Lögreglustjórinn á höfuðborgarsvæðinu hefur fellt niður mál gegn Arnari Sverrissyni, sálfræðingi, fyrir meinta hatursorðræðu. Eins og DV greindi frá í sumar var Arnar kærður vegna greinar sem hann skrifaði um kynskipti og birtist á Vísi þann 11. ágúst 2020 undir fyrirsögninni: „Kynröskun stúlkna. Hin nýja „móðursýki“. Hávær mótmælaalda reis upp vegna greinarinnar og gaf meðal annars Trans Ísland, stuðnings- og baráttusamtök fyrir trans fólk á Íslandi, gaf út yfirlýsingu þess efnis að greinin væri uppfull af rangfærslum, fordómum og vanþekkingu og það jaðraði við að um hatursorðræðu væri að ræða.
Sjá einnig: Arnar boðaður í yfirheyrslu vegna meintrar hatursorðræðu um kynskipti
Þá gaf Trans-treymi Landspítalans einnig út yfirlýsingu vegna málsins þar sem grein Arnars var fordæmd.
Síðustu mánuði hefur málið því verið í rannsókn en Arnar greindi frá því á Facebook-síðu sinni í morgun að málið hefði verið fellt niður.
„Svo virðist sem ríkissaksóknara og þrýstihópi kynskiptinga verði ekki að þeirri ósk sinni að vista mig á Hólmsheiðinni og hafa af mér sektarfé, því mér barst í fyrradag svofellt bréf frá lögreglustjóraembættinu á höfuðborgarsvæðinu,“ skrifar Arnar.
Fram kemur að hann hafi verið kærður fyrir að „ráðast á mann eða hóp manna með rógi, smánun, ógnun eða öðrum hætti vegna litarháttar, kynþáttar, trúarbragða eða kynhneigðar.“
Segir í bréfinu að það sem hafi komið fram við rannsókn málsins þyki ekki nægjanlegt eða líklegt til sakfellis.