Það gleymist að taka inn í myndina þreytuna. Þessa endalausu þreytu. Ímyndin er af skvísu með há laun sem er alltaf í útlöndum að versla. Það er ekkert glæsilegt að þrífa upp ælu eftir veikan farþega eða standa undir öskrum frá reiðum farþega,“ segir 27 ára gömul íslensk kona sem starfað hefur sem flugfreyja í rúmt ár. Flestar flugfreyjur telja að ímynd starfsins sé langt frá því að vera í samræmi við raunveruleikann. Margvíslegir þættir í starfinu eru faldir á bak við dýrðarljómann, svosem ofþreyta, álag, virðingarleysi gagnvart starfinu og gróf kynferðisleg áreitni.
Þetta kemur fram í rannsókn Andreu Eyland sem árið 2017 útskrifaðist úr menningarstjórnun frá Háskólanum á Bifröst. Í tengslum við MA-ritgerðina kannaði Andrea ímynd flugfreyjunnar og glansmyndina sem oftar en ekki fylgir starfinu.
„Ég var sjálf að vinna sem flugfreyja hjá WOW þegar það byrjaði og svo nokkrum árum seinna hjá Icelandair. Mér fannst ég alltaf svo þurrausin eftir flug og skildi varla af hverju, af því ég elskaði að fljúga og fannst vinnan svo skemmtileg. Þetta var meira en þreyta vegna þeysings um ganginn og ég vildi vita hvað tók svona mikið af mér,“ segir Andrea í samtali við DV.
Vel til hafðar þjónustustúlkur
Í tengslum við rannsóknina ræddi Andrea við átta íslenskar flugfreyjur á aldrinum 26–40 ára. Sú sem hafði stysta starfsaldurinn hafði unnið sem flugfreyja í rúmt ár en lengsti starfsaldurinn í hópnum var tíu ár. Flugfreyjurnar höfðu ýmist starfað hjá Icelandair eða WOW air.
Allar leggja þær áherslu á að þjálfun flugfreyja sé mikilvæg og í raun mun erfiðari en fólk gerir sér grein fyrir. Aðeins einn dagur af margra vikna námskeiði færi í kennslu um einkennisfatnað og útlitskröfur. Að öðru leyti snýst þjálfunin nær eingöngu að efni um flugvélina og öryggi um borð í henni.
Eitt af því sem kemur fram í samtölum við flugfreyjurnar er kynferðisleg áreitni sem þær verða fyrir í starfinu. Ein úr hópnum talar um að áreitið sem flugfreyjur verða fyrir geti orðið alvarlegt.
„Maður á að vera alveg ótrúlega sætur og sexí, sem er alveg út í hött,“ segir hún og nefnir sem dæmi að á tímabili hafi flugfreyjur gengið um með nafnspjöld en því hafi síðan verið hætt. Ástæðan var sú að ágengir karlkyns farþegar voru að fletta flugfreyjunum upp á Facebook og senda þeim skilaboð.
Þurfa að geta höndlað þreytuna
Í samtölum Andreu við flugfreyjurnar kemur einnig fram að flestar þeirra hafa upplifað ofþreytu og meðal annars segjast tvær þeirra hafa tilkynnt sig frá vinnu vegna þess. Flugfreyjur eru raunverulega sjaldnast í fríi, frídagarnir eiga að nýtast í hvíld eftir flug og fyrir næsta. Krafan um að vera úthvíld, ávallt viðbúin, fersk, fín og í góðu skapi er raunveruleg.
„Maður verður að vera alltaf upp á sitt besta, þess vegna verður maður að virða hvíldartímann sinn,“ segir ein úr hópnum.
Önnur flugfreyja úr hópnum segir að þreytan tengd starfinu hafi komið á óvart.
„Þetta er alls ekki allra. Þú verður að geta vaknað mjög snemma og þú verður að geta verið hress og þú verður að geta höndlað þreytuna. Sumir gera sér ekki grein fyrir hvað þetta er erfitt starf.“
Þá nefna margar af flugfreyjunum virðingarleysi annarra gagnvart starfinu.
„Ég held að fæstir farþegar geri sér grein fyrir hvað flugfreyja getur og hvernig hún tæklar erfiðar aðstæður og ég held að það sjáist ekki utan á manneskjunni,“ nefnir ein flugfreyja úr hópnum. Önnur bendir á að starfið snúist um margt annað en að bera slæðuna vel.
„Þú þarft að vera amma, þú þarft að vera mamma, sálfræðingur, hjónabandsráðgjafi, læknir, öryggisvörður, já, þú þarft að vera tilbúin í hvað sem er.“
Setja upp grímu í vinnunni
Í samtali við DV segir Andrea að niðurstöðurnar hafi rennt stoðum undir hennar eigin hugmyndir. „Mig grunaði að ímynd flugfreyjunnar og þetta „leikrit“ sem þær eru í í vinnunni hefði áhrif, en ég var kannski ekki með á hreinu hversu mikið. Rauði þráðurinn var að þær viðurkenndu nánast allar að þær settu upp grímu í vinnunni, það væri hluti af starfinu og þær notuðu búninginn til þess að búa til þessi skil milli sín og kúnnanna.“
Eitt af því sem Andrea tengdi við var að koma „tóm“ heim úr vinnunni þegar hún starfaði sem flugfreyja. „Ástæðan fyrir að ég kom tóm heim úr vinnunni var sú að ég gaf svo mikið af mér og gaf allt mitt í vinnudaginn. Þetta upplifði ég sérstaklega hjá WOW air, enda var ætlast til þess þar að vera mega hress og kát, alveg sama hvernig manni leið. Þegar ég starfaði síðan hjá Icelandair var ég sjálf passasamari að gefa ekki sjálfa mig í vinnuna heldur nota búninginn sem „skjöld“ milli mín og farþega.“
Kjarabarátta flugfreyja hefur verið mikið til umræðu undanfarnar vikur.
„Umræðan er oft á villigötum. Flugfélögin eru oft fáránleg þegar þau koma fram í fréttum um laun flugfreyja. Þetta fólk eyðir helmingi mánaðar burtu frá fjölskyldum sínum og þegar flugfreyjur eru ekki í vinnunni eru þær þreyttar eftir flugið eða að hvíla sig fyrir næsta flug. Allt snýst um flugið.“