Sunnudagur 29.mars 2020
Fréttir

DV ræðir við mann sem dvaldist á sama sveitaheimili og Guðmundur Freyr – „Þau áttu að vera bindindishjón en hún var mjög drykkfelld“

Ágúst Borgþór Sverrisson
Sunnudaginn 19. janúar 2020 11:56

Ekki missa af Helstu tíðindum dagsins í pósthólfið þitt

Lesa nánar

„Ég held að það hafi verið í kringum 1990 eða 1991 sem hann fór endanlega í burtu þaðan og ég kom í hans stað. Ég vissi ekki um þetta strok fyrr en fjallað var um það núna en mér vitanlega var það móðir hans sem sótti hann þegar hann fór endanlega,“ segir maður sem dvaldist í fóstri á sama sveitaheimili og Guðmundur Freyr Magnússon, í nágrenni við Hvolsvöll. Eins og kom fram í DV í gær staðhæfir maður einn, æskuvinur Guðmundar Freys, að Guðmundur Freyr hafi aðeins 7 ára gamall verið bundinn niður í stól og hýddur á þessu sveitaheimili. Hafi Guðmundur Freyr sýnt honum stólinn þar sem þetta átti sér stað. Annar æskuvinur Guðmundar Freys segir hann hafa sagt sér frá stólnum og misþyrmingunum.

Maðurinn sem DV ræddi við í dag er ári eldri en Guðmundur Freyr. Hann var ekki beittur ofbeldi á þessu heimili fyrir utan eitt atvik er tengdasonur konunnar á bænum veittist að honum. Í heildina leið manninum ekki illa á bænum og segir dvölina hafa verið betri fyrir sig en á hans eigin heimili þar sem voru erfiðleikar. Maðurinn ber bóndanum á bænum vel söguna, sem og syni hans sem bjó á bæ rétt hjá, en húsfreyjunni á bænum ber hann ekki vel söguna.

„Ég var á BUGL (Barna- og unglingageðdeild Landspítalans) frá 10 til 12 ára aldurs þegar ég var plataður af barnaverndarnefnd á þetta sveitaheimili undir þeim formerkjum að ég ætti að vera í sex vikur. Þetta var sumarið 1991,“ segir maðurinn sem ílentist á staðnum í nokkur ár. Sótti konan á bænum um fyrir drenginn í grunnskólanum á Hvolsvelli án þess að láta hann vita af því.

„Þetta áttu að vera bindindishjón en hún var alls ekki bindindiskona heldur mjög drykkfelld, lokaði sig mikið af á kvöldin og það voru heilu ruslapokanir af bjórdósum eftir hana í hverjum mánuði. Ég kjaftaði þessu í móður mína og þá var barnaverndarnefnd kölluð á staðinn. Það var talað við mig sér og síðan við hana. En svo þegar ég var kallaður inn til að tala við sálfræðinginn þá var það svo að alltaf áður en ég náði að segja eitthvað greip hún frammi í, þannig að ég náði ekki að segja neitt. Niðurstaða sálfræðingsins var sú að ég væri svo lyginn að ég vissi ekki hvenær ég væri að segja satt og hvenær ég væri að ljúga.“

Líklega var þetta versta atvikið á dvalartíma drengsins þarna því upp frá þessu hætti hann að treysta fullorðnum. „Eftir þetta byrjaði konan að hlera öll símtöl við móður mína til að athuga hvort ég væri að kjafta einhverju og lét mig finna vel fyrir því. En maðurinn hennar var algjör andstæða, mjög góður karl. Það er útilokað að hann hafi nokkurn tíma beitt Guðmund Frey ofbeldi. Maðurinn var mikið fyrir að hrósa, hvetja mig áfram og byggja mig upp. Konan var óskaplega mislynd og ópin í henni ómuðu í hausnum á mér í mörg ár eftir að ég var farinn burtu af staðnum.“

Töluverður aldursmunur var á hjónunum. Á næsta bæ bjó sonur þeirra sem maðurinn segist hafa átt mjög góð samskipti við. Í heildina lætur hann ekki illa af dvölinni þó að hann segi að vinnuharka hafi verið töluverð og myndi líklega ekki verða liðin í dag þegar svo ung börn eiga í hlut. Á þessum tíma hafi það einnig ekki verið til siðs að hlusta á börn.

Maðurinn segir enn fremur að konan hafi verið í stjórn barnaverndar á svæðinu og því hafi allar tilraunir til að vinna gegn henni sem fósturforeldri verið vonlausar.

„En ég get hvorki staðfest né neitað því að þarna hafi verið einhver stóll í notkun fyrir hýðingar. Það er eitthvað sem ég er fyrst að heyra um núna.“

Guðmundur Freyr var orðinn sprautufíkill fyrir tvítugt

„Ég kynnsti Guðmundi Frey þegar hann kom aftur í grunnskólann á Hvolsvelli árið 1993. Hann var frekar bráðþroska og hraustur að sjá. Rólegur strákur og ekkert sjáanlegt rugl á honum. En svo sé ég hann aftur fyrir lok áratugarins og þá var hann kominn í harða neyslu, sprautufíkill og stöðugt að koma sér í fíkniefnaskuldir og með handrukkara á eftir sér.“

Segir maðurinn að fíkniefnaskuldir og flótti Guðmundar undan handrukkurum hafi verið mjög áberandi þættir í lífi hans. Ljóst er að Guðmundur var farinn að sprauta sig með fíkniefnum í síðasta lagi 19 ára og líklega fyrr en hann er fæddur árið 1980.

 

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Mest lesið

Ekki missa af

Fréttir
Í gær

Jón Gunnlaugur tekur við Víkingi, Andri Berg aðstoðar

Jón Gunnlaugur tekur við Víkingi, Andri Berg aðstoðar
Fréttir
Í gær

Blóðug átök í biðröð við salerni – Sagði að dömurnar ættu að ganga fyrir

Blóðug átök í biðröð við salerni – Sagði að dömurnar ættu að ganga fyrir
Fréttir
Í gær

Þorkell birti ótrúlegan spádóm – Stuttu seinna endaði hann í hjólastól

Þorkell birti ótrúlegan spádóm – Stuttu seinna endaði hann í hjólastól
Fréttir
Í gær

Ríkey varð kjaftstopp í Krambúðinni þegar þetta gerðist – „Við viljum alls ekki stofna neinum í hættu“

Ríkey varð kjaftstopp í Krambúðinni þegar þetta gerðist – „Við viljum alls ekki stofna neinum í hættu“