fbpx
Föstudagur 19.apríl 2024
Fréttir

Meira um gagnalekann frá lögreglunni – Á gráu svæði ef lögreglan er í upplýsingasambandi við virkan brotamann

Ágúst Borgþór Sverrisson
Mánudaginn 11. janúar 2021 15:32

Höfuðstöðvar lögreglunnar á höfuðborgarsvæðinu.

Ekki missa af Helstu tíðindum dagsins í pósthólfið þitt

Lesa nánar

Ljóst er af trúnaðargögnum sem lekið var fyrir helgi og varða spillingarrannsókn héraðssaksóknara á lögreglufulltrúa árið 2016 að Anton Kristinn Þórarinsson athafnamaður var í virku upplýsingasambandi við lögreglufulltrúann og með vitund og leyfi yfirmanns fíkniefnadeildarinnar. Einnig kemur fram í gögnunum að Anton var álitinn af lögreglu vera virkur brotamaður enda var hann ákærður fyrir fíkniefnabrot á tímabilinu sem meðal annars kom til umfjöllunar í rannsókninni á lögreglumanninum.

Rétt er að halda því rækilega til haga að nýjasti dómur sem Anton Kristinn hefur hlotið féll árið 2000. Hann var sakfelldur í héraði vegna fíkniefnabrots árið 2009 en sýknaður í Hæstarétti. Hann var ákærður fyrir annað brot árið 2014 en sýknaður af því broti í ársbyrjun 2015. Því er ekki sannað að Anton hafi verið brotamaður síðan fyrir árið 2000. Ljóst er hins vegar af gögnunum að lögreglan áleit hann vera virkan brotamann.

Samkvæmt heimildum DV og upplýsingum úr gagnalekanum er það vinnuregla innan lögreglunnar að eiga ekki í upplýsingasambandi við virkan brotamann. Ekkert er hins vegar í lögum og reglum sem kveður á um það sérstaklega og vel kann að vera að yfirmenn telji það þjóna hagsmunum rannsókna tiltekinna mála að víkja frá reglunni. Fjallað er um uppljóstrara lögreglunnar í þriðja kafla reglugerðar um sérstakar aðgerðir lögreglu við rannsókn sakamála. Þar er gerður greinarmunur á tilfallandi uppljóstrara sem gefur lögreglu upplýsingar án þess að stofnað sé til fasts upplýsingasambands og aðila sem er í föstu upplýsingasambandi við lögreglu. Vitanlega getur lögregla þegið og sannreynt upplýsingar frá hverjum sem er. Reglulegt samband við upplýsingagjafa er hins vegar annað mál.

Ekki víst að lekinn verði rannsakaður

Áleitnar spurningar vakna um mögulega fyrirgreiðslu til uppljóstrara lögreglu. Í svari Kolbrúnar Benediktsdóttur, varahéraðssaksóknara, við fyrirspurn DV kemur fram að ekki er heimild til að falla frá saksókn eða fella niður mál vegna upplýsinga sem gefnar eru. Hins vegar getur upplýsingagjöf leitt til lækkunar refsingar samkvæmt almennum hegningarlögum, en þar segir í 9. tölulið 1. málsgreinar 70. grein, að það hafi áhrif á þyngd refsingar hvort sakborningur veitir af sjálfsdáðum aðstoð eða upplýsingar sem hafa verulega þýðingu við að upplýsa brot.

Kolbrún sagði ennfremur að það væri enn til athugunar hvort gagnalekinn mikli sem varð rétt fyrir helgi verði rannsakaður af embættinu sem lagabrot. Óvíst er hvort rannsókn verður sett í gang.

Í reglum um uppljóstrara lögreglunnar segir enn fremur:

„Upplýsingasambandi verður aðeins komið á í samráði við og með samþykki yfirmanns. Við mat á því hvort stofna skuli til upplýsingasambands skal meðal annars leggja til grundvallar aldur, kyn, sakaferil og áreiðanleika upplýsingagjafa, hvaða ástæður og hvatir búa að baki vilja til upplýsingagjafar, hver sé líklegur árangur af upplýsingagjöf og hvort unnt sé að tryggja öryggi lögreglumanns og upplýsingagjafa eftir að til upplýsingasambands hefur verið stofnað.

Óheimilt er að stofna til upplýsingasambands nema í hlut eigi lögreglumaður sem telst til þess hæfur að mati lögreglustjóra. Við mat á hæfi skal meðal annars litið til líf- og starfsaldurs, starfsreynslu og/eða annarrar reynslu, þekkingar eða færni sem lögð verður að jöfnu við starfsreynslu hjá lögreglu. Upplýsingasambandi skal slitið ef það skilar ekki tilætluðum árangri eða forsendur þess eru ekki lengur fyrir hendi.“

Samkvæmt reglunum getur uppljóstrari lögreglunnar farið fram á nafnleynd.

Má borga uppljóstrurum

Enn fremur segir í reglunum að lögreglumanni sé óheimilt að gefa uppljóstrara fyrirheit um ívilnanir eða fríðindi enda séu slík fyrirheit ólögleg eða ekki á valdi lögreglumanns að veita.

Hins vegar heimila reglurnar að uppljóstrari fái borgað fyrir upplýsingar sem leiða annaðhvort til þess að komið er í veg fyrir að alvarlegt brot sé framið eða að alvarlegt brot sem hefur verið framið verði upplýst. Engar tölur eru nefndar í reglunum en sagt að fjárhæð greiðslunnar skuli „í hverju tilviki ákveðin með hliðsjón af vægi upplýsinganna, eðli og alvarleika brots, vinnu og kostnaði uppljóstrara og áhættu sem hann tekur.“

Í yfirheyrslu sem finna má í gögnunum sem var lekið neitaði Anton því að hafa fengið greitt fyrir upplýsingar til lögreglu. Hann neitaði einnig að hafa borið fé á lögreglumanninn sem var til rannsóknar en miklar sögusagnir voru um það innan lögreglunnar að hann hefði greitt honum. Var það niðurstaða rannsóknarinnar að enginn fótur væri fyrir þeim orðrómi.

 

 

 

 

 

 

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Mest lesið

Nýlegt

Stöð 2 lækkar verð
Fréttir
Í gær

Segist enga tengingu hafa við heimalandið en verður samt að sitja í fangelsi þar

Segist enga tengingu hafa við heimalandið en verður samt að sitja í fangelsi þar
Fréttir
Í gær

Kíghósti greinist hjá nokkrum ótengdum einstaklingum á höfuðborgarsvæðinu

Kíghósti greinist hjá nokkrum ótengdum einstaklingum á höfuðborgarsvæðinu