fbpx
Laugardagur 19.júní 2021
Fréttir

Spjótin beinast að Þórólfi – Vilja grímurnar burt – „Ísland er sóttkví“

Jón Þór Stefánsson
Sunnudaginn 21. febrúar 2021 20:00

Mynd/Anton Brink

Ekki missa af Helstu tíðindum dagsins í pósthólfið þitt

Lesa nánar

Seinustu daga hefur umræða um grímuskyldu og notagildi hennar færst í aukanna í samfélaginu. Þórólfur Guðnason, sóttvarnalæknir, hefur sagt að gríman verði ein síðasta smitvörnin til að falla og að Íslendingar séu almennt ánægðir með grímunotkunina.

Greint hefur verið frá því að von sé á tilslökunum á næstu dögum, en Þórólfur hefur gefið heilbrigðisráðherra minnisblað sitt.

Vilja grímuna burt

Nú hafa nokkrir sem eru áberandi í þjóðfélagsumræðunni dregið þá fullyrðingu í efa og kallað eftir því að grímuskyldan verði felld niður. Gunnar Smári Egilsson, formaður Sósíalistaflokksins, spurði í seinustu viku: „Hvenær verður grímuskyldan aflögð og samkomutakmarkanir einnig?“ í færslu sem hann birti á Facebook.

Jón Magnús­son, hæsta­réttar­lög­maður og fyrr­verandi þing­maður,  virðist sammála Gunnari og sagði yfirvöld ekki hafa neinn rétt til að takmarka frelsi fólks af sóttvarnarástæðum þegar smit í landinu væru nánast engin. Björn Bjarnason tók í svipaðan streng: „Það yrði stórt skref [að losna við grímuna] til að breyta ásýnd samfélagsins í orðsins fyllstu merkingu.“

Sá nýjasti til að bætast í hópinn er Kristinn Hrafns­son, rit­stjóri Wikileaks, sem skrifaði harðorða færslu á Facebook-síðu sína í dag. Þar birti hann mynd sem sýndi COVID-sögu Íslands og bendir á að gríman virðist ekki hafa haft úrslitavægi í baráttunni við veiruna.

„Hér er mynd af covid sögu Íslands sem spannar ár. Hún sýnir tvær bylgjur (já, nei ég nenni ekki að tala um þrár – eða fjórar). Fyrri bylgjan var sigruð með samhæfðum aðgerðum án almennrar skyldu til grímunotkunar. Sú seinni kraumaði lengi en tók síðan sitt skrið, steig og hneig á meðan grímuskylda var við lýði (mis hörð).

Ef gríman er metin á „face value“ (já þetta er „pun“ tilraun) mætti ætla að hún hafi ekki ráðið úrslitum í framþróun bylgju tvö miðað við árangur í bylgju eitt. Þetta er svona alþýðuvísindanálgun í anda hinnar frægu spurningar. „Um hvað reiddust guðin þá, er hér brann hraunið, er nú stöndum vér á?“. Tekið skal fram að Snorri goði var hvorki útlærður jarðvísindamaður né guðfræðingur úr virtum háskóla og hefði verið úthrópaður á samfélagsmiðlum sem bábyljumaður ef hann hefði frestað jarðvist sinni um ríflega þúsund ár.“

Skjáskot af covid.is – Mynd sambærileg þeirri sem birtist í færslu Kristins.

Uppnefndir „Trumpistar, Qanonsinnar, eða jafnvel Miðflokksmenn“

Kristinn heldur því þá fram að lítið pláss virðist vera fyrir gagnrýni á grímunotkunina. Hann segir að fólk sem leyfi sér að efast sé uppnefnt samsæriskenningasmiðir, fávitar, eða eitthvað verra. Þá vill hann meina að efasemdirnar fái ekki pláss í fjölmiðlum.

„Tiltrú á áhrifamætti grímunnar er samt slík að Þórólfur sóttvarnarlæknir sér enga ástæðu til þess að aflétta notkunarskyldunni fyrr en líður að jólum – ef þá. Fullyrðir einnig að almenningur sé afar sáttur við að bera þær. Þeir sem efast eru svo úthrópaðir Trumpistar, Qanonsinnar, samsæriskenningasmiðir, þjóðóhollustugemlingar, fávitar eða jafnvel Miðflokksmenn. Ekki nokkur maður hefur fengið að viðra efasemdir í fjölmiðlum og yrði klipptur út ef það slíkt slysaðist út í beinni útsendingu.

Það er lítið pláss fyrir jafnvel hófsamar og gagnrýnar spurningar því í þessu sem öðru vex eyrað beint upp af ökklanum.“

Kristinn fullyrðir að Ísland sé sóttkví og útskýrir það með því að segja að það væri jafnerfitt fyrir kommúnista að fá dómarastöðu og það sé fyrir fólk að komast í landið.

„Meðfylgjandi mynd sýnir fortíðina en staða mála er þessi: Það hefur ekki fundist virkt smit utan sóttkvíar í mánuð. Verið er að bólusetja og á að vera búið að klára alla fullorðnu þjóðina eftir 3-4 mánuði. Ísland ER sóttkví. Það er jafnerfitt að komast inn í landið og fyrir gamlan kommúnista að fá dómarastöðu.“

„Hamfarablæti“ Íslendinga

Að lokum ræðir Kristinn um „hamfarablæti“ Íslendinga. Hann segir ekki hægt að útiloka snjóflóð um sumar og hryðjuverkaárásir á Hallgrímskirkju, en það þýði þó ekki að maður þurfi að sitja uppi í sófa með spennt belti.

„Allt getur auðvitað gerst. Það er til dæmis ekkert útilokað að snarbilaður islamisti steli flugvél og klessi henni á Hallgrímskirkju eða að snjóflóð falli á byggt ból í júlí. Hið fullkomna öryggi felst í því að sitja með sætisólar spenntar, heima í stofusófa og spjalla við börnin inn í herbergjum á Zoom. (Hér mætti koma anekdóta um öryggi vs frelsi)

Í samfélaginu kraumar eitthvað sérstakt hamfarablæti sem sprettur fram í hvert skipti sem einhverjir leyfa sér að spyrja eðlilegra spurninga um smitvarnarstefnu. Þetta er álíka og dæmin fjölmörgu um fólkið með lítinn lífstilgang sem umfaðmar sorgina ef hún bankar uppá og neitar að sleppa. Þetta er fólkið sem myndi hrækja á Íslendinginn sem dirfðist að segja „þetta er búið“ þegar landsliðið er undir 0-3 og fimm mínútur eru til leiksloka.

Þrátt fyrir allt hvet ég fólk til þess að gleyma ekki gagnrýnni hugsun. Og umfram allt: andið eðlilega.“

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Mest lesið

Nýlegt

Fréttir
Í gær

Ofurölvi par með 8 ára barn á veitingastað – Líkamsárásir og slys

Ofurölvi par með 8 ára barn á veitingastað – Líkamsárásir og slys
Fréttir
Í gær

Huggun að líffæragjöf Sólveigar færi öðrum betra líf – „Það er mikil fegurð í þessu“

Huggun að líffæragjöf Sólveigar færi öðrum betra líf – „Það er mikil fegurð í þessu“
Fréttir
Fyrir 2 dögum

Gunnlaugur tapaði fyrir Borgarbyggð – Stefndi sveitarfélaginu vegna brottrekstrar úr bæjarstjórastóli

Gunnlaugur tapaði fyrir Borgarbyggð – Stefndi sveitarfélaginu vegna brottrekstrar úr bæjarstjórastóli
Fréttir
Fyrir 2 dögum

Eimskip þarf að borga einn og hálfan milljarð í sekt vegna samkeppnisbrota

Eimskip þarf að borga einn og hálfan milljarð í sekt vegna samkeppnisbrota