fbpx
Fimmtudagur 25.apríl 2024
Fréttir

Áslaug Arna er ekki hrædd við dólgslæti

Tobba Marinósdóttir
Laugardaginn 27. júní 2020 13:00

Áslaug Arna Sigurbjörnsdóttir dómsmálaráðherra. Mynd/Valli

Ekki missa af Helstu tíðindum dagsins í pósthólfið þitt

Lesa nánar

Áslaug er uppalin að mestu í Ártúnsholtinu og er dóttir Kristínar Steinarsdóttur kennara og Sigurbjörns Magnússonar hæstaréttarlögmanns. Móðir Áslaugar Örnu lést fyrir átta árum úr krabbameini og er fjölskyldan mjög samrýnd. Áslaug er miðjubarn. Bróðir hennar Magnús er fæddur 1987 og yngri systirin Nína Kristín er fædd 1993.

Áslaug varð snemma mjög ábyrg og sjálfbjarga. „Ég var alin upp til að vera mjög sjálfstæð. Systir mín þurfti mikla athygli vegna fötlunar sinnar og ég þurfti því að vera sjálfstæðari fyrir vikið og stóð eftir sterkari. Foreldrar mínir pössuðu alltaf upp á mig og veittu mér athygli, en ég fékk að hafa fyrir hlutum og það er ekki neikvætt.“

Áslaug er lögfræðingur að mennt, en vann hin ýmsu störf meðfram námi. Hún fór fljótlega að starfa í kringum hesta en foreldrar Áslaugar voru mikið hestafólk og heldur hún enn mikið upp á hestamennsku og fer á bak með föður sínum þegar tækifæri gefst. Hún starfaði sem blaðamaður á Morgunblaðinu í tvö ár með skóla og sem lögreglumaður á Suðurlandi, sem er krefjandi starf fyrir unga manneskju, en ekkert getur sagt til um hvernig spilast úr deginum á vakt.

„Lífsreynsla mín fram að þeim tíma hjálpaði mér í starfinu, til dæmis að vera skilningsrík í erfiðum aðstæðum og geta sett mig í spor fólks. Maður þarf að leyfa sér að vera mannlegur í þessu starfi þegar það á við. Ég spurði til dæmis einu sinni hvort ég mætti knúsa börnin, ef mér fyndist það við hæfi í erfiðum heimilisaðstæðum. Svarið var já og mér sagt að treysta dómgreind minni. Lögreglumenn eru fyrst og fremst í þjónustustarfi við fólk.“

Háskólaárin nýtt í að safna reynslu

„Markmiðið var ekki endilega að komast inn á þing svona snemma. Fyrir mér voru stjórnmál alltaf spennandi en ég sá frekar fyrir mér að það væri eitthvað sem ég færi í seinna á lífsleiðinni. Ég sá fyrir mér að nýta háskólaárin til þess að fá fjölbreytta starfsreynslu,“ segir Áslaug sem gerði það svo sannarlega.

Hún hefur ekki valið sér þægilega innivinnu síðustu ár og hlýtur ansi oft að hafa verið mjög andlega þreytt og jafnvel hrygg eftir erfiðan dag, þar sem tekið er á flóknum og viðkvæmum málum, bæði sem lögreglukona og nú sem dómsmálaráðherra. „Maður lærir að takast á við tilfinningar sínar og leyfa sér að líða illa í stutta stund og halda síðan áfram.“

Vopnleysið skapar traust

Sem dómsmálaráðherra er Áslaug æðsti yfirmaður lögreglunnar á Íslandi. Vopnaburður lögreglumanna er reglulega til umræðu, en lögreglan á Íslandi er almennt óvopnuð að frátalinni kylfu og piparúða. „Það er hennar aðalsmerki að vera óvopnuð og leysa málin án vopnaskaks. Hluti af ástæðunni fyrir því hve mikils trausts og stuðnings lögreglan nýtur, er hversu hófstillt hún er almennt séð í aðgerðum og viðbrögðum sínum.“

Umræða um vopn sem eiga ekki að valda mannsláti (svo sem rafbyssur) hefur fengið hljómgrunn meðal lögreglumanna, sem sumir hverjir kalla eftir millistigi milli kylfu og byssu. „Ég held að sú nálgun, að lögreglan sé án vopna, hafi skapað það mikla traust sem hún nýtur og það er ekki sjálfgefið að hún haldi því trausti. Ekki stendur til að breyta því verklagi sem nú er varðandi vopnaburð lögreglunnar.“

Áslaug segir það alls óvíst að það myndi skapa lögreglumönnum meira öryggi í starfi að auka vopnaburð og bendir á að sérsveitin sé kölluð út þegar grunur leikur á um að hættustigið sé þess eðlis að nauðsynlegt geti reynst að grípa til vopna.

Þegar Áslaug tók við dómsmálaráðuneytinu var mikill órói innan lögreglunnar og vantrauststillaga á hendur þáverandi ríkislögreglustjóra, Haraldi Johannessen, var samþykkt af öllum lögreglustjórum landsins, nema einum. Í kjölfarið var samið um starfslok við Harald.

Áslaug segir stöðuna í lögreglunni í dag vera betri og mikla ánægju til dæmis með lögregluráð, sem sett var á fót og tók til starfa í byrjun ársins. Áslaug segir það hafa verið mikilvægan lið í að bæta samstarf innan æðstu stjórnar lögreglunnar. „Að setja á fót lögregluráð sem formlegan samráðsvettvang hefur virkað mjög vel.“ Áslaug segir að lögreglumenn hafi verið afar mikilvægir í framlínunni undanfarið. Mikið mæði á þeim líkt og sást bersýnilega um síðustu helgi þegar lögreglumaður smitaðist af COVID-19 við skyldustörf.

Ekki mikið fyrir boð og bönn

Mikið hefur verið rætt um spilafíkn upp á síðkastið þar sem flestir spilakassar voru lokaðir í samgöngubanni og hefur sú umræða sprottið upp hvort ekki sé kominn tími á að loka kössunum endanlega. „Ég er ekki mikið fyrir boð og bönn. Ágóðinn af starfseminni fer til margvíslegra mála, meðal annars í þágu fólks með fíknivanda. Mér finnst að frumkvæðið ætti frekar að koma frá þeim almannaheillafélögum og öðrum, sem njóta góðs af rekstri kassanna, að loka þeim.“

Hún segir þörfina ekki hverfa, þó rekstur spilakassa verði bannaður. „Spilin færast þá líklega enn frekar á internetið og þá þarf að spyrja sig hvort það muni ekki aðeins leiða til þess að þetta færist meira undir yfirborðið. Það var ákveðið með þeirri framkvæmd sem nú er, að gera þetta svona til að hafa þetta uppi á yfirborðinu og ég tel vænlegra til árangurs að hafa um happdrætti og netspil skýrar leikreglur. Sú stefna hefur verið ríkjandi áratugum saman og ég sé ekki að það verði stórar breytingar á þessu í náinni framtíð.“

Rafræn stjórnsýsla mun létta lífið

Rafræn stjórnsýsla er dómsmálaráðherra afar hugleikin, en Íslendingar munu sem dæmi geta haft ökuskírteini sín á rafrænu formi í símanum í lok júní, ef allt gengur upp.

„Það er slæmt þegar fólk upplifir ríkið þungt og seinlegt. Það er allt of langur biðtími hjá sýslumanni, svo tekið sé dæmi. Með rafrænni stjórnsýslu verður hægt að nálgast

ýmis eyðublöð og umsóknir og afgreiða mál með skjótari hætti. Það verður mikill munur að geta þinglýst skjölum, sótt um fæðingarorlof og annað, rafrænt. Þetta mun spara tugi milljóna og auka þjónustu en fyrst og fremst auðvelda líf almennings.“

 En hvað með að gifta sig rafrænt?

„Já, það er spurning um votta og slíkt, en það er eitthvað sem gæti orðið að veruleika. Ég er að reyna að einfalda hjúskaparlögin þannig að til dæmis lögskilnaður verði aðgengilegri og einfaldari. Ég hef mikinn áhuga á að reyna að einfalda líf fólks.“ 

Landamærabíllinn umdeildur

Útlendingamálin eru málaflokkur sem alltaf er talsvert í umræðunni. Áslaug segir málaflokkinn skiljanlega viðkvæman því hann snúist um fólk. „Við viljum öll gera vel, við höfum byggt upp öflugt verndarkerfi sem í senn á að vera mannúðlegt og virka vel. Stjórnsýslan er þó orðin of þung, kostnaðurinn mikill og verst af öllu að einstaklingar bíða of lengi eftir niðurstöðu sinna mála.“

Getum við ekki tekið á móti fleirum?

„Jú og aldrei höfum við veitt fleirum vernd en í fyrra. Við þurfum þó að passa að kerfið fyrir alþjóðlega vernd sé neyðarkerfi og virki sem best fyrir þá einstaklinga sem þurfa á vernd að halda og eru á flótta undan ofsóknum og lífshættu. Á sama tíma verðum við að þora að ræða breytingar á atvinnuleyfi þeirra sem hingað vilja koma og vinna og eru í leit að betri lífskjörum.“

Svokallaður Landamærabíll var nýverið tekinn í notkun og hefur verið gagnrýndur hart fyrir þar sé ómálefnalega tekið á útlendingum. „Landamærabílinn var keyptur til að bæta úr athugasemdum sem komu frá Schengen um að landamæraeftirliti í höfnum hér væri ábótavant. Hann er því færanleg landamærastöð. Síðan er það einnig verkefni lögreglunnar, ásamt öðrum aðilum, að vinna að eftirliti á vinnumarkaði og var það einn angi af Lífskjarasamningnum. Í skoðuninni felst hvort aðilar séu með gild skilríki og hafi tilskilin leyfi, og mat á hvort um fórnarlömb mansals geti verið að ræða. Þessa vinnu þarf að nálgast faglega og þar á kynþáttahyggja, eða hvers kyns mismunun önnur, ekkert erindi.“

Hendir sér ekki á Tinder

Áslaug segist almennt upplifa það jákvætt að vera ung kona í stjórnmálum og að það sé meðbyr með henni frekar en hitt. „Mér leyfist að vera óþolinmóðari og ýta á eftir verkefnum sem hafa ekki hreyfst lengi. Almennt fæ ég mjög gott viðmót og ég get hrist upp í hlutunum.“

Hún segist helst finna kynbundinn mun þegar spurningar um útlit og hjúskaparstöðu hennar komi upp. Hún viðurkennir að hún sé reglulega spurð um ástalíf sitt. „Það er ekki mitt að hafa áhyggjur af því hvað fólki finnst um mitt hjúskaparlíf.“

Hvernig er það fyrir hana sem einhleypa konu að eiga einkalíf? Dómsmálaráðherra hendir sér ekkert á Tinder, er það?

„Nei.“ Áslaug segir að þetta sé ekkert vandamál. „Ég sóttist sjálf eftir því að vera í þeirri stöðu sem ég er í dag, svo ég mikla það ekki fyrir mér að finna leiðir til að sinna mínu einkalífi.“

Áslaug sér fyrir sér að eignast börn í framtíðinni og fer ekki í felur með það að athyglin getur ekki verið alls staðar í einu. „Í öllum stórum verkefnum þarf að gefa eitthvað annað eftir. Það er þó auðvitað vel hægt að eiga fjölskyldu, ala upp börn og vera ráðherra. En ég verð ekki endalaust hér. Maður veit aldrei hvernig lífið þróast. Ég hef einsett mér að sinna vel því sem ég er í hverju sinni. Ég hef lært það að lífið getur tekið marga, óvænta snúninga og því er mikilvægt að njóta þeirra verkefna sem maður sinnir hverju sinni.“

Gæti vel hugsað sér að verða kennari

Aðspurð hvaða starf hún hefði valið sér ef hún hefði ekki farið í stjórnmál svarar hún: „Ég gæti bæði ímyndað mér að vera lögreglumaður og kennari. Ég fékk að kynnast kennarastarfinu í gegnum mömmu, sem alltaf var að leita nýrra leiða til að glæða áhuga nemenda sinna á efninu og nýta tæknina í kennslu. Síðan á maður ýmsum kennurum á lífsleiðinni mikið að þakka.“ 

Þú hræðist sum sé ekki dólgslæti?

„Nei,“ svarar hún og brosir. „Ég hef gaman af fólki og mun alltaf velja mér starf þar sem ég þarf að vera í miklum samskiptum við fólk. Í skólakerfinu er verið að hafa góð áhrif

á framtíðina á allt annan hátt en í stjórnmálum,“ segir Áslaug, sem útilokar ekki kennarastarfið í framtíðinni. „Ég sé vel fyrir mér að gera svo eitthvað allt annað þegar ég er orðin stór.“

Enginn leyndarmálaskápur

Ráðherrar fá úthlutað bílstjóra þegar þeir taka við embætti sínu. Bróðir Áslaugar grínaðist með það þegar hún tók við embættinu, að götur borgarinnar væru strax öruggari ef hún væri ekki á bíl. Sjálf kýs Áslaug að ganga stundum til og frá vinnu þegar kostur gefst, en slíkt er ekki sjálfgefið.

Aðspurð hvort hún hafi þurft að fá undanþágu frá öryggisreglum til að ganga til vinnu, svarar hún: „Kannski ekki alveg undanþágu. Ég bý mjög nálægt vinnunni og geng stundum til eða frá vinnu. Bílstjórinn er þó líka öryggisvörður ráðherra, svo það er kannski frekar málið. Það eru mjög frjálslegar öryggisreglur hérlendis, miðað við annars staðar.“

Þegar hún er spurð hvort hún sé ekki með peningaskáp fullan af leyndarmálum á skrifstofunni kippast munnvikin upp. „Nei, ekki get ég sagt það.“

Áttu ekki einu sinni stóran „trúnaðarmál“-stimpil?

„Kannski ritari ráðuneytisins.“

Misgóðir dagar

Aðspurð um sína stærstu áskorun í starfi segir Áslaug að þeir sem séu svo lánsamir að fá að starfa í stjórnmálum, gangi að því vísu að það verði ýmsar erfiðar áskoranir, því málefnin snerta líf fólks beint. „Einhver sagði nú í gamni að þetta væri ráðuneyti sem tæki á málum frá vöggu til grafar, af því undir dómsmálaráðuneytið falla barnamál ýmiss konar, gjaldþrotaskipti, útlendingamál, dómstólar, þjóðkirkjan og kirkjugarðar. Og lögreglan og sýslumaður og allt þarna á milli. Það eru mestu áskoranirnar að eiga við viðkvæm mál. Þetta eru mál sem tengjast oft stærstu erfiðleikunum í lífi fólks. Ég er í þessu verkefni til að auðvelda líf fólks og gera það betra.“

Áslaug segir það lykilatriði í sínu lífi að umkringja sig góðu fólki þegar á reynir. „Það koma upp viðkvæm mál og þau munu alltaf vera hluti af verkefnum stjórnmálamanna. Það helst í hendur þegar þú tekur að þér svona stórt verkefni að það er ekki alltaf einfalt, en það er partur af því sem ég sóttist eftir. Ég bjóst alltaf við því að þetta yrði líka erfitt.“

En þú hlýtur stundum að bugast? Við gerum það flest.

„Við eigum öll misgóða daga, það er hægt að segja um hvaða starf sem er. Ég er samt alltaf meðvituð um það að verkefnin eru til þess að takast á við þau og það er ekki hægt að færa erfiðu verkefnin á milli daga. En vissulega eru verkefni, bæði í ráðuneytinu og í þinginu, sem ég tek inn á mig og sum eru erfiðari en önnur. Rétt eins og ég lýsti því hvernig maður þarf að vera mannlegur í lögreglunni, er maður líka mannlegur í stjórnmálum.“

Hugrekki er leynivopnið

Það virðist fátt koma Áslaugu úr jafnvægi, sem mætti líklega flokkast sem leynivopnið hennar. Aðspurð hvað hún telji vera lykilinn á bak við velgengni sína segir hún: „Ég hef alltaf lagt mig fram um að vera óhrædd. Sama við hvað er að etja. Óhrædd við að biðja um það sem mig langar, að segja hvað mér finnst, að tapa, að fá ekki það sem ég vil, að tala um tilfinningar mínar. Það er held ég þetta viðhorf, að vera óhrædd, sem hefur komið mér hvað lengst, ekki bara í stjórnmálum heldur almennt í lífinu.“

Það er ekki hægt að kveðja Áslaugu án þess að spyrja hana út í COVID og hennar tilfinningu fyrir framhaldinu. „Vá, þetta er búinn að vera ótrúlegur tími. Þessi veira er búin að hafa áhrif þvert á landamæri og einstaklinga. Það sem við stjórnmálafólk getum tekið til okkar og lært af þessu, er að samvinna og upplýsingagjöf til fólks er algjört lykilatriði. Við erum góð í að taka slag, sem þjóð, enda setjum við allt í það.“

Hún segir að nú muni þó reyna á þolrifin. „Takmarkanir mega ekki fara að hafa verri áhrif en árangurinn af þeim. Það er hættulegt að setja takmarkanir á frelsi fólks. Nú þurfa stjórnmálamenn að hjálpa fólki og fyrirtækjum að komast í gegnum öldurótið. Það eru mörg félagsleg og heilsufarsleg vandamál sem fylgja því að búa við efnahagssamdrátt og atvinnuleysi til lengri tíma,“ segir Áslaug, en það er ljóst að hún efast ekki um getu samlanda sinna til að skara fram úr enn á ný, ef veirudjöfullinn lætur til sín taka

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Mest lesið

Nýlegt

Fréttir
Í gær

Spáir ekki dropa úr lofti í Reykjavík fyrr en í maí – Sumarið lítur sérstaklega vel út

Spáir ekki dropa úr lofti í Reykjavík fyrr en í maí – Sumarið lítur sérstaklega vel út
Fréttir
Í gær

Stofna góðgerðarfélag til minningar um Þuríði Örnu – Blásið til tónleikaveislu 1. maí

Stofna góðgerðarfélag til minningar um Þuríði Örnu – Blásið til tónleikaveislu 1. maí
Fréttir
Fyrir 2 dögum

Íbúar brjálaðir út í Hafnarfjarðarbæ: „Þetta er til háborinnar skammar og engin lausn“

Íbúar brjálaðir út í Hafnarfjarðarbæ: „Þetta er til háborinnar skammar og engin lausn“
Fréttir
Fyrir 2 dögum

Réðst á dreng sem ætlaði að gera dyraat

Réðst á dreng sem ætlaði að gera dyraat