fbpx
Laugardagur 02.desember 2023
Fréttir

Kári vill uppreisn – „Við viljum að ungt fólk sé stundum óhlýðið“

Erla Dóra Magnúsdóttir
Miðvikudaginn 7. apríl 2021 11:20

Ekki missa af Helstu tíðindum dagsins í pósthólfið þitt

Lesa nánar

Kári Stefánsson er nýjasti gesturinn í hlaðvarpi fjölmiðlamannsins Sölva Tryggvasonar.

Í þættinum fara Kári og Sölvi yfir Covid tímabilið, hve lengi er hægt að halda áfram að grípa inn í líf fólks, mikilvægi þess að óvinsælar raddir fái að heyrast og margt fleira.

Útilokað að veira hafi orðið til á rannsóknarstofu

Í þættinum ræða Sölvi og Kári um uppruna Covid og möguleikann á að veiran hafi verið búin til á rannsóknarstofu:

,,Það er nánast útilokað að þessi veira hafi orðið til á rannsóknarstofu, einfaldlega vegna þess að það er mjög flókið verkefni. Og mér finnst það býsna alvarlegt af framkvæmdastjóra alþjóðaheilbrigðisstofnunarinnar að halda því fram að það sé ekki búið að afsanna það að Kínverjar hafi búið til þessa veiru á rannsóknarstofu. Þegar maður kemur fram með svona nýstárlega kenningu hvílir á manni að sanna hana, en ekki annarra að afsanna hana.

Það er annað sem þessi sami framkvæmdastjóri hefur gert nýlega sem gerir það að verkum að ég hef enga trú á þessum manni lengur. Hann er að kvarta yfir því að Evrópusambandið hafi hafi ekki verið nógu duglegt að ná sér í bóluefni.

Ef Evrópusambandið hefði verið duglegra að ná sér í bóluefni væri enn minna til fyrir þriðja heiminn. Hvernig í ósköpunum vogar þessi maður sér að kvarta undan því að ríku þjóðirnar hafi ekki verið nógu gráðugar? Það er eitt mikilvægasta hlutverk alþjóðaheilbrigðismálastofnunarinnar að reyna að hlúa sem mest að heilbrigðisþjónustu fátækra landa. Mér sýnist að Vesturlönd séu búin að kaupa 90-95% þeirra bóluefna sem verða afhent á þessu ári, þannig að misræmið er alveg ótrúlegt.”

Vonast eftir uppreisn

Kári segir líka í þættinum að það sé löngu tímabært að neyða lyfjafyrirtæki til að lækka verð á lífsnauðsynlegum lyfjum:

,,Lyfjaiðnaðurinn hefur farið glæpsamlega að því að verðleggja lyf á síðustu árum og það hefur haldið áfram að versna. Ég geri mér von um að það verði gerð uppreisn og hún verður að byrja í Bandaríkjunum þar sem að tryggingarfyrirtæki hafa verið viljugri en annars staðar til að borga þessi verð. En þetta gengur ekki lengur.

Ég vonast til þess að annars vegar tryggingafyrirtækin og hins vegar ríkisstjórnin í Bandaríkjunum fari að snúast gegn þessu af því að ástandið eins og það er í dag er óásættanlegt. Lyf sem skilja á milli lífs og dauða eru oft eingöngu aðgengileg mjög litlum hundraðshluta heimsins.”

Stoltur af Sigríði Andersen

Kári segir í þættinum mjög mikilvægt að yfirvöldum sé veitt aðhald:

,,Það er mjög mikilvægt að ungt fólk geri uppreisnir hér og þar og það er mjög mikilvægt að samfélagið sé ekki allt of hlýðið og fólk fari út fyrir troðnar slóðir…Við viljum að ungt fólk sé stundum óhlýðið og það samfélag sem kemur í veg fyrir það er komið á mjög slæman stað. En það koma augnablik þar sem fólk þarf að snúa bökum saman og þessi farsótt er eitt af þeim augnablikum

……En við höfum fólk eins og Sigríði Andersen og Brynjar Níelsson sem er mótfallið þessum aðgerðum og ég get sagt að þó að ég sé gjörsamlega ósammála hverri einustu skoðun sem Sigríður Andersen hefur tjáð, hvort sem það er á farsóttinni eða öðru, þá er ég gífurlega ánægður með að hún skuli tjá þessar skoðanir sem eru svona óvinsælar. Ég er mjög montinn af henni að tjá þær og samfélagið á að fagna því að það sé fólk sem er reiðubúið að tjá þessar skoðanir. Um leið og við hættum að tjá skoðanir sem ganga gegn því sem samfélaginu finnst almennt, þá erum við komin á vondan stað. Á hinum og þessum tímum í gegnum söguna hafa samfélög gleymt mikilvægi þess að óvinsælar skoðanir séu tjáðar, með slæmum afleiðingum.”

Grímur eru táknrænar

Kári segir sóttvarnaraðgerðir augljóslega gífurlegt inngrip inn í líf fólks og það verði alltaf að vega og meta hvenær sé of langt

Aðspurður um grímunotkun segir Kári að þær séu mikilvægar, jafnvel þó að fólk noti sömu grímuna oft, þar sem þær séu táknrænar. En hann segist telja ljóst að grímuskyldu verði aflétt áður en langt um líður:

,,Það eru ákveðnir kunningjar mínir sem ég vildi að væru með grímu það sem eftir er bara út af því hvernig þeir líta út! En ég held að grímurnar hljóti að fara mjög fljótlega. Ég vona að fólk haldi áfram að hafa alls konar skoðanir á öllum þessum aðgerðum og deili um þær.”

13. október verður dagurinn

Kári segist mjög bjartsýnn á að búið verði að aflétta öllum Covid-aðgerðum næsta haust:

,,Þegar það verður búið að bólusetja 200-250 þúsund Íslendinga ættum við að geta vonast til þess að lífið verði komið í nokkurn vegin eðlilegt horf.

Ég vonast til þess að 13. október verði búið að aflétta þessu öllu. Það er góður dagur og þá verður vonandi búið að aflétta öllum aðgerðum,” segir Kári, sem sjálfur fékk bólusetningu nýlega:

,,Það er búið að bólusetja mig einu sinni. Fyrri bólusetning með AstraZeneca. Ég kvartaði ekki yfir neinu eftir bólusetninguna, fyrr en það var farið að skamma mig daginn eftir fyrir að hafa ekki farið út með ruslið. Þá gat ég notað það sem afsökun að hafa verið bólusettur daginn áður.”

Færð smá hita eftir bólusetningu

Foreldrar Sölva eru á þeim aldri að það fer að koma að þeim í bólusetningu og Sölvi spyr Kára í þættinum út í áhættuna af bólusetningu fyrir eldra fólk:

,,Þegar fólk er komið á þeirra aldur, þá er getan til að búa til kraftmikið ónæmissvar miklu miklu minna og þar af leiðandi er inngripið minna. Það er ástæðan fyrir því að yngra fólk fær gjarnan harkalegri viðbrögð við bóluefninu.  …..Engu að síður er eðlilegt að þegar manneskja hefur verið bólusett á föstudegi og svo finnst hún látin á laugardegi að menn búi til tengingu milli þessa tveggja. Og sú tenging getur verið til staðar á mjög eðlilegan hátt. Þú færð svolítinn hita eftir bólusetninguna og með hitanum kemur alls konar álag á líkamann og ef þetta er manneskja sem er veik fyrir getur það nægt til þess að hún deyi. En það er ekki þessi venjulegu orsakatengsl sem er yfirleitt verið að hugsa um.”

Hlutverk Decode lítið í dag

Hlutverk íslenskrar erfðagreiningar á Íslandi hefur verið gífurlega mikið í faraldrinum og það var fyrst í febrúar á þessu ári sem hlutverk þeirra varð minna:

,,Síðan 15. febrúar er okkar hlutverk búið að vera mjög lítið, en fram að því var það mjög mikið. Eigendur Íslenskrar Erfðagreiningar gáfu mér grænt ljós á að gera allt sem þyrfti til að styðja við íslenskt samfélag. En það sem veldur mér svolitlum áhyggjum er að ef við hefðum ekki verið til staðar hefði þetta verið mjög erfitt. Reynslan núna bendir til þess að það hefði verið erfitt fyrir heilbrigðiskerfið að sinna þessu vel. Það var alveg ljóst strax í byrjun faraldursins að rannsóknarstofa landsspítalans var með gömul tæki og lítilvirk. Svo fóru þeir og keyptu tæki, en það var ekki tekið í gagnið fyrr en 15 febrúar á þessu ári. Það er erfitt fyrir gamlan sósíalista að viðurkenna að ríkisbáknið virkar ekki mjög vel á svona augnablikum. Það er ekki nógu ljóst hver tekur ákvarðanir og hver hefur vald til að taka stjórnina í óvenjulegum aðstæðum eins og þessum. Ég lagði til að sett yrði á stofn farsóttarstofnun, en ég sé ekki merki þess að það eigi að gerast.”

Notar tæknina til að rækta tengsl

Kári segist sjálfur hafa nýtt sér tæknina til að halda sambandi við dætur sínar og barnabörn:

,,Ég á barnabörn á Íslandi og í Ameríku. Ég hef það fyrir sið að hringja á ,,Facetime” til dóttur minnar í Los Angeles á hverju kvöldi áður en ég fer að sofa. Þessi tækni sem menn hafa tilhneigingu til að tala niður hefur bjargað lífi mínu á síðasta ári. Ég hef fengið að sjá framan í Markús Kára, Alexander Róbert og Leó Kristján vini mína og það er mikils virði. Ég hef líka getað talað við Sólveigu dóttur mína úti í Berlín og sjá hundinn hennar, sem að hún hefur bundist mjög sterkum böndum á stuttum tíma,” segir Kári, sem segist handviss um að hann geti hitt dætur sínar og barnabörn í Bandaríkjunum næsta haust:

,,Ég er alveg handviss um að ég get farið út og hitt þau eftir 13. október. Það sagði mér fugl að það yrði dagurinn. Það er handan við hornið og þá verður maður búinn að eiga enn eitt sumar í þessu dásamlega landi sem við búum í. Og nú reikna ég með að aðdráttarafl þessa lands verði enn meira eftir eldgosið. Mér þykir mjög vænt um ferðamannaiðnaðinn og það er frábært að leyfa aðgangi heimsins að koma hingað og heimsækja okkur og sjá hvað við búum í fallegu landi. En ég held að það hafi ekki verið annar kostur en að setja þessar takmarkanir á meðan pestin er að herja á heiminn.”

Í þættinum fara Kári og Sölvi yfir síðastliðið ár, hvað hefur verið vel gert og hvað ekki, hvenær kemur að þeim punkti að hætta verður stóru inngripi í líf fólks og margt margt fleira.

Þáttinn í heild má sjá hér að neðan:

https://www.youtube.com/watch?v=gqvc9pk0CCw&t=18s

 

 

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Mest lesið

Nýlegt

Fréttir
Fyrir 18 klukkutímum

„Það er svo margt rangt við þessa framkvæmd alla að mig skortir orð til að lýsa hvað ég er gáttuð“

„Það er svo margt rangt við þessa framkvæmd alla að mig skortir orð til að lýsa hvað ég er gáttuð“
Fréttir
Í gær

Bróðir Eddu Bjarkar segir hana verða framselda til Noregs

Bróðir Eddu Bjarkar segir hana verða framselda til Noregs