Það var nóg að gera hjá lögreglunni á höfuðborgarsvæðinu í gærkvöldi og í nótt samkvæmt dagbók hennar sem send var á fjölmiðla í morgun.
Klukkan 19:10 í gær var tilkynnt um mann sem var kominn inn í íbúð þrátt fyrir að vera þar óvelkominn. Þegar lögreglan kom á staðinn var maðurinn sofandi í íbúðinni og búinn að valda tjóni í henni. Maðurinn var handtekinn og fluttur á lögreglustöð en þar neitaði hann að segja til nafns, hann var vistaður í fangaklefa í þágu rannsóknar málsins.
Klukkan rúmlega 1 í nótt var lögreglunni svo tilkynnt um ofurölvi einstakling sem neitaði að yfirgefa veitingastað. Þegar lögreglu bar að garði var einstaklingnum vísað á dyr en hann lét sér ekki segjast og neyddist lögregla því til að færa aðilann út og flytja hann á lögreglustöð. Þar héldu vandræðin áfram því einstaklingurinn neitaði líka að yfirgefa lögreglustöðina og fara heim til sín, þrátt fyrir að vera laus úr haldi lögreglu.
„Mat lögreglu að ekki væri hægt að skilja viðkomandi eftir úti í þessu ástandi og endaði málið með því að aðilinn var vistaður í fangageymslu þangað til hann gæti sýslað með einkahagi sína.“
Þetta var ekki eini ofurölvi einstaklingurinn sem lögregla þurfti að aðstoða í nótt því um klukkan 3 í nótt var tilkynnt um slíkan sem var sofandi í garði. Þegar lögregla mætti á svæðið reyndi hún að fá upplýsingar um hver hann væri eða hvar hann ætti heima. Eftir ítrekaðar árangurslausar tilraunir var aðilanum ekið á lögreglustöð þar sem hann fær að sofa úr sér þar til hægt er að aka honum heim til sín.
Klukkan rúmlega 4 var haft samband við lögregluna vegna líkamsárásar í miðbænum. Þolandi er með áverka í andliti eftir árásina og er málið í rannsókn.
Þá voru tveir ökumenn stöðvaðir í akstri vegna gruns um akstur undir áhrifum áfengis og fíkniefna, annar þeirra var einnig grunaður um vörslu fíkniefna en hinn var ekki með ökuréttindi. Einn ökumaður var svo stöðvaður vegna gruns um akstur undir áhrifum fíkniefna og var sá laus eftir hefðbundið ferli.