fbpx
Mánudagur 06.júlí 2020
Fréttir

Titringur á íslenskum fíkniefnamarkaði – „Verðið hefur tvöfaldast síðan um áramót“

Auður Ösp
Sunnudaginn 24. maí 2020 10:00

Mynd úr safni.

Ekki missa af Helstu tíðindum dagsins í pósthólfið þitt

Lesa nánar

„Staðan á Íslandi er ekki góð. Það byrjaði að votta fyrir kókaínskorti snemma á árinu, fyrir Covid. Svo þegar Covid skall á þá var það fljótt að klárast. Verðið hefur tvöfaldast síðan um áramót. Kókaín er allavega af mjög skornum skammti og verður það fram eftir sumri.“

Þetta kemur fram í samtali DV við einstakling sem er umsvifamikill á íslenskum fíkniefnamarkaði. Karl Steinar Valsson, yfirmaður miðlægrar rannsóknardeilar lögreglunnar, segir að um tímabundið ástand sé að ræða.

Til samanburðar má nefna að á seinasta ári lagði lögreglan hald á mun meira af sterkum fíkniefnum á fyrstu 10 mánuðum ársins en allt árið 2018. Met var slegið í kókaíninnflutningi til landsins. Á seinasta ári hafði verð á kókaíni lækkað frá 2017 og innlögnum á Vog vegna kókaínfíknar fjölgað.

Covid-19 faraldurinn hefur haft mikil áhrif á kókaíneyslu í landinu en á síðasta ári fjölgaði mjög innlögnum vegna kókaínfíknar og met var slegið í innflutningi á efninu. Titringur er á íslenskum fíkniefnamarkaði vegna stöðvunar á millilandaflugi þó svo að meirihluti efna komi sjóleiðina. Umsvifamikill fíkniefnasali segir hörkuna að aukast á meðal langt leiddra fíkla.

Sífellt fleiri háðari kókaíni

Í maí á seinasta ári greindi DV frá því að innflutningur kókaíns til Íslands færi ört vaxandi, efnið væri sterkara en oft áður og tölur gæfu til kynna að neysla þess fari vaxandi. Þá kom fram að greiningum kókaínfíknar hefði fjölgað hratt hjá íslenskum meðferðaraðilum. Talið væri að erlendir glæpamenn væru stórtækir á íslenskum kókaínmarkaði.

Kókaín.

„Upplýsingar frá því í janúar 2019 gefa til kynna að neysla kókaíns fari vaxandi á Íslandi. Verð á efninu lækkaði árið 2018, um allt að fjórðung frá árum þar á undan,“ kom fram í skýrslu greiningardeildar ríkislögreglustjóra.

Á öðrum stað í skýrslunni segir: „Aukinn hreinleiki efna á markaði felur í sér hættu þar eð neytendur fá þá sterkari efni en þeir eru vanir og taka því inn of mikið magn.“

Í september í fyrra komu þriðjungi fleiri á bráðamótku Landspítalans vegna fíkniefnaneyslu en gera í venjulegum mánuði. Í samtali við RÚV sagði yfirlæknir bráðalækninga að aukin kókaínneysla væri áberandi og hún væri ekki bundin við neinn einn þjóðfélagshóp.

Þá sagði Víðir Sigrúnarson, læknir á Vogi, í samtali við Vísi á seinasta ári: „Þegar framboðið er mikið þá lækkar verðið, þá komast fleiri í þetta. Það eru sífellt yngri að nota þetta og fólk sem hefði aldrei notað þetta ef það væri ekki verið að bjóða þetta alls staðar. Fólk fer á klósettið á skemmtistað, þá er fólk þar með kókaín í lyklinum að bjóða hvert öðru. Þegar verðið er að lækka þá geta krakkar með litlar tekjur allt í einu haft efni á að kaupa kókaín.“

Meiri harka á meðal fíkla

Einstaklingur sem DV sem ræddi við, sem þekkir vel til í fíkniefnaheiminum, segir mikinn skort á morfínskyldum lyfjum á landinu, eins og oxycodone. Þá hafi eftirspurn eftir amfetamíni stóraukist og verðið sömuleiðis. Verð á grasi hafi staðið í stað. Neysla á amfetamíni og rítalíni hefur að hans sögn stóraukist og segir hann að „veikustu fíklarnir hafa mikið leitað í rítalínið.“ Hann segir veikustu fíklana „redda sér einhverjum fráhvarfslyfjum eða bensólyfjum, en eru annars bara svakalega veik.

„Það er það sem þau fara í, þau sem eru háð kóki,“ segir hann, en bensólyf eru róandi lyf.

Hann segir kókaín „rosalega vinsælt“ meðal allra hópa samfélagsins„Allar stéttir þjóðfélagsins nota kókaín, allt frá útigangsmönnum upp í stjórnmálamenn. Háttsett fólk í atvinnulífinu notar það mjög reglulega.“

Hann segist ekki hafa orðið var við meiri hörku í innheimtu.

„En það er meiri harka núna á meðal fíkla, þar sem eru að ræna og svíkja hver annan fyrir það sem er til.“

Enginn lens

Annar söluaðili innan fíkniefnaheimsins segir í samtali við DV að nóg sé til af kókaíni í landinu. Hækkanir á verði séu tilkomnar vegna þess að „menn eru að nýta sér ástandið og gera það þangað til að menn koma að þolmörkum.“

„Menn sem voru tómir eru allt í einu komnir með nóg aftur. Ástandið er ekki eins slæmt og fólk heldur fram. Á annarri viku eftir samgöngubann voru menn að tala um að allt væri tómt. Auðvitað verður ekki allt tómt í annarri viku. Menn eiga kannski ekki mikið en ég veit að það eru enginn lens. Þessi markaður hreinsar sig eins og allt annað.“

Mest af góða kókinu búið

Þriðji aðili innan fíkniefnaheimsins sem DV ræddi við segir hina svokölluðu „smásala“ helst finna fyrir ástandinu. Mest af „góða“ kókaíninu sé búið. Á hann þar við við hreint kókaín.

Fjórði aðilinn sem DV ræddi við, sem tengst hefur undirheimunum í fjölda ára, segir stöðuna á markaðnum í dag vera misjafna.

„Það fer eftir eftir hver þú ert og hvern þú þekkir. Það er minna um kókaín í dag en var fyrir veiru. En samt alveg nóg til til að menn haldi sínum tekjum gangandi enn sem komið er. Í dag eru að koma mun stærri sendingar en bara fyrir fimm árum árum síðan og flest allt kemur sjóleiðina. Leifstöð er fyrir amatöra sem eru að stíga sín fyrstu skref í þessu eða menn sem hafa ekki efni á að gera þetta vel og almennilega.“

Leifsstöð. Ljósmynd/Eyþór

Hann segir að það muni ekki verða skortur á amfetamíni eða grasi á landinu, þar sem það er framleitt hérna.

„Framleiðsla af amfetamíni á sennilega bara eftir að aukast þegar að kókið mun verða dýrara. En þar sem þetta kemur mest sjóleiðina þá efast ég um að að muni verða einhver svaka skortur á þessu hérna. Eftirspurnin er búin að aukast þar sem að fleiri eru orðnir atvinnulausir og þar með auðveldara að fara í dagsneyslu en ella.“

Langflestir í blandaðri neyslu

Valgerður Á. Rúnarsdóttir, yfirlæknir á Vogi, segist ekki hafa orðið vör við miklar breytingar hvað varðar innlagnir eða neyslumunstur en bendir á að meðferðarstarfið á Vogi hafi raskast mikið undanfarnar vikur vegna fjarlægðartakmarkana og samkomubanns. Það sé því möguleiki á öðru landslagi þegar fram líða stundir.

„En þeir sem hafa verið að koma til okkar hafa verið að tala um skort á stuðningi og meiri einangrun en áður, allar þessar breytingar sem hafa verið í gangi. En ég hrædd um að við eigum eftir að sjá afleiðingar af atvinnuleysi seinna meir, þegar uppsagnarfresturinn rennur út eftir nokkra mánuði.“

Hún segir að langflestir sem leita á Vog séu í blandaðri neyslu, það er að segja, bæði í áfengi og önnur vímuefni. Hún segir umræðuna um skort helst litaðan af því að það er ákveðinn, lítill hópur sem hefur það verra en áður.

„En það á ekki við um flesta sem eru í neyslu. Þeir sem eru að drekka og neyta áfengis í miklum mæli virðast hafa alveg nóg af efnum. Það er ekki skortur, eins og lögreglan hefur tekið fram. Það eru engar breytingar á tölu sem fólk segist borga fyrir lyfin. Það kemur ekki endilega fram í heildartölum þó að einhver einn afmarkaður hópur hafi versnað.

Þessi hópur er háður ákveðnu framboði, það eru ákveðnir einstaklingar sem hafa það verra út af þessu. Það er mikilvægt að hafa puttann á púlsinum næstu mánuðina.“

Aðeins lítill hluti notast við flugið

„Ef þú ert söluaðili þá er auðvitað voða fínt að geta sagt að það sé skortur, og kýla upp markaðsverðið,“ Karl Steinar Valsson, yfirmaður miðlægrar rannsóknardeildar lögreglunnar í samtali við DV.

„En við höfum ekki beint verið að sjá þetta og Vogur er að segja það sama. Þeir sem eru að koma inn á Vog eru ekki að tala á þessum nótum. Það hafa verið að koma tímabil þar sem eitthvað er um skort, helst þá skort á kókaíni, en það er ekki langvarandi. Það hefur aldrei verið viðvarandi ástand. Menn fara þá að framleiða amfetamín í staðinn, þó að það sé kanski ekki fyrir minnstu neysluhópana,“ segir hann.

„Þeir sem eru að notfæra sér skemmtanahaldið til að ná sér í efni eins og kókaín, sem er hluti af neyslumódelinu, það getur vel verið að þeir eigi ekki kost á því núna þegar skemmtistaðir hafa verið lokaðir. Það er kanski hægt að tala um skort á efnum að því leyti. Það þýðir ekki að það sé skortur á efnum almennt. Það er aðgengisskorturinn sem hefur breyst. Þeir sem eru í stöðugri neyslu á til dæmis kókaíni eru náttúrulega með sína tengliliði, tengliði sem hafa leiðir til að útvega efni,“ segir Karl Steinar jafnframt.

Karl Steinar.

Hann bendir á að seinasta ár hafi verið óvenjulegt að því leyti að þá komu upp óvenju mörg mál á Keflavíkurflugvelli þar sem verið var að smygla inn miklu magni í einu.

„Venjulega eru burðardýr að koma inn með nokkur hundruð grömm en á seinasta ári komu upp nokkur mál á Keflavíkurflugvelli þar sem einstaklingar voru að flytja inn efnin í kílóatali.“

Karl Steinar segir stærstu byrgjana notast við sjóleiðina til að koma efnum til landsins. Það sé aðeins „að hluta til“ sem efni komi inn til landsins með flugi, það er að segja með burðardýrum. Mörg stærstu smyglmál seinustu ára hafa tengst komu Norrænu. Hann segir 90 prósent af öllum efnum sem fara milli Suður Ameríku og Evrópu fara sjóleiðina.

„Þeir sem eru mest í innflutningi á fíkniefnum og eiga mesta magnið eru að nota aðrar leiðir heldur en flugið. Flugið er yfirleitt reddingar. Þeir sem eru með magninnflutningin, þeir halda áfram og nota sömu leiðir og áður. Þannig að flugið er ekki að hafa stórvægileg áhrif á þá. Þetta er einnig að koma fram í nýjustu skýrslum Europol. Yfirleitt er sjóleiðin grundvöllur að öllu. Tækifærin til að fela efnin eru miklu meiri en í flugi,“

segir Karl Steinar jafnframt en hann vill þó ekki svara því hvort eftirlit sé meira með skipunum nú en áður.

„Það er bara sama og áður, það er mikil samvinna á milli lögreglu og tollayfirvalda. Það er okkar hlutverk að gera það sem við getum til að stöðva innflutning.“

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Mest lesið

Ekki missa af

Fréttir
Fyrir 2 dögum

Drap kanínu sex ára drengs fyrir framan hann í Kópavogi

Drap kanínu sex ára drengs fyrir framan hann í Kópavogi
Fréttir
Fyrir 2 dögum

Maður á sjötugsaldri í áframhaldandi gæsluvarðhald vegna brunans

Maður á sjötugsaldri í áframhaldandi gæsluvarðhald vegna brunans
Fréttir
Fyrir 2 dögum

Erlent verkafólk þurfti að tjalda í stofunni – ein fékk inni hjá Stígamótum

Erlent verkafólk þurfti að tjalda í stofunni – ein fékk inni hjá Stígamótum
Fréttir
Fyrir 2 dögum

Ógeðslegt einelti fyrir norðan – Fjölskyldan skilar skömminni til gerandans

Ógeðslegt einelti fyrir norðan – Fjölskyldan skilar skömminni til gerandans
Fréttir
Fyrir 3 dögum

Ofsaakstur á fjórhjólum og vespum í Kópavogi – „Það gæti orðið banaslys“

Ofsaakstur á fjórhjólum og vespum í Kópavogi – „Það gæti orðið banaslys“
Fréttir
Fyrir 3 dögum

Deildi myndbandi af utanvegaakstri og gefur lítið fyrir gagnrýni – „Hættu að vera Karen“

Deildi myndbandi af utanvegaakstri og gefur lítið fyrir gagnrýni – „Hættu að vera Karen“
Fréttir
Fyrir 3 dögum

Gleðifréttir af Bíó Paradís

Gleðifréttir af Bíó Paradís
Fréttir
Fyrir 3 dögum

Íslensk stúlka sem aldrei hefur neytt vímuefna grunuð um fíkniefnamisferli og boðuð í yfirheyrslu

Íslensk stúlka sem aldrei hefur neytt vímuefna grunuð um fíkniefnamisferli og boðuð í yfirheyrslu