fbpx
Laugardagur 24.október 2020
Fréttir

Sylvía Dís var neydd með lögregluvaldi til að umgangast föður sem hún segir ofbeldisfullan – „Það á að hlusta á börnin, alltaf“

Ágúst Borgþór Sverrisson
Fimmtudaginn 1. október 2020 15:38

Mæðgurnar Margrét Jóhannsdóttir og Sylvía Dís Margrétardóttir. Aðsend mynd

Ekki missa af Helstu tíðindum dagsins í pósthólfið þitt

Lesa nánar

„Hún er hugrökk að stíga fram núna. Aðalmálið er kannski það að hún var látin ganga í gegnum þrjár aðfarir, sem er í rauninni ekki annað en handtaka á ungu barni. Þetta gerðist ekki einu sinni heldur þrisvar, sem er hræðilegt,“ segir Margrét Jóhannsdóttir, móðir Sylvíu Dís Margrétardóttur, sem hefur stigið fram með áhrifamikinn pistil þar sem hún greinir frá nauðungarumgengni við föður sinn sem hún segir hafa beitt sig ofbeldi. Hún sakar einnig föðurfjölskyldu sína um ofbeldi.

DV rakst á pistilinn á Facebook-síðunni Líf án ofbeldis en greinar sem hafa birst þar af svipuðum meiði urðu Sylvíu hvatning til að stíga fram með sína sögu. Margrét, móðir Sylvíu, hefur verið í sambandi við aðrar mæður í því Fésbókarsamfélagi og hafa þær deilt reynslu sinni.

Frásögn Sylvíu birtist hér að neðst í fréttinni í endurbættri útgáfu hennar.

Sylvía greinir meðal annars frá því að lögregla hafi verið kölluð þrisvar að heimili móður hennar og flutt hana nauðungarflutningi á heimili föður hennar, þar sem hún vildi ekki vera. Segir Sylvía í pistli sínum að það sé mikilvægt að hlusta á raddir barna og virða óskir þeirra. Greint var frá einum nauðungarflutningnum í fjölmiðlum en á Vísir.is árið 2009 segir frá því að fimm lögreglumenn hafi þurft til að aðstoða fulltrúa barnaverndar Reykjavíkur til að koma sjö ára stelpu í hendur forsjárlauss föður sem hún vildi alls ekki hitta. Fram kemur í fréttinni að lögregla telji að hagsmunir barnsins hafi ekki verið hafðir að leiðarljósi. Segir einnig að stúlkan hafi þurft læknishjálp eftir heimsóknina til föður síns. Sylvía greinir ítarlega frá þessum atvikum í pistli sínum.

„Mér finnst bara allt í lagi að það komi fram hvernig sýslumaður og barnaverndarnefnd höguðu sér í þessu máli. Lögreglan stóð reyndar með barninu í einu tilviki en var að öðru leyti bara að hlýða skipunum og vinna sína vinnu,“ segir Margrét. Hún lofar hugrekki dóttur sinnar:

„Við hræðumst ekkert í dag. Hún hefur beðið eftir því að verða 18 ára öll þessi ár og hún er loksins orðin 18 og komin með mitt kenninafn, löglegt. Hún er óskaplega hugrökk að bara geta það,“ segir Margrét.

Ekki var hlustað á ásakanir barnsins

Sylvía er fædd árið 2002 en í pistli sínum segist hún hafa mjög ung farið að kvarta undan ofbeldi föður síns og föðurfólks. Það hafi hins vegar sjaldan verið tekið mark á henni. Faðir hennar hafi haft mjög slæmt áhrif á hana og bæði hann og föðurfjölskylda beitt hana andlegu og líkamlegu ofbeldi.

Faðir Sylvíu hefur látið að sér kveða í baráttu forsjárlausra ferða og Sylvía segir hann hafa í viðtölum sagt móður hennar vera geðveika. Það hafi hins vegar verið móðir hennar sem veitti henni ástúð, hlustaði á hana og reyndi að vernda hana.

Sylvía segist hafa gert allt sem hún gat til að koma sér hjá umgengni við föður sinn enda hafi samvera við hann verið henni hræðileg, uppfull af reiði og ógn. Hún lýsir því hvernig hún grét og öskraði hástöfum þegar hún var flutt nauðug til föður síns til Húsavíkur. Á meðan hún þurfti að dveljast þar í þrjár vikur hafi faðir hennar tekið af henni síma og varnað henni að hafa samband við móður hennar.

Sylvía segir föður sinn síðast hafa beitt sig ofbeldi á útihátíð á Húsavík árið 2018, þar hafi hann meðal annars hótað fjölskyldu hennar lífláti. Fjöldi manns hafi orðið vitni að áreitinu en enginn gert neitt þeim til varnar. Stuttu eftir þetta atvik reyndi Sylvía að taka líf sitt.

Pistill Sylvíu Dísar Margrétardóttur birtist hér að neðan:

Þetta liggur mjög þungt á mér og ég þarf að koma þessu frá mér. Ég er loksins orðin 18 ára og get farið að tjá mig og fólk vonandi hlustar. Þar sem að samfélagsmiðlar eru orðnir frekar öflugir í dag og mér líður eins og þeir geti hjálpað fólki í svipaðri stöðu eða vakið athygli á svona málum og því hef ég ákveðið að segja ykkur aðeins frá föður mínum, honum XXX, og hvað ég og fjölskyldan mín höfum þurft að ganga í gegnum. Ég er fædd árið 2002 og byrjaði að segja frá þessu mjög ung en sjaldan hlustaði einhver á mig og í flestum tilfellum var ekkert mark tekið á mér.

En sannleikurinn er sá að þessi maður hefur haft mjög slæm áhrif á mig síðan ég man eftir mér, bæði hann og föðurfjölskyldan mín hafa beitt mig ofbeldi, andlegu og líkamlegu. Frá mjög ungum aldri hef ég þurft að þola og horfa upp á mikið ofbeldi og til að nefna örfá dæmi þá hef ég horft á hann og fjölskylduna hans ganga margoft í skrokk á mömmu og systkinum mínum, hlustað á hann tala um hversu geðveik móðurfjölskyldan mín er, verið slegin af honum í miðju barnaafmæli, hlustað á mömmu hans mata ofan í mig að hálfbróðir minn sé ekki bróðir minn, hlustað á morðhótanir frá honum og ég hef verið tekin með valdi af lögreglu.

Það þarf ekki að leita langt til að sjá viðtöl við XXXX þar sem hann lýsir því yfir hvað mamma mín sé geðveik og að það sé hún sem hafi bannað öll samskipti við hann. Í fyrstu lítur þessi maður alveg örugglega út fyrir að vera yndislegasti maður í heimi og æðislegur faðir sem átti veika barnsmóður og var bara að berjast fyrir að fá að hitta börnin sín. Það er alls ekki þannig. Það var mamma sem hlustaði á mig, það var mamma sem sá til þess að mér leið vel, það var mamma sem barðist gegn yfirvöldum og ofbeldisfullum aumingja, það var alltaf mamma og það er henni að þakka að ég sé ennþá á lífi í dag. Margoft hefur verið reynt að kæra hann fyrir að brjóta á okkur, þar sem fólk hefur horft á hann með berum augum beita okkur ofbeldi. Systir mín hefur skrifað svipaða grein og þessa til að segja frá og vekja athygli á þessu en aldrei var neitt gert til þess að hjálpa okkur. Þessi maður hafði alla með sér í liði, sama hvort það voru yfirvöld, fjölskylda, lögregla, dómarar, vinir eða bara eitthvað fólk á netinu sem hafði aðeins heyrt hans hlið á málinu sem voru eintómar lygar.

Þegar það kom að því að ég ætti að fara í umgengni til hans gerði ég allt til að forðast það, ég vildi bara alls ekki vera í kringum þennan mann. Ég harðneitaði jafnvel að borða í marga daga svo ég þyrfti að fara upp á spítala að fá næringu í æð því þá gæti hann ekki tekið mig. Það á ekkert barn að þurfa að hugsa svona og fara allar þessar lengdir til þess að forðast ofbeldismann.

En þetta var blákaldur raunveruleikinn minn, þetta var æskan sem ég fékk. Vegna þess að ég neitaði að fara til hans var mamma farin að fá dagsektir og hún var komin í margra milljón króna skuld, einungis fyrir það að vernda barnið sitt. Að þurfa að fara í pabbahelgar var mín mesta martröð því ég vissi hvað væri að fara gerast, ég vissi líka að hann yrði reiður ef ég myndi segja frá. Þetta var svona í mörg ár, þangað til árið 2008.

Sumarið 2008 mættu lögreglan, barnaverndarstarfsmenn, XXXX og lögfræðingurinn hans heim til mín og tóku mig. Ég man ennþá eftir þessu eins og þetta hafi gerst í gær. Ég var 6 ára og var tekin með lögregluvaldi. 6 ÁRA. Ég var bókstaflega rifin úr fangi mömmu minnar, niður stigana og hent inn í bíl til að fara með XXXX til Húsavíkur, allt á meðan ég öskraði úr mér líffærin og grét eins og ég veit ekki hvað. Elsta systir mín, sem var 13 ára þá, fór með mér því hún sá hvað þetta var erfitt fyrir mig og gat ekki hugsað sér að ég færi ein með honum. Við systur vorum þarna í 3 vikur og gátum ekki haft samband við mömmu því hann tók símann af systur minni.

Ég reyndi að eyða mesta tímanum með frænda mínum sem var góður vinur minn þá og heima hjá ömmu og afa því þau voru ekki jafn vond við okkur. Mér leið ömurlega og gat ekki beðið eftir því að komast heim. Þetta var virkilega erfitt og systir mín var lögð inn á spítala strax eftir þetta því hún fékk taugaáfall. Þetta var því miður ekki í seinasta skipti sem ég var tekin með lögregluvaldi.

Þetta gerðist aftur 2009 og þá fór ég ein og var í 4 vikur. Og svo aftur árið 2010, en þá lá ég inni á spítala með næringu í æð og þá fengum við símtal um að við ættum að mæta á Bugl til þess að ræða málin. En þegar uppi var staðið þá voru þetta bara ein svik í gegn hjá þessu fólki því þegar ég mætti þangað þá blasti við mér þetta sama fólk og neyddi mig í það að fara með honum í 5 vikur. Þetta varð aldrei betra og mér fannst eins og að þetta ætti bara að vera svona, kannski eru þetta bara það sem pabbar gera við börnin sín. Ég mátti ekki sofa í mínu eigin rúmi eða herbergi, ég mátti ekki gráta, ég mátti ekki gista hjá frænda mínum eða ömmu og afa, ég mátti ekki hafa samband við mömmu eða systkini mín, ég mátti ekki einu sinni hringja í systur og mömmu mína á afmælisdaginn þeirra. Hann var alltaf reiður og ég þorði ekki að gera neitt því þá myndi hann meiða mig. Það er svo ömurlegt að hugsa út í það að yfirvöld hafi verið með í þessu vitandi hvað væri í gangi og eftir að XXXX hafi játað það að hafa beitt ofbeldi.

Ofbeldið og áreitið gekk á í mörg ár, mér fannst lífið aldrei verða betra. Við fjölskyldan fórum oftar en einu sinni í felur og þá meina ég í alvöru felur. Mamma gerði bókstaflega allt sem hún mögulega gat til þess að passa upp á okkur. Ég óskaði þess oft að hann væri bara dauður og að ég hafi ekki fæðst því þá væri mamma örugglega laus við hann þar sem ég er yngsta barnið og systkini mín voru orðin nógu gömul til þess að hafa sínar skoðanir og fólk farið að hlusta örlítið meira á þau.

En ég var bara barn og átti að halda áfram að umgangast ofbeldismanninn. Mamma fékk mikla hjálp fyrir mig og eftir margra ára skeið hjá góðum sálfræðingum, Barnahúsi og mismunandi læknum greindist ég með kvíðaröskun, þunglyndi og áfallastreituröskun svo eitthvað sé nefnt. Ég var alltaf hrædd um að rekast á hann einhversstaðar því hann hafði verið duglegur að mæta upp í skóla, heim til okkar eða vinnu hjá systkinum mínum. Ég átti erfitt með skólagöngu, fótboltaæfingar og þorði ekki að fara út úr húsi. Og enn þann dag í dag líður mér þannig nema ég sé umkringd vinum mínum eða fjölskyldu. XXXX reyndi að mata það ofan í fólk að þetta væri allt bara bull og til að sanna sitt mál sendi hann mig líka til sálfræðings, sem beitti mig líka líkamlegu ofbeldi.

Eftir því sem ég varð eldri, þá minnkaði ofbeldið því ég var aldrei í kringum hann en áreitið hélt áfram. Hann reyndi oft að hringja, hafa samband á samfélagsmiðlum, mætti oft heim til okkar eða fann einhvern veginn út hvar við vorum og var mjög duglegur að hóta okkur. Það er nú samt ekki liðinn það langur tími frá því að hann beitti okkur systurnar líkamlegu ofbeldi seinast, en það var á útihátið á Húsavík árið 2018. Þar réðst hann á okkur, sagði ógeðslega hluti um fjölskylduna mína og hótaði að ,,þurrka okkur af þessari plánetu‘‘. Þar voru yfir 100 manns, lögreglur og myndavélar en enginn fullorðinn gerði neitt. Öll orkan sem fór í að vinna í sjálfri mér, allur tíminn, öll hjálpin sem ég fékk. Þetta var allt einskins virði því ég datt aftur niður í þunglyndi stuttu eftir útihátíðina og gafst upp. Á afmælisdaginn hans árið 2018 reyndi ég að fremja sjálfsvíg, ég gat bara ekki meira. Þessi maður ætlaði aldrei að stoppa og þetta var eina leiðin út.

Núna í dag, er ég orðin 18 ára og það er mömmu að þakka. Mér finnst ég loksins vera orðin nógu gömul til að fólk hlusti á mig og taki mark á mér. Ég hef þurft að vinna mjög mikið í sjálfri mér en mér finnst það loksins vera þess virði því mér líður vel. Ég á góða vini og æðislega fjölskyldu sem hafa staðið með mér og myndu gera allt til þess að hjálpa mér í gegnum þetta. Ég er orðin sjálfráða, er orðin löglega Margrétardóttir og finnst ég loksins vera frjáls. Kerfið á Íslandi hefur ekki breyst mikið en ég vona svo innilega að fólk hafi tekið sér smá tíma til að lesa þetta og geri sér grein fyrir því hvað svona mál eru mikilvæg. Börn hafa tilfinningar og ÞAÐ Á AÐ HLUSTA Á BÖRNIN, ALLTAF.

 

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Mest lesið

Nýlegt

Fréttir
Fyrir 2 dögum

Tilnefning Amy Coney Barrett afgreidd úr nefnd

Tilnefning Amy Coney Barrett afgreidd úr nefnd
Fréttir
Fyrir 2 dögum

Ákærður fyrir misnotkun stúlku – Brotin sögð spanna sex ár

Ákærður fyrir misnotkun stúlku – Brotin sögð spanna sex ár
Fréttir
Fyrir 2 dögum

Huginn vinnur meiðyrðamál öðru sinni – „Það er algjörlega klárt mál að þú ert ofbeldismaður“

Huginn vinnur meiðyrðamál öðru sinni – „Það er algjörlega klárt mál að þú ert ofbeldismaður“
Fréttir
Fyrir 2 dögum

Íslendingar í útlöndum í vandræðum vegna tæknibilunar hjá Arion banka – Fá ekki sendar greiðslur að heiman

Íslendingar í útlöndum í vandræðum vegna tæknibilunar hjá Arion banka – Fá ekki sendar greiðslur að heiman