fbpx
Laugardagur 20.apríl 2024
Fréttir

Magnhildur vildi 70 milljónir frá Þjóðkirkjunni – Var sagt upp störfum á Biskupsstofu

Ágúst Borgþór Sverrisson
Föstudaginn 19. nóvember 2021 09:58

Magnhildur Sigubjörnsdóttir (t.v.) og Lára V. Júlíusdóttir, lögmaður hennar, við aðalmeðferð málsins. Mynd: Ernir

Ekki missa af Helstu tíðindum dagsins í pósthólfið þitt

Lesa nánar

Dómur var í gær kveðinn upp í Héraðsdómi Reykjavíkur í máli Magnhildar Sigurbjörnsdóttur, fyrrverandi verkefnastjóra á Biskupsstofu, gegn Þjóðkirkjunni, en hún krafði Þjóðkirkjuna um rúmar 70 milljónir í miskabætur vegna meintrar ólöglegrar uppsagnar í starfi.

Magnhildur hafði unnið á Biskupsstofu frá árinu 1998 en henni var sagt upp í nóvember árið 2020. Tilgreind ástæða uppsagnarinnar var skipulagsbreytingar vegna þröngrar fjárhagsstöðu.

Magnhildur taldi uppsögnina ólöglega þar sem ekki hafi verið fylgt ákvæðum laga um réttindi og skyldur opinberra starfsmanna við framkvæmd hennar. Ennfremur hafi ekki verið gætt að stjórnsýslureglum við uppsögnina því Magnhildur hefði ekki notið andmælaréttar í aðdraganda uppsagnarinnar né hafi verið gætt að meðalhófi.

Þjóðkirkjan hafnaði því að Biskupsstofa hefði þurft að fylgja þessum ákvæðum. Magnhildur naut réttinda sem opinber starfsmaður árið 1998 en í september 2019 var gert samkomulag milli Þjóðkirkjunnar og ríkisins sem kveður á um að Þjóðkirkjan skuli hafa sjálfstæðan fjárhag, bera fulla ábyrgð á eigin fjármálum og ákveða sjálf fjölda starfsmanna sinna. Í samræmi við þetta var gerður nýr ráðningarsamningur við Magnhildi sem var undirritaður 1. janúar 2020 en í samningnum er meðal annars þetta ákvæði:

„Lög um réttindi og skyldur starfsmanna ríkisins munu gilda um starfið, eftir því sem við á fram til 31. mars 2020, eða þar til kirkjuþing hefur sett nýjar starfsreglur.“

Þrátt fyrir þetta taldi dómurinn að Biskupsstofu verið verið heimilt að segja Magnhildi upp, samkvæmt eftirfarandi röksemdafærslu:

„…ekki var í nýjum ráðningarsamningi stefnanda gert ráð fyrir óbreyttum réttindum hennar. Þvert á móti segir þar orðrétt: „Lög um réttindi og skyldur starfsmanna ríkisins munu gilda um starfið, eftir því sem við á fram til 31. mars 2020, eða þar til kirkjuþing hefur sett nýjar starfsreglur.“ Af orðskýringu ákvæðisins leiðir að það var sá atburður sem fyrr ætti sér stað sem leiða myndi til þess að lög nr. 70/1996 giltu ekki lengur um starf stefnanda, enda hefði engin nauðsyn staðið til þess að tiltaka nokkurt tímamark í þessum efnum ef einfaldlega hefði átt að tryggja stefnanda fortakslausan rétt samkvæmt framangreindum lögum þar til kirkjuþing hefði sett nýjar starfsreglur. Þannig virðist ákvæðið hafa tekið mið af því að kirkjuþing kynni að setja reglur um málefnið fyrir lok mars 2020, enda átti framhaldsfundur kirkjuþings 2019 að fara fram í mars 2020 samkvæmt ummælum í lögskýringargögnum að baki bráðabirgðaákvæði XII í lögum nr. 78/1997, sbr. breytingarlög nr. 153/2019, eins og áður segir, en að mati dómsins er bersýnilegt að fyrrgreint samningsákvæði tók einnig mið af því lagaákvæði.“

Þjóðkirkjan og Biskupsstofa voru sýknaðar af kröfum Magnhildar en málskostnaður fellur niður.

Dóminn má lesa hér

 

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Mest lesið

Hvalur sprakk í tætlur

Nýlegt

Hvalur sprakk í tætlur
Fréttir
Í gær

Sanna birtir ferðasögu: Var lengur í strætisvagninum en í fermingarveislunni – „Það var gott að fá þessa strætóreynslu“

Sanna birtir ferðasögu: Var lengur í strætisvagninum en í fermingarveislunni – „Það var gott að fá þessa strætóreynslu“
Fréttir
Í gær

Siggi stormur óvenju bjartsýnn varðandi sumarið – „Ég er eiginlega í sjöunda himni yfir þessu”

Siggi stormur óvenju bjartsýnn varðandi sumarið – „Ég er eiginlega í sjöunda himni yfir þessu”