fbpx
Miðvikudagur 04.ágúst 2021
Fréttir

Bjartmari hjólhestahvíslara hótað – „Ef þú heldur svona áfram þá verða afleiðingar“

Ágúst Borgþór Sverrisson
Miðvikudaginn 23. júní 2021 15:30

Ekki missa af Helstu tíðindum dagsins í pósthólfið þitt

Lesa nánar

Bjartmar Leósson er fyrir löngu orðinn landsþekktur fyrir starf sitt við að endurheimta stolin reiðhjól og önnur, oft rándýr, farartæki, til dæmis rafskutlur og rafhjól. Bjartmar hefur hlotið viðurnefnið hjólhestahvíslarinn fyrir sitt þrotlausa starf á þessu sviði. Hann á oftast í friðsamlegum samskiptum við þjófana, sem flestir búa í gistiskýlum, en þó ekki alltaf. Nýlega hefur meintur þjófur haft í hótunum við hann og sá maður telst vart til utangarðsfólks, enda ekki heimilislaus, og er hann vel klæddur og að virðist vel stæður.

Bjartmar hefur árangurslaust reynt að ná úr höndum mannsins rándýru MATE-X rafhjóli, að verðmæti 370 þúsund krónur, sem var stolið af manni einum fyrir stuttu. „Við vorum þarna tveir, ég og eigandi hjólsins, að reyna að ná af honum hjólinu sem við vitum að hann er með. Lögreglan kom á staðinn enda höfðum við sterkan grun um að hjólið væri þarna inni. En maðurinn og kærasta hans náðu einhvern veginn að bulla lögregluna í burtu. Þegar lögreglan er farin þá breytir hann um fas, gengur hægt upp að mér og var með ógnandi tilburði. Hann kemur alveg upp að mér, er alveg ofan í andlitinu á mér og segir: „Hvað ertu að meina? Hver þykistu vera?“ Og fleira þess háttar.“

Maðurinn hefur áður haft í hótunum við Bjartmar er sá síðarnefndi var að reyna að ná af honum hjólinu fyrir skömmu. „Þá kom hann líka alveg svona ofan í andlitið á mér og sagði: „Ég hef alveg gefið fólki sjens en ef þú heldur svona áfram þá verða afleiðingar.“ Hann bar leðurhanska með hörðum hnúum, en það er val handrukkarans þegar hanskar eru keyptir.“

Bjartmari finnst mikilvægt að bregðast við hótunum með því að segja frá þeim og þess vegna hefur hann greint frá þessu í Facebook-hópi sínum og hikaði ekki við að veita DV viðtal um málið þegar eftir því var leitað. Hann vildi einnig gjarnan fá birta mynd af hjólinu sem hann var að reyna að endurheimta þegar maðurinn ógnaði honum, til að hamla því að hægt sé að koma því í verð. Er fólk varað við því að kaupa þetta hjól ef því verður boðið það til sölu. Það á að rata aftur í hendur síns rétta eiganda.

Hótanir sjaldgæfar

Bjartmar hefur verið óþreytandi undanfarin tvö ár í því erfiða starfi að endurheimta þjófstolin reiðhjól og aðra fararskjóta. Oftast á hann þar í samskiptum við utangarðsfólk sem býr í gistiskýlum og gengur um með vírklippur í rassvasanum. Margir hafa bætt ráð sitt eftir kynni sín af Bjartmari.

„Þetta hefur í rauninni gengið ótrúlega vel og friðsamlega,“ segir Bjartmar og staðfestir að það heyri til algjörra undantekninga að honum sé hótað. Honum stóð hins vegar ekki alveg á sama við hótunina í gær og um daginn. Tilburðir mannsins hafi verið ógnandi og hann hafi virst hafa burði til að gera alvöru úr hótunum sínum. „Ég er minnst hræddur við þá sem öskra og eru með læti, svona eins og smáhundar. En þegar menn labba rólegir upp að mér og koma alveg ofan í andlitið á mér, þá fer maður aðeins að taka mark á því.“

Segir Bjartmar að samskipti hans við utangarðsfólkið sem gerir sig sekt um þjófnaði einkennist almennt af gagnkvæmri virðingu. Inn á milli eru hins vegar harðsvíraðri menn.

Bjartmar segir mikilvægt að lögreglan fari að taka af meiri festu á þessum málum enda sé oft verið að ræna miklum verðmætum, t.d. rafskútum og rafhjólum. Nýlega endurheimti Bjartmar reiðhjól Líf Magneudóttur, borgarfulltrúa VG, sem hafði verið stolið. Líf ætlar að láta þessi mál til sín taka í borgarstjórn og hefur kynnt þar mögulega uppsetningu á hjólaklefum sem yrði komið fyrir um borgina og hægt að læsa hjól inni í þeim.

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Mest lesið

Nýlegt

Fréttir
Í gær

Ölvaður maður datt af rafmagnshlaupahjóli og slasaðist

Ölvaður maður datt af rafmagnshlaupahjóli og slasaðist
Fréttir
Í gær

Frægir, flokksgæðingar og fyrirmenni í nefndum ríkisins – Þúsundir liggja á launum í 644 ríkisnefndum – Sjáðu hverjir eru hvar

Frægir, flokksgæðingar og fyrirmenni í nefndum ríkisins – Þúsundir liggja á launum í 644 ríkisnefndum – Sjáðu hverjir eru hvar
Fréttir
Fyrir 3 dögum

Covid smitaður Ólympíufari segir aðstæður hörmulegar í farsóttahúsi í Japan – Lýsir sama aðbúnaði og í sóttvarnarhúsum á Íslandi

Covid smitaður Ólympíufari segir aðstæður hörmulegar í farsóttahúsi í Japan – Lýsir sama aðbúnaði og í sóttvarnarhúsum á Íslandi
Fréttir
Fyrir 3 dögum

Kattabúr veldur ólgu í Garðabæ – „Ég get ekki bara leyft þessu búri að vera þarna. Þetta er ógeðslegt.“ – Eigandinn skýrir málið

Kattabúr veldur ólgu í Garðabæ – „Ég get ekki bara leyft þessu búri að vera þarna. Þetta er ógeðslegt.“ – Eigandinn skýrir málið
Fréttir
Fyrir 4 dögum

Gísli Alfreðsson látinn

Gísli Alfreðsson látinn
Fréttir
Fyrir 4 dögum

Sviðin jörð ungrar íslenskrar konu: Stal 350 þúsund króna úri af Alberti – Sökuð um að hóta og sparka í mann sem hún svindlaði á

Sviðin jörð ungrar íslenskrar konu: Stal 350 þúsund króna úri af Alberti – Sökuð um að hóta og sparka í mann sem hún svindlaði á