fbpx
Fimmtudagur 16.september 2021
Fréttir

Velta fyrir sér hvort lögregla hafi haft heimild til að handtaka konuna – „Gersamlega sturlað“

Jón Þór Stefánsson
Föstudaginn 30. júlí 2021 10:30

Skjáskot

Ekki missa af Helstu tíðindum dagsins í pósthólfið þitt

Lesa nánar

Eflaust fór það ekki fram hjá mörgum í gær að kona hafi verið handtekinn við Orkuhúsið á Suðurlandsbraut þar sem óléttar konur voru bólusettar. Konan mótmælti bólusetningunni og öskraði meðal annars: „„Óléttar konur eru að fara í sprautu og drepast! Og drepast! Það er eitur í þessum sprautum!“ Í kjölfarið var hún handtekin af lögreglu, en atburðarásin náðist upp á myndband.

Sjá einnig: Þetta er konan sem var handtekin er hún mótmælti bólusetningum – „Aðeins of ástríðufull í þetta“

Málið hefur verið á milli tannana á fólki, og það hefur velt fyrir sér mörgum hliðum þess. Þar má meðal annars nefna laglegu hliðina, en á Facebook-hópnum Lögfræðinördar var fjallað um málið. Spurningin sem kveikti á umræðum þar var eftirfarandi:

„Kona var handtekin fyrir að hrópa út af bólusetningum. Hver er handtökuheimildin?“

Miklar umræður sköpuðust um málið. Sumir vildu meina að hún hafi óhlýðnast lögreglu, líkt og í þessu svari: „Er ekki algengast að taka það á að óhlýðnast lögreglu. Löggan segir hættu að öskra, hún öskrar áfram og er handtekin. Nokkrir dómar held ég fallið sem heimila þetta, eins galið og það er.“

„Gersamlega sturlað“

Einn einstaklingur svaraði þessu, en hann sagði það „gersamlega sturlað“ að skerða mætti tjáningarfrelsi einstaklings ef hann myndi óhlýðnast lögreglu líkt og konan gerði. Þess má geta að konan hélt því fram að handtakan væri ólögleg þegar hún átti sér stað. „Þetta er algengt á Íslandi, og gersamlega sturlað. Einhvern veginn líta (sumir) dómarar svo á að 19. grein lögreglulaga standi ofar stjórnarskrá. Nefnilega að sama hvað lögreglu detti í hug að halda fram að sé nauðsynlegt til að halda uppi lögum og reglu á almannafæri þá hljóta það að trompa tjáningarfrelsi stjórnarskrár.“

Annar meðlimur hópsins benti á lögreglulög og sagði að lögreglan hefði heimild til að fjarlægja fólk til að halda uppi almannafriði, og þegar einhver „ærist á almannafæri“ „Lögreglan má fjarlægja fólk til að halda uppi almannafriði samkvæmt lögreglulögum (15), og handtaka þann sem „ærist á almannafæri“ (16. gr)“ Einn svaraði því og sagði að það þyrfti að uppfylla ákveðið skilyrði í stjórnarskrá svo það ætti við. „Væntanlega þarf þetta að uppfylla skilyrði 73. gr. stjskr. Það dugar a.m.k. ekki að það sé hávaði eða „rangar“ skoðanir. Heldur ekki að tjáningin sé öðrum óþægileg.“

„Frelsi til tjáningar kemur málinu ekkert við“

Í enn einu svarinu sagði einn að lögreglan hafi verið kölluð til þar sem að ekki hafi verið hægt að róa hana, og vildi meina að tjáningarfrelsi kæmi málinu í raun ekkert við: „Hún hrópaði og beindi orðum sínum að barnshafandi konum með orðum sem ekki eru eftir hafandi. Atgangurinn var slíkur að einhverjar þeirra grétu. Starfsfólk á staðnum mat það svo að svona gæti þetta ekki gengið og fyrst ekki gekk að stilla konuna yrði að fá hjálp lögreglu. Lögreglan kom á staðinn og mat það svo að fjarlægja þyrfti konuna vegna framkomu hennar. Þá neitað hún að segja til nafns. Frelsi til tjáningar kemur málinu ekkert við heldur eru þetta óspektir og heimildina til handtöku má örugglega finna í löreglusamþ., og líklega í hgl. Aumingjans konan var gargandi vitlaus og ekki að sjá að hún væri í nokkru jafnvægi.“

Þessu var svarað skömmu síðar, en einum meðlimi hópsins fannst út í hött að halda því fram að málið varðaði ekki tjáningarfrelsi: „Auðvitað snýst þetta um tjáningarfrelsi og rétt(leysi) fólks til að láta ónáða sig með tjáningu annarra á almannafæri.“

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Mest lesið

Nýlegt