fbpx
Miðvikudagur 28.október 2020
Fréttir

Átök við Dominos Skeifunni – Sauð upp úr á milli pizzusendils og manns á rafhlaupahjóli

Ágúst Borgþór Sverrisson
Sunnudaginn 27. september 2020 16:47

Dominos í Gnoðarvogi - Mynd tengist frétt ekki beint. Mynd: Anton Brink

Ekki missa af Helstu tíðindum dagsins í pósthólfið þitt

Lesa nánar

Sjónarvottur að atviki við Dominos Skeifunni í gærkvöld hafði samband við DV og sendi inn lítið myndband af átökum milli pizzusendils og ungs manns á rafhlaupahjóli. Maðurinn á hlaupahjólinu ók veg fyrir bíl merktan pizza-keðjunni og fór utan í hliðarspegil á bílnum. Er sendillinn steig út úr bílnum brást maðurinn á hjólinu, sem virtist mjög ungur að árum miðað við lýsingu sjónarvotts, mjög dólgslega við og barði í bílinn.

Maðurinn sló í átt til sendilsins sem að sögn sjónvarvottar hafði sig ekki í frammi og settist aftur inn í bílinn.

Atvikið átti sér stað laust fyrir kl. 11 á laugardagskvöldið. Af persónuverndarástæðum er ekki hægt að birta myndbandið sem sjónarvotturinn tók.

DV hafði samband við Birgi Örn Birgisson, framkvæmdastjóra Dominos, vegna málsins. Í fyrstu kannaðist hann ekki við atvikið þar sem sendillinn hafði ekki tilkynnt um það. En er hann hafði náð sambandi við sendilinn fékk hann upplýsingar sem hann miðlaði góðfúslega til DV:

„Venjan er að tilkynna svona atvik, til vaktstjóra eða í símaver, en hann hafði ekki gert það. Sagðist hann ekki hafa litið atvikið þeim augum að hann þyrfti að tilkynna það. Hann sagði að maður á vespu [Innskot DV: Gögn sýna að um rafhlaupahjól var að ræða en ekki vespu] hefði ekið á hliðarspegil hjá honum og hann hefði farið eitthvað út og þá hefði umræddur maður orðið æstur og látið dólgslega. Hann hefði því ákveðið að setjast upp í bílinn og keyra burtu. Hann var nógu rólegur yfir þessu til að láta vera að tilkynna þetta og við þurftum að elta þetta uppi. Hann fór sem sagt út úr bílnum til að athuga með spegilinn en af því honum fannst þetta vera að fara út í einhvern æsing ákvað hann að spennast ekkert yfir því heldur fara inn í bílinn og keyra burtu.“

Aðspurður sagðist Birgir ekki hafa á hreinu hvor hefði keyrt á hvorn en þeir hefðu rekist á og pizzasendillinn upplifði þetta sem mjög léttvægt atvik. Upplýsingar um skemmdir á bílnum liggja ekki fyrir.

Aðspurður segir Birgir að nánast alltaf berist tilkynningar um áreiti gegn pizzusendlum mjög fljótt til yfirmanna þeirra. „Við erum með mjög skýrar reglur um hvernig pizzusendlar eiga að láta okkur vita og svo setjum við af stað ákveðið protocol þegar það gerist, og hann er mjög vel meðvitaður um það. Svo meta þeir sjálfir alvarleika atvika.“

Birgir segir að sem betur fer sé ekki algengt að pizzusendlar séu áreittir þó að slíkt komi fyrir. „Sem betur fer hefur ekkert alvarlegt gerst í nokkurn tíma. Fyrir nokkrum árum var reynt að taka peningaveski af sendli en í dag tökum við ekki lengur á móti reiðufé í heimsendingum og því eru þeir ekki með neina peninga.“

Birgir segir að haft sé samband við lögreglu ef atvik eru nægilega alvarleg. Miðað við mat sendilsins gildi það þó ekki um þetta atvik. Hins vegar hafi hliðarspegill á bílnum skemmst eitthvað.

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Mest lesið

Nýlegt