fbpx
Þriðjudagur 23.apríl 2024
Fréttir

Ráðuneytið heggur á hnútinn í M.A.-deilunni – Formaður skólanefndar hringdi í mann og bauð honum stöðuna

Ágúst Borgþór Sverrisson
Miðvikudaginn 18. maí 2022 21:15

Menntaskólinn á Akureyri. Mynd: Kristján J. Kristjánsson

Ekki missa af Helstu tíðindum dagsins í pósthólfið þitt

Lesa nánar

Formaður skólanefndar Menntaskólans á Akureyri er sögð hafa haft samband við ónefndan mann, hvatt hann til að sækja um stöðu skólameistara Menntaskólans á Akureyri og gefið honum vilyrði um að hann fengi starfið. Viðkomandi maður hafnaði þessu góða boði.

Þetta kemur fram í áskorun stjórnar Kennarafélags Mennaskólans á Akureyri til menntamálaráðherra þar sem ráðherra er hvattur til að setja skólanefndina af og hefja ráðningarferli skólameistara upp á nýtt Áskorunin er eftirfarandi:

Kennurum Menntaskólans á Akureyri hafa borist af því fréttir að formaður skólanefndar MA hafi haft samband við ákveðinn aðila, hvatt hann til að sækja um stöðu skólameistara og gefið viðkomandi ádrátt um stuðning nefndarinnar við slíkri umsókn.

Viðkomandi aðili hafnaði slíku tilboði og hefur upplýst ráðuneytið um umrætt samtal.

Ekki þarf að fjölyrða um að svona framferði er með öllu ólíðandi. Það er ófaglegt og siðlaust. Með því er vandaðri stjórnsýslu kastað fyrir róða, rýrð varpað á Menntaskólann á Akureyri og má segja að umsækjendum, sem sóttu um starfið í góðri trú, hafi verið mismunað.

Almennur félagsfundur Kennarafélags MA, haldinn þriðjudaginn 17. maí 2022, harmar þá stöðu sem upp er komin og skorar á ráðherra menntamála að stöðva umsóknarferlið hið snarasta, að auglýsa stöðu skólameistara að nýju og að skipa óháða hæfnisnefnd til að vinna úr umsóknum. Auk þess skorar fundurinn á ráðherra að leysa núverandi skólanefnd frá störfum, enda er hún rúin trausti, og skipa nýja.

Ráðuneytið skipar sérstaka hæfnisnefnd

DV fjallaði um málið í gær. Núverandi skólameistari, Jón Már Héðinsson, lætur brátt af störfum en unnið hefur verið að ráðningu nýs skólameistara í samræmi við lögboðið ferli undanfarið. Skólanefnd hefur það hlutverk varðandi ráðningu skólameistara að senda ráðgefandi umsögn þar um til menntamálaráðherra. Að því loknu er afskiptum hennar af málinu lokið. Umsækjendur um stöðuna eru eftirtaldi (Heimild: akureyri.net):

  • Alma Oddgeirsdóttir, brautastjóri í MA
  • Ásta Fönn Flosadóttir, skólastjóri
  • Karl Frímannsson, sviðsstjóri fræðslu- og lýðheilsusviðs hjá Akureyrarbæ
  • Kristín Elva Viðarsdóttir, skólasálfræðingur í MA
  • Ómar Örn Magnússon, doktorsnemi
  • Sigurlaug A. Gunnarsdóttir, aðstoðarskólameistari MA
  • Þuríður Helga Kristjánsdóttir, framkvæmdastjóri

Mennta- og barnamálaráðherra skipar í embættið til fimm ára í senn frá 1. ágúst að fenginni umsögn skólanefndar. Af framansögðu er ljóst að á meðal þessara umsækjenda er ekki sá sem formaður skólanefndar er sögð hafa boðið söguna, sá aðili sótti ekki um.

Þó að ráðuneyntið segi það ekki berum orðum í tilkynningu sinni um málið er erfitt að lesa annað úr þeim texta en að ráðherra hafi einmitt farið eftir áskorun kennarafélagsins, sett skólanefndina af og hafið ferlið upp á nýtt. Að vísu er staðan ekki auglýst upp á nýtt heldur eru fram komnar umsóknir í fullu gildi en nýir aðilar skulu leggja mat á þær. Tilkynning menntamálaráðuneytisins vegna málsins er eftirfarandi:

„Mennta- og barnamálaráðuneytinu hefur borist erindi frá Kennarafélagi Menntaskólans á Akureyri (MA) þar sem skorað er á ráðherra að hefja umsóknarferli við skipun skólameistara menntaskólans á ný með nýrri skólanefnd. Ástæðan er vantraust á störfum núverandi skólanefndar, sem félagið telur að eigi að leysa frá störfum. Til að sátt ríki um skipunina hefur Ásmundur Einar Daðason, mennta- og barnamálaráðherra, ákveðið að skipa sérstaka hæfninefnd utanaðkomandi sérfræðinga til að leggja mat á sömu gögn frá umsækjendum og skólanefndin byggði umsögn sína á.

Ráðuneytið tekur ábendingar Kennarafélags skólans alvarlega og vekur athygli á að skólanefndir taka ekki ákvörðun um skipan í embætti skólameistara heldur veita þær ráðherra lögbundna umsögn sem eingöngu byggir á umsóknargögnum umsækjenda. Mennta- og barnamálaráðherra skipar skólameistara til fimm ára í senn að fenginni umsögn hlutaðeigandi skólanefndar skv. 6. gr. laga um framhaldsskóla nr. 92/2008, sbr. lög um réttindi og skyldur starfsmanna ríkisins nr. 70/1996, með síðari breytingum. Ráðuneytið hefur móttekið umsögn skólanefndar MA vegna skipunar nýs skólameistara.

Við skipun skólameistara leggur ráðuneytið heildstætt mat á umsækjendur á grundvelli þeirra sjónarmiða sem fram komu í auglýsingu um embættið. Til grundvallar slíku mati eru umsóknargögn umsækjanda sem taka m.a. til ferilskrár, kynningarbréfs og framtíðarsýnar fyrir skólann, frammistöðu umsækjenda í starfsviðtölum og meðmæla auk umsagnar skólanefndar. Að loknu heildstæðu mati tekur ráðherra sjálfstæða ákvörðun um skipun hæfasta umsækjanda í embættið byggða á öllum fyrirliggjandi gögnum. Ábendingar Kennarafélags MA hafa borist ráðuneytinu og er erindið nú einnig hluti af gögnum málsins.

Mikilvægt er að sátt ríki um framkvæmd skipunar skólameistara innan og utan skólans. Í ljósi stöðunnar mun ráðherra skipa hæfninefnd utanaðkomandi sérfræðinga til að leggja mat á sömu gögn frá umsækjendum og skólanefndin byggði umsögn sína á. Umsögn skólanefndar, hæfninefndar og erindi Kennarafélagsins verða meðal þeirra gagna sem horft verður til við skipun nýs skólameistara.

Mennta- og barnamálaráðuneytið mun fara yfir þær ábendingar sem borist hafa um skólanefndina m.t.t. áframhaldandi starfa hennar.“

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Mest lesið

Nýlegt

Fréttir
Fyrir 22 klukkutímum

Ásdís Rán komin með lágmarksfjölda meðmælenda – „Þetta var auðveldara fyrir hina“

Ásdís Rán komin með lágmarksfjölda meðmælenda – „Þetta var auðveldara fyrir hina“
Fréttir
Fyrir 23 klukkutímum

Manndráp í Kiðjabergi – Mennirnir voru að byggja sumarbústað

Manndráp í Kiðjabergi – Mennirnir voru að byggja sumarbústað
Fréttir
Fyrir 2 dögum

COLLAB HYDRO – Einstakur drykkur fyrir íslenskar aðstæður

COLLAB HYDRO – Einstakur drykkur fyrir íslenskar aðstæður
Fréttir
Fyrir 2 dögum

Siggi hakkari fluttur til Danmerkur og veitti Ekstrabladet viðtal – Mikið gert úr njósnum en lítið úr kynferðisbrotunum

Siggi hakkari fluttur til Danmerkur og veitti Ekstrabladet viðtal – Mikið gert úr njósnum en lítið úr kynferðisbrotunum