fbpx
Sunnudagur 28.nóvember 2021
Fréttir

Umdeild skrif Jakobs Bjarnar um hagsmunatengsl á RÚV – „Íslendingar eru prinsipplaus þjóð“ – „Hættu þessu rugli, Jakob“

Ágúst Borgþór Sverrisson
Sunnudaginn 24. október 2021 10:00

Ekki missa af Helstu tíðindum dagsins í pósthólfið þitt

Lesa nánar

Jakob Bjarnar Grétarsson, hinn þekkti blaðamaður Vísis, veltir vöngum yfir því hvort eðlilegt sé að starfandi tónlistarmenn starfi sem dagskrárgerðarmenn á Ríkisútvarpinu og velji þar tónlist til flutnings. Jakob er ekki í vafa um að hér sé um að ræða „samansúrruð hagsmunatengsl“. Pistill sem hann ritaði um þetta mál á Fésbókarsíðu sína í gærkvöld hefur vakið mikla athygli og líflegar umræður, en pistillinn er svohljóðandi:

„Fæstum þætti eðlilegt ef ég starfrækti veitingastað á kvöldin en fjallaði sem blaðamaður um veitingageirann vítt og breytt á daginn. Og gæfi mig út fyrir að vera faglegur í því. En þetta er nákvæmlega sambærilegt við það sem er að gerast hjá Ríkisútvarpinu og hefur tíðkast lengi. Þar eru ýmsir dagskrárgerðarmenn sem samhliða starfa sem tónlistarmenn á kvöldin. Þarna eru auðvitað samansúrruð hagsmunatengsl. Ef á að vera hægt að verja þennan ríkisrekstur á samkeppnisvettvangi þá verður stofnunin að vera fagleg. En það er hún auðvitað ekki og skákar í því skálkaskjólinu að Íslendingar eru prinsipplaus þjóð. Auðvitað er þetta ekkert stórmál í hugum flestra en ef við föllumst á að þetta sé í góðu lagi hvernig á þá að vera hægt með góðu móti að gagnrýna spillingu þegar meiri sameiginlegir hagsmunir eru undir? Prinsipp eru ekki umsemjanlegt fyrirbæri, eða spurning um hvar á að setja línuna. (Ég geri ekki ráð fyrir að fá mörg læk á þennan status ef nokkurt — hún verður alltaf þykk þögnin þegar ég impra á þessu.)“

Spá Jakobs um þykka þögn við þessum skrifum reynist ekki rétt því pistillinn vekur mikla athygli. Sumir benda á að eðlilegt sé að kunnugir fjalli um tónlist hjá Ríkisútvarpinu og engir þekki betur til tónlistar og tónlistarheimsins en tónlistarmennirnir sjálfir. Bent er á að þekktir starfandi tónlistarmenn sjái um vinsæla þætti hjá BBC og því sé ekkert séríslenskt við þessa stöðu. Jakob svarar því þannig:

„Við erum hentistefnufólk sem oft er afsakað með fámenninu. Þetta er eitt dæmi af mýmörgum. Því miður halda margir að BBC sé sjálfur sannleikurinn.“

Hinum þekkta tónlistarmanni og fyrrverandi dagskrárgerðarmanni hjá RÚV, Magnúsi R. Einarssyni, þykja þessi skrif ómarkleg, og segir hann:

„Kemur enhverjum við hvað menn bardúsa í frítímanum? Get a grip.“

Jakob svarar þessu og segir að lykilatriði í því samhengi séu hagsmunatengslin:

„Ef það er ótengt því sem fólk er að fjalla um og snertir ekki með beinum hætti hagsmuni þá er auðvitað ekkert við það að athuga. Vandinn er mengun hugarfarsins sá að stór hópur sér ekkert bogið við að það sé smá spillt því það er svo ágætt og er að gera svo góða hluti. Hygla menningunni, hvað er að því? En þá eru mælikvaðarnir orðnir býsna skældir þegar á að bregða þeim á önnur svið samfélagsins, viðskiptalífið og pólitík td. En fólk vill ekki sjá þetta. Það hentar ekki.“

„Hættu þessu rugli Jakob og settu Band on the Run á fóninn“

Hinn þrautreyndi dagksrárgerðarmaður á Rás 2, Ólafur Páll Gunnarsson – Óli Palli –, segir hvorki spillingu, samsæri né klíkuskap hafa áhrif á tónlistaval hjá RÚV, og reifar hann fjölbreytta spilun á íslenskri tónlist á Rás 2:

„Ég hef bara þetta að segja sem opinber starfsmaður Ríkisútvarpsins. Við sem þar störfum erum fyrst og fremst að vanda okkur við að gera gott útvarp fyrir sem flesta. Það er örugglega margt sem er hægt að gera betur en okkur tekst í dag en það er engin spilling – ekkert samsæri – enginn klíkuskapur og ekkert slíkt. Við erum opinberir starfsmenn og högum okkur samkvæmt því. Það vilja allir meiri spilun en þeir fá – það er staðreynd.

Þið sem gagnrýnið mest – hafið þið kynnt ykkur dagskrána á Rás 2? Hlustið þið virkilega á Rás 2? Vitið þið um alla póstana sem við erum með til að kynna íslenska tónlist? Og hver raunverulegur munur er á Rás 2 og öðrum stöðvum varðandi íslenska tónlist td?

Við erum að gera mikið af góðum hlutum varðandi Íslenska tónlist – allskonar tónlist, en fyrst og fremst þurfum við að sinna eigendum útvarpsins – hlustendum. Það getur ekki verið sjálfsagður réttur fólks sem fæst við það að búa til músík – að hún sé sjálfkrafa spiluð á Rás 2 – það virkar bara ekki þannig. Matur er mis-góður, og það er músík líka.

Þetta er ekki allt jafn gott. Ég ber mikla virðingu fyrir tónlistarfólki yfir höfuð og elska tónlist.

Ást og friður í massavís.“

Jakob svarar því til að Óli Palli sé að misskilja sig. Pistill hans sé ekki árás á RÚV: „Þetta fjallar um prinsipp, hæfi og trúverðugleika. Hæfishugtakið snýst ekki endilega um að þú sért að misnota aðstöðu þína beint eða óbeint heldur hvort þú sért í aðstöðu til þess.“

Óli Palli segir að lög og reglur samfélagsins séu til þess að gæta þess að fólk misnoti ekki aðstöðu sína. Hann biður Jakob um að „hætta þessu rugli“ og setja plötu með hljómsveitinni  Wings á fóninn:

„Eru ekki lög og reglur til að passa uppá að við mannfólkið höldum okkur innan ramma og högum okkur ekki eins og skepnur? Erum við ekki alla daga í allskyns aðstöðu til að gera þetta og hitt – en gerum það ekki vegna þess að reglur samfélagsins banna það. Hættu þessu rugli Jakob og settu Band on the Run á fóninn.“

Dagskrárgerðarkona auglýsti bókina sína hjá Gísla Marteini

Áhugavert innlegg í þessa umræðu kemur frá blaðamanninum Baldri Guðmundssyni, sem vekur athygli á því að Júlía Margrét Einarsdóttir, rithöfundur og dagskrárgerðarkona á RÚV, hafi auglýst nýja skáldsögu sína með áberandi hætti í þætti Gísla Marteins, Vikan, á föstudagskvöldið:

„Í gær var hjá Gísla Marteini rithöfundur (reyndar mjög skemmtileg, en það er önnursaga) sem var að gefa út bók. Hún kynnti bókina, eins og Gísli reyndar, í myndavélina og boðaði afsláttarkjör fyrir þá sem forpanta. Ég hugsaði, vá hvað hún er heppin að komast í settið í sennilega vinsælasta þætti vikunnar í sjónvarpi, á prime time á föstudagskvöldi. Ekki öllum rithöfundum tekst það.

Ég sá einhvers staðar í dag að hún vinnur á RÚV.“

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Mest lesið

Nýlegt