fbpx
Sunnudagur 09.ágúst 2020
Fréttir

Úlfúð í Vestmannaeyjum – Stál í stál í viðræðum og svartasta svartnættið framundan

Heimir Hannesson
Þriðjudaginn 14. júlí 2020 15:30

mynd/samsett

Ekki missa af Helstu tíðindum dagsins í pósthólfið þitt

Lesa nánar

Mikil óánægja er meðal íbúa Vestmannaeyja sem segjast enn á ný þurfa að sæta því að þjóðvegur þeirra sé nýttur í kjaradeilu starfsmanna Herjólfs og Herjólfs ohf. Verkfall Sjómannafélags Íslands hófst síðastliðinn þriðjudag og stóð í einn sólarhring. Önnur verkfallslotan hófst í dag og stendur út morgundaginn. Þriðja verkfallslotan hefst þriðjudaginn 21. júlí og stendur í þrjá sólarhringa. Athygli vekur að allar verkfallsloturnar hefjast á þriðjudögum, en það er eini virku dagur vikunnar sem ekki er flogið til Vestmannaeyja. Engar samgöngur eru því á milli lands og eyja þrjá þriðjudaga í röð í júlímánuði.

Íris Róbertsdóttir, bæjarstjóri Vestmannaeyja, sagði við DV að hún myndi ekki tjá sig efnislega um deiluna í fjölmiðlum, en hún harmaði auðvitað truflanir á rekstri þjóðvegarins. „Þetta hefur gríðarleg áhrif á samfélagið í Vestmannaeyjum. Þetta er okkar þjóðvegur og við hörmum auðvitað að vinnudeilan sé orðin til þess að truflanir verði á rekstri hans.“

Mörg fordæmi um lagasetningu á verkfall

Bæjarbúar hafi bent á að algjör vinnustöðvun sé nýjung í kjarabaráttu starfsmanna Herjólfs. Síðast þegar starfsfólk Herjólfs beitti aðgerðum í kjaradeilum sínum árið 2014 beittu þau vinnustöðvun milli 17:00 og 08:00 virka daga og alfarið um helgar. Hafði þá málinu verið vísað til ríkissáttasemjara en fáir fundir haldnir og sjónmál ekki í lausn. Rímar það nákvæmlega við stöðuna eins og hún er í yfirstandandi kjaradeilu. Verkfallinu 2014 lyktaði með lagasetningu. Frumvarpið lagði Hanna Birna Kristjánsdóttir, þáverandi innanríkisráðherra, fram.

Fleiri fordæmi eru um lagasetningu gegn verkföllum starfsfólks Herjólfs, en árið 1992 lagði Halldór Blöndal, þáverandi samgönguráðherra, fram frumvarp um „bann við verkfalli og verkbanni á ms. Herjólfi.“ Var það lagt fram eftir ósk bæjarstjórnar Vestmannaeyja þess efnis og varð frumvarpið að lögum þann 23. mars.

Jónas segir Írisi bera ábyrgð á ofríki gegn hásetum og þernum

Deila Sjómannafélags Íslands og rekstrarfélags Herjólfs er sem fyrr segir komin til ríkissáttasemjara en lítið þokast þar. Tveir fundir hafa verið haldnir. Sjómannafélagið hefur sagt að til þess að stöðva verkfallið verði Herjólfsmenn að fjölga um eina þernu á hverri vakt um borð í skipinu og að sýna samningsvilja, sem Sjómannafélagið vill meina að hafa ekki verið til skiptana hingað til. Jónas Garðarsson, formaður samninganefndar Sjómannafélagsins, segir meðal annars í aðsendri grein í Eyjafréttum að tilboð stjórnar Herjólfs hafi verið „blaut tuska í andlit þerna og háseta.“ Beinir hann sjónum sínum að aðkomu Írisar Róbertsdóttur bæjarstjóra:

Nú eru þrjár þernur á vakt á Herjólfi en voru jafnan fimm á vakt yfir hásumarið hjá Eimskip og Samskip sem áður ráku Herjólf. Það má með ólíkindum telja, að Bæjarútgerð Eyjanna undir forystu Írisar Róbertsdóttur bæjarstýru, gangi svo freklega á rétt þerna og háseta. Íris heldur um hlutabréf Herjólfs ohf. Hún ásamt stjórn Herjólfs og framkvæmdastjóra ber ábyrgð á ofríki gegn hásetum og þernum á Herjólfi.

Íris segir ummæli Jónasar ekki svaraverð. „Sem formaður samninganefndar SÍ á Jónas að vita betur og það er dapurlegt að hann skuli ekki umgangast sannleikann af meiri virðingu en þetta,“ segir Íris og bendir á að Herjólfur sé opinbert hlutafélag með stjórn sem stýrir rekstri þess. Bæjarstjórn Vestmannaeyja skipar stjórn félagsins í krafti eignarhlutar sins á hlutafé Herjólfs ohf., og starfar félagið í samræmi við lög um hlutafélög. Önnur dæmi um opinber hlutafélög eru RUV, Landsvirkjun og Íslandspóstur.

Verkföll nauðsynleg neyðarúrræði

Bergur Þorkelsson formaður sjómannasambandsins segir í samtali við blaðamann að þessar viðræður séu ekki nýjar af nálinni. Þær hafi raunar staðið yfir síðan 2018. Nú sé staðan sú að 67% tekna starfsmanna um borð í Herjólfi eigi rót sína í yfirvinnustundir og því sé aðeins þriðjungur af vinnu starfsfólks unnin á dagvinnutíma. Fyrir það fái starfsfólk greitt fast dagkaup 36.004 kr. á dag í grunn dagvinnutaxta.

Harkalegar aðgerðir Sjómannafélagsins eftir tveggja ára samningaviðræður eiga því ekki að koma neinum á óvart og miða fyrst og fremst að því að koma vinnuálagi þerna í samt horf um borð í skipunum og fá stjórn Herjólfs að samningaborðinu, segir Bergur. Hann segir jafnframt að um borð í nýja Herjólfi sé aðstaða þerna á tveim hæðum og vinnuálag aukist við þá breytingu.

Aðspurður hvort hann sé meðvitaður um áhrifin sem aðgerðirnar hafa á daglegt líf í Vestmannaeyjum segir Bergur: „Við vitum vel að verkföll eru algjört neyðarúrræði og að þetta sé ekki léttvægt. Við okkur blasti hinsvegar tómlæti sem við urðum að svara með einhverjum hætti.“ Tilboð SÍ er enn í gildi, segir Bergur. Samninganefnd SÍ samanstendur af Bergi og Jónasi.

Kröfur koma á óvart í ljósi ástands í samfélaginu

Hinum megin við samningaborðið er Guðbjartur Ellert Jónsson, framkvæmdastjóri Herjólfs ohf., og fulltrúar Samtaka atvinnulífsins. Guðbjartur staðfestir að ofangreint tilboð liggi fyrir, en það komi honum engu að síður á óvart. „Það er rétt að þeir komu með þetta tilboð að fjölga um eina þernu og það myndi fresta verkfallsboðuninni, en við erum alveg meðvituð um álagið um borð, við erum með upplýsingar um farþegatölur og kassakvittanir;“ segir Guðbjartur. Hann segir jafnframt að samgöngustofa gefi út viðmið um fjölda starfsmanna umborð miðað við farþegafjölda og Herjólfur sé langoftast yfirmannaður frekar en hitt. „Það mega vera allt niðrí níu starfsmenn um borð en við höfum aldrei farið undir 12. Að öllu jöfnu erum við að vinna með meiri mönnun en mönnunarskírteinið segir til um.“ Guðbjartur segir það vissulega rétt að aðstaðan er nú á tveim hæðum, en öll farþega aðstaðan er á einni hæð, svo vinnan fer öll fram á sömu hæð en messinn sé vissulega á efri hæð. Starfsfólkið þarf því að sækja hvíldaraðstöðu og matsal sinn á annarri hæð.

Samningurinn sem Herjólfur ohf. er að bjóða er í anda lífskjaraleiðarinnar, segir hann. „Stærsta krafa SÍ er að fækka vinnustundum í 75% en fá áfram greitt fyrir 100% starf. Til viðbótar vill SÍ að farið verði í fjórar áhafnir úr þrem og að fjölgað verði í áhöfn um eina þernu og einn háseta.“ Í heildina munu þessar aðgerðir kosta Herjólf ohf. um 200 milljónir samkvæmt útreikningum rekstrarfélags skipsins. Tekjutap félagsins vegna Covid-19 faraldursins nemi um 3-500 milljónum. Þarna er því verið að ganga lengra en félagið gæti ráðið við. „Það er óábyrgt að tefla svona kröfum fyrir félagsmenn sína sem fyrir örfáum mánuðum fóru í 50% starf á hlutabótaleiðinni svokölluðu. Félagið er í dag að keppast við að verja þá störf sem það getur þó enn veitt á þeim kjörum í dag. Að koma svo með þessar kröfur er ekki í neinu takt við það sem er að eiga sér stað í efnahagslífinu.“

Munu þurfa að fækka ferðum og starfsfólki

„Þessi kröfugerð eins og að mæta á jólaskemmtun í jólasveinabúning en syngja bara Eurovision lög,“ segir Guðbjartur um kröfurnar og segir þær taktlausar. Guðbjartur segir Herjólfur ohf. ekki spennta fyrir að ganga að kröfu SÍ um að fjölga um eina þernu bara til þess að leysa verkfallsboðunina, því stóra vandamálið, sjálfur samningurinn, verði eftir sem áður óleyst.

„Við erum að sigla inní svartasta svartnættið í rekstrinum, vetrarmánuðina, og ef þessum kröfum mætt þýðir það einfaldlega að við þyrftum að segja upp starfsfólki og gjörbreyta kerfinu,“ segir Guðbjartur. Herjólfur ohf. mun að hans sögn þurfa að fækka fólki og ferðum Herjólfs. „Þetta liggur fyrir og Jónas á að vita þetta,“ segir Guðbjartur.

Ekki hefur verið boðað til annars fundar hjá ríkissáttasemjara.

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Mest lesið

Í vikunni

Fréttir
Í gær

Sólþyrstir Íslendingar flykkjast enn til sólarlanda

Sólþyrstir Íslendingar flykkjast enn til sólarlanda
Fréttir
Í gær

Líklegt að samkomutakmarkanir verði hertar

Líklegt að samkomutakmarkanir verði hertar
Fréttir
Fyrir 2 dögum

Mikið um þjófnað á höfuðborgarsvæðinu – Hvatt til að fólk sé á varðbergi

Mikið um þjófnað á höfuðborgarsvæðinu – Hvatt til að fólk sé á varðbergi
Fréttir
Fyrir 2 dögum

ÁTVR færir öryggismálin til Securitas

ÁTVR færir öryggismálin til Securitas