherra, hver er Carrin F. Patman og hvernig er hún frábrugðin forvera sínum?

Fyrir það fyrsta þá er Patman skipuð í embættið eftir tillögu Joe Biden á meðan Gunter var skipaður af Trump. Áherslur þeirra Biden og Trump eru vægast sagt ólíkar og hluti af ástæðunum fyrir því að Gunter var umdeildur má vafalaust rekja til Trump. Biden og hans stefnumál eru ekki jafn umdeild hér á landi og því er talsvert ólíklegra að Patman verði jafn óvinsæl meðal Íslendinga og Gunter.

Þessi nýji sendiherra er ekki ókunn stjórnmálunum en hún hefur tekið þátt í kosningabaráttum demókrata á undanförnum árum. Hún hélt til að mynda söfnunararkvöld fyrir Hillary Clinton þegar hún bauð sig fram til forseta árið 2015.

Þá var faðir Patman, William Neff Patman, fulltrúadeildarþingmaður fyrir demókrata frá 1981 til 1985.

Ofurlögfræðingur og stjórnarformaður

Patman útskrifaðist sem lögfræðingur úr University of Texas árið 1982 og starfaði svo sem lögfræðingur í mörg ár. Árið 2003 var hún valin sem svokallaður ofurlögfræðingur í Texas en titillinn er gefin þeim lögfræðingum sem eru „þeir bestu af þeim bestu“. Patman fékk titilinn aftur árið 2004, 2006, og 2007.

Í umfjöllun University of Texas um Patman er farið yfir reynslu hennar sem lögfræðingur. Helst er minnst á mál þar sem Patman varði fyrirtæki gegn ásökunum um brot á samningum, svik og fleira. Til dæmis varði hún fyrrum stjórnarmenn hlutafyrirtækis sem lagði áherslu á rannsóknir á olíu og gasi gegn ásökunum um brot á trúnaðarskyldu.

Einnig varði Patman stórt framleiðslufyrirtæki gegn málsókn þar sem farið var fram á skaðabætur vegna ásakana um asbestmengun.

Patman var einn af eigendum lögfræðistofunnar Bracewell LLP en hætti sem slíkur þegar hún tók við sem stjórnarformaður Houston Metro, sem sér um almenningssamgöngur í Houston í Texas, árið 2016 en hún var fyrsta konan til að gegna starfinu. Hún hætti sem stjórnarformaður í febrúar á þessu ári þegar Biden lagði til að hún yrði nýr sendiherra Bandaríkjanna á Íslandi.

Í viðtali við Houson Chronicle sagðist hún vonast til þess að geta styrkt samstarf og skilning milli vinaþjóðanna Íslands og Bandaríkjanna. Þá sagðist hún vera búin að læra örlítið í íslensku til að undirbúa sig fyrir dvölina.

 

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Mest lesið

Nýlegt

Fréttir
Fyrir 2 dögum

Einingaverksmiðjan og Rafmennt unnu til verðlauna á Verk og vit 

Einingaverksmiðjan og Rafmennt unnu til verðlauna á Verk og vit 
Fréttir
Fyrir 2 dögum

Harmleikurinn á Akureyri – Nágranni ber fólkinu vel söguna – „Það fer rosalega lítið fyrir þeim“

Harmleikurinn á Akureyri – Nágranni ber fólkinu vel söguna – „Það fer rosalega lítið fyrir þeim“