fbpx
Laugardagur 10.maí 2025
Fréttir

Líf hjónanna breyttist eftir skoðunarferð í Grindavík – Björn íhugar málsókn

Ágúst Borgþór Sverrisson
Fimmtudaginn 4. júní 2020 20:30

Björn Birgisson

Ekki missa af Helstu tíðindum dagsins í pósthólfið þitt

Lesa nánar

Fyrir rétt rúmu ári síðan lenti eiginkona Björns Birgissonar í alvarlegu slysi á útsýnispallinum við Brimketil í Grindavík. Hún féll á pallinum með þeim afleiðingum að hún hlaut slæmt brot við hægri mjöðm. Björn telur slysið stafa af vanbúnaði í hönnun pallsins en stöllun virðist þar lítt sýnileg, þannig að þar sem virðist jafnslétta er í raun allt að 50 cm þrep.

„Hún hlaut slæmt lærbrot uppi við mjaðmarlið, það var skrúfað saman, en sjö mánuðum síðar kom í ljós að sú aðgerð hafði misheppnast og þá var loks tekin ákvörðun um að skipta um liðinn. Augljóslega hefur fylgt þessu ferli veruleg skerðing á lífsgæðum hennar,“ segir Björn í samtali við DV.

Meðfylgjandi er mynd sem sýnir að þrepið niður á við virðist ekki augljóst heldur gæti sá sem þar gengur yfir haldið að hann væri að ganga á jafnsléttu.

„Ég tel að hönnun útsýnispallsins standist ekki gerðar kröfur um öryggi. Algjörlega ómerkt stöllun er þar, allt að 50 sentimetra há. Sama efni er í gólfi beggja stallanna og því mjög erfitt að greina upphækkunina, sérstaklega af þeim efri, svo erfitt að samkvæmt mínum heimildum hafa fjölmargir ferðamenn dottið þarna. Til samanburðar má geta þess að ekki má vera meira en 19 sentimetra hæðarmunur á stigaþrepum í húsum, bæði innan- og utandyra. Þarna hefði þurft að vera handrið til aðgreiningar á stöllunum, eða í það minnsta máluð skærlituð lína. Ekkert slíkt er þarna og ekkert skilti sem varar fólk við. Hef heyrt í mörgum sem starfa í byggingariðnaði og þeim ber öllum saman um að þarna sé hættuleg, ólögleg, manngerð slysagildra,“ segir Björn.

Fékk stuttaralegt svar frá bæjarstjórn

Björn vill að bæjarstjórn Grindavíkur hlutist til um að ábyrgð verði öxluð í málinu. Fer hann fram á að þau hjónin fái greiddar 2 milljónir í bætur frá þeim sem bera ábyrgð á útsýnispallinum. Í samtali við DV segist Björn ekki telja einsýnt að ábyrgðin liggi öll hjá bæjarfélaginu:

„Já og nei, Brimketill er í landi Grindavíkur og því kom það í hlut byggingafulltrúa bæjarins að gera lokaúttekt á útsýnispallinum. Þá úttekt skil ég þannig að votta eigi að mannvirkið sé reist rétt samkvæmt teikningum og uppfylli nauðsynlegar öryggiskröfur. Sú úttekt var gerð án athugasemda. Þar liggur viss hluti ábyrgðarinnar hjá Grindavíkurbæ.

Síðan þarf auðvitað að skoða nánar teikningarnar frá Landmótun, en þær hef ég ekki séð. Sé mannvirkið reist í einu og öllu samkvæmt þeim þá er einkum tvennt verulega ámælisvert. Stöllunin sem varð okkur hjónum að falli og svo hefur mér verið bent á að handriðið umhverfis útsýnispallinn sé þannig að svo langt sé á milli spelanna að börn geti auðveldlega sloppið í gegn og hrapað niður og þá væntanlega í opinn dauðann.“

Meðfylgjandi er bréfið sem Björn sendi bæjarstjórn en þar segir meðal annars:

Við hjónin teljum algjörlega einsýnt að nefnt mannvirki standist í engu þær öryggiskröfur sem gerðar eru til slíkra mannvirkja, mannvirkja sem þúsundir gesta sækja árlega.

Þetta erindi er sett fram í þeirri von að ekki þurfi að koma til málaferla vegna málsins, með tilheyrandi kostnaði og óþægindum fyrir alla málsaðila.

Samhliða því að fara fram á þessa upphæð, er því hér með lýst yfir að helmingur hennar mun renna til Rauða krossins í Grindavík og Björgunarsveitarinnar Þorbjörns í Grindavík í jöfnum hlutföllum.“

Björn fékk vægast sagt stuttaralegt svar frá bæjarráði við þessu erindi. Í bréfinu segir einfaldlega: „Bæjarráð hafnar erindinu.“

Málsókn kemur til greina

Aðspurður segir Björn að hann hafi ekki tekið ákvörðun um hvort hann stefni bæjarfélaginu vegna málsins. „Engin ákvörðun um það liggur fyrir á þessari stundu. Ég gerði bænum afskaplega hóflegt tilboð um samkomulagsbætur og lét fylgja með að helmingur þeirra myndu renna til Björgunarsveitarinnar og Rauða krossins í bænum. Því var alfarið hafnað. Eru ekki margir lögfræðingar í landinu sem hafa sérhæft sig í alls kyns slysabótum? Kannski einhverjir þeirra sjái vinningsvon í þessu máli og hafi samband!“

 

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Mest lesið

Nýlegt

Fréttir
Í gær

Minnst sjö hafa kært Írisi Helgu fyrir umsáturseinelti

Minnst sjö hafa kært Írisi Helgu fyrir umsáturseinelti
Fréttir
Í gær

Staksteinar gera stólpagrín að borgarfulltrúa Pírata

Staksteinar gera stólpagrín að borgarfulltrúa Pírata
Fréttir
Fyrir 2 dögum

Þurfa að búa áfram við skothvelli – Fengu sólarhring til að senda inn athugasemdir

Þurfa að búa áfram við skothvelli – Fengu sólarhring til að senda inn athugasemdir
Fréttir
Fyrir 2 dögum

Hvetur héraðssaksóknara og ríkissaksóknara til að segja af sér

Hvetur héraðssaksóknara og ríkissaksóknara til að segja af sér