fbpx
Þriðjudagur 16.apríl 2024
Fréttir

Yfirlýsing frá barnsmóður Ólafs Hand

Ágúst Borgþór Sverrisson
Fimmtudaginn 10. september 2020 14:10

Landsréttur. Mynd: Ernir

Ekki missa af Helstu tíðindum dagsins í pósthólfið þitt

Lesa nánar

Barnsmóðir Ólafs William Hand, hefur óskað eftir að DV birti eftir hana yfirlýsingu undir yfirskriftinni „Leiðrétting vegna ummæla Ólafs Hand. Barnsmóðir biður um frið.“ DV hefur ákveðið að birta yfirlýsinguna.

Eins og greint hefur verið ítarlega frá í fjölmiðlum var Ólafur William Hand sakfelldur fyrir héraðsdómi síðla árs 2018 fyrir líkamsárás á barnsmóður sína. Síðastliðið sumar var hann sýknaður af sömu ákæru fyrir Landsrétti með mjög afgerandi hætti.

Rétt er að taka fram að DV tekur ekki – og hefur aldrei tekið – afstöðu í málinu heldur hefur fréttaflutningur miðilsins byggst á dómsgögnum og endursögnum á viðhorfum ýmissa til málsins og tengdra mála.

Sjá einnig: Ólafur Hand með þungar ásakanir: „Hvernig get ég tekið mark á slíku embætti?

Sjá einnig: Hart deilt um mál Ólafs Hand: „Finnst þér í lagi að draga saklausan mann í gegnum dómskerfið í mörg ár?“

 

 

„Leiðrétting vegna ummæla Ólafs Hand. Barnsmóðir biður um frið.

Í rúm þrjú ár hafa Ólafur William Hand og eiginkona hans Kolbrún Anna Jónsdóttir sett fram sínar skoðanir og útgáfu af atburðum er varða barnsmóður Ólafs og sambýlismanns hennar á opinberum vettvangi. Málin varðar í grunninn barn sem er ólögráða og umfjöllun um það á ekkert erindi til almennings.

Hjónin hafa m.a. komið fram í tveimur ítarlegum viðtölum á Stöð 2, í hljóðbók og netbók, blaðaviðtölum, kommentakerfunum, viðtölum í útvarpi og birt fjölda færslna á Facebook.

Barnsmóðir Ólafs hefur aftur á móti kosið að koma ekki fram til að vernda barn þeirra Ólafs. Þá hefur hún ekki áhuga á að persóna hennar og málefni fjölskyldu hennar séu rædd í fjölmiðlum.

Móðirin hefur þess í stað falið hlutlausum og opinberum aðilum að annast meðferð málanna. Á þeim vettvangi er gætt að friðhelgi allra til að vernda hagsmuni barnsins. Sú friðhelgi er brotin þegar hjónin ganga fram fram með alvarlegum ásökunum á hendur móðurinni s.s. um húsbrot, ofbeldi og tálmun. Í ofanálag eru þessar ásakanir þvert á niðurstöður opinberra aðila sem rannsakað hafa málið.

Nú hefur Ólafur Hand aftur leitað til fjölmiðla og í þeirri umfjöllun eru rangfærslur um barnsmóðurina og sambýlismann hennar. Sér barnsmóðirin sig nauðbeygða til að leiðrétta rangfærslur með vísan í opinber gögn í því skyni að stöðva áframhaldandi meiðandi umfjöllun um þau.

Með þessari leiðréttingu vonast móðirin til þess hún og fjölskylda hennar verði ekki rædd frekar í tengslum við Ólaf Hand á opinberum vettvangi.

Varðandi ásakanir um húsbrot

Í sakamálinu voru lögð fram gögn um að Ólafur hafi sett skilyrði og neitað að afhenda barnið í sumarfrí með barnsmóður og fjölskylduferð erlendis sem átti að fara í rétt rúmum sólarhring síðar. Ólafur fer þó ekki með sameiginlega forsjá. Þegar barnsmóðir og sambýlismaður hennar koma á boðuðum tíma að heimili Ólafs til að sækja barnið fer barnsmóðir inn á heimilið þegar barnið kallar grátandi á hana.

Bæði embætti lögreglustjórans á höfuðborgarsvæðinu og ríkissaksóknara ákváðu að falla frá saksókn vegna húsbrots. Segir í niðurstöðu ríkissaksóknara:

Ríkissaksóknari hefur yfirfarið öll gögn málsins vandlega og telur m.a. með hliðsjón af fyrirliggjandi gögnum um aðdraganda þessa atviks og lýsingum á kringumstæðum á vettvangi, að í málinu séu uppi afar sérstakar aðstæður. Þá liggur fyrir áverkavottorð [barnsmóður]. Eftir nákvæma yfirferð málsins er það niðurstaða ríkissaksóknara að almannahagsmunir krefjist ekki málshöfðunar.

Varðandi ásakanir um ofbeldi

Ásakanir Ólafs og Kolbrúnar um ofbeldi af hálfu móður og sambýlismanns hennar voru teknar til ítarlegrar skoðunar af lögreglustjóra og ríkissaksóknara sem höfnuðu þeim á meðan hjónin voru ákærð fyrir ofbeldi gegn barnsmóður. Í skýringum lögreglustjóra hvað varðar þá ákvörðun að hætta rannsókn á meintri líkamsárás segir m.a:

Er varðar kærða líkamsárás í máli 007-2016-41434, þá lýstu báðir kærendur [Ólafur Hand og Kolbrún] því að kærða [barnsmóður Ólafs] hafi ráðist að þeim gróflega með ítrekuðum höggum og spörkum svo sem lýst var í kæruskýrslum þeirra. Kærandi Kolbrún lýsir því að hún hafi ekki hlotið neina áverka eftir þetta og leitaði ekki á slysadeild. Kærandi Ólafur lýsti því að hann hefði ekki hlotið sýnilega áverka en kvaðst hafa verið aumur í hægri sköflungi daginn eftir en ekki kemur fram að hann hafi leitað sér læknisaðstoðar. Það liggur því fyrir kærendur lýsa því að engir áverkar í öðru tilfelllinu og litlir áverkar sem eru ekki studdir áverkavottorði þrátt fyrir að lýst sé mjög ítrekuðum höggum og spörkum kærðu […] og því ekki í samræmi við lýsingu á árásum hvors um sig.“

Ákæruvaldið komst að sömu niðurstöðu að engir áverkar eða gögn styddu kært ofbeldi sambýlismannsins og felldi því einnig niður kæru gagnvart honum.

Varðandi síendurteknar ásakanir um tálmun

Ólafur naut mjög ríkrar umgengni við barn sitt. Með samkomulagi við barnmóðurina hafði hann barnið 6 daga aðra hvora viku og jafnt yfir frídaga.

Móðir felldi niður reglulega umgengni eftir atvikið þann 16. júlí 2016, sem leiddi til þess að Ólafur var ákærður fyrir líkamsmeiðingar gegn henni og brot á lögum um barnavernd þar sem barnið var vitni að því ofbeldi sem Ólafur var ákærður fyrir. Eftir atvikið átti barnið við áfallastreituröskun að stríða og vildi ekki fara til föður.

Málið sætti meðferð sýslumanns sem, með samþykki og stuðningi móður, reyndi að koma á umgengni á forsendum barnsins. Ólafur dróg sig hins vegar úr því ferli. Sýslumaður felldi niður reglulega umgengni í framhaldi af því með úrskurði dagssettum 12. maí 2017. Í niðurstöðukafla úrskurðarins segir:

Með vísan til gagna málsins, tilvitnaðra lagaákvæða og alls framanritaðs, þá sérstaklega þess sem fram kom í viðtölum sérfræðinga í málefnum barna við barnið, þeirrar vinnu sem unnin hefur verið af sérfræðingi í málefnum barna og sálfræðing Barnaverndar Reykjavíkur til að koma á umgengni barns við föður aftur og þeirrar ákvörðun föður að draga sig í hlé á því stigi málsins þegar umgengni var að komast á, er það mat sýslumanns að gildandi umgengnisamningur sé andstæður hag og þörfum barnsins.

Með stuðningi móður hefur barnið nokkrum sinnum haft beint samband við Ólaf eftir að umgengnin var felld niður. Þegar þetta er birt eru liðnar þrjár vikur frá því að barnið hafði síðast samband við föður sinn. Hann hefur ekki haft samband til baka við dóttur sína þó hún hafi beðið hann um það og vænst þess.

Afleiðingar og ástæður barnsmóður til að halda sig til hlés

Þessi stöðuga umfjöllun, þar sem haldið er uppí einhliða sjónarmiðum hjónanna í máli sem á ekki fyrir augu almennings og fer þvert gegn niðurstöðum opinberra aðila er öllum skaðleg, sérstaklega barninu.

Á samfélagsmiðlum hefur fólk sem þekkir ekki barnsmóðurina kallað hana „geðveika“, „tálmandi“, „ofbeldismanneskju“, „lygara“, sagt að hún hafi eyðilagt orðspor sitt, að karma muni bíta hana í bakið og hvatt hana til að drepa sig, svo fátt eitt sé nefnt. Þetta hefur hefur haft áhrif á daglega líðan og atvinnu barnsmóðurinnar og sambýlismanns hennar. Hið versta er að barnið hefur séð nöfn fólks og ummæli þeirra á samfélagsmiðlum og hafa þau sært það djúpum sárum og aukið á áfallastreitu þess.

Blaðamenn og almenningur og fólk á samfélagsmiðlum hafa kallað eftir því að móðirin komi fram. Hún velur að gera það ekki til að vernda barnið, sjálfa sig og lífið sem hún lifir. Það er hennar val og það ber að virða. Nógu erfitt er að taka við árásum reglulega þótt ekki bætist við að neyðast til að leiðrétta rangfærslur í óvæginni umfjöllun, gerði hún það í hvert sinn gæfist ekki tími til að einblína á það sem skiptir í raun mestu, en það er að ala upp og sinna uppeldishlutverki barns þeirra Ólafs.

Í ljósi þess að barnsmóðir kýs að vera í friði og vill ekki opinbera umræðu um málefni sem snerta barn hennar er fásinna að halda því fram að hún hafi lekið sakfellingu Ólafs Hand í fjölmiðla, enda gerði hún það ekki.

Þetta er sent vegna nýjustu umfjöllunar Ólafs Hand þar sem hann heldur áfram með sömu ásakanir á hendur barnmóður og fjölskyldu hennar. Markmiðið er að leiðrétta augljósar rangfærslur og kalla eftir því að friðhelgi barnsmóður, barnsins og fjölskyldu þeirra sé virt.

Í ljósi ofangreinds er þess óskað að lokað sé á kommentakerfið við þessa grein.

Barnsmóðir Ólafs Hand og fjölskylda“

 

 

Lokað er fyrir athugasemdir
Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Mest lesið

Nýlegt

Fréttir
Fyrir 11 klukkutímum

Viðbúnaður vegna vélarvana flutningaskips

Viðbúnaður vegna vélarvana flutningaskips
Fréttir
Fyrir 14 klukkutímum

Bretar vilja láta Úkraínu fá nýtt ofurvopn – Myndband

Bretar vilja láta Úkraínu fá nýtt ofurvopn – Myndband
Fréttir
Í gær

Rúmlega 100 sýnendur taka þátt á Verk og vit

Rúmlega 100 sýnendur taka þátt á Verk og vit
Fréttir
Í gær

Umboðsmaður barna á móti frumvarpi um hækkun kynferðislegs lágmarksaldurs – Ekkert samráð við börnin sjálf

Umboðsmaður barna á móti frumvarpi um hækkun kynferðislegs lágmarksaldurs – Ekkert samráð við börnin sjálf