„Vegna umfjöllunar í Kastljósi þann 7. maí sl. vill Samkeppniseftirlitið taka fram að það hefur ekki krafist þess að Guðmundur Kristjánsson láti af starfi sem forstjóri Brims. Fyrir Samkeppniseftirlitinu liggur að taka afstöðu til þess hvort breyting hafi orðið á yfirráðum í Brimi, og ef svo er, hver áhrif þeirra eru á samkeppni,“ segir í fréttatilkynningu frá Samkeppniseftirlitinu þar sem farið er yfir rannsóknir eftirlitsins á yfirráðum í útgerðarfélaginu Brimi.
Guðmundur lét af störfum sem forstjóri fyrirtækisins og sagði að ástæðan fyrir starfslokum hans væri sífelld afskipti Samkeppniseftirlitsins af sínum viðskiptum. DV fjallaði um þetta í gærkvöld. „Ég sá að fyrirtækið gæti ekki gert neitt á Íslandi vegna þess að það væri alltaf verið að rannsaka mig,“ sagði Guðmundur og sagðist telja að aðgerðirnar beindust gegn hans persónu.
Þessu hafnar Samkeppniseftirlitið og bendir á að tilgangur samkeppnislaga sé meðal annars að vinna gegn skaðlegri samþjöppun á mörkuðum sem geti skaðað hagsmuni viðskiptavina, keppinauta og almennings. Rannsóknin á Brimi snúist um að komast að því hvort yfirráð hafi skapast í félaginu: „Í samkeppnisrétti miðar athugun á yfirráðum í einföldu máli að því að komast til botns í því hver eða hverjir geta í reynd haft afgerandi áhrif á ákvarðanir og viðskiptastefnu fyrirtækis. Matið ræðst því t.d. ekki af tilteknum eignarhlutföllum einum og sér, heldur geta ýmis önnur atriði haft áhrif á matið, s.s. samningsskuldbindingar, mæting á hluthafafundi, sameiginleg viðskiptasaga, fjölskyldutengsl og fleira sem dregur fram hvar yfirráð liggja í reynd.“
Samkeppniseftirlitið segist nú hafa til athugunar þann möguleika að stofnast hafi til yfirráða í Brimi sem tilkynna hefði átt lögum samkvæmt til Samkeppnisyfirvalda áður en yfirráðin komust til framkvæmda:
„Nánar tiltekið er eftirlitið að taka afstöðu til þess hvort Útgerðarfélag Reykjavíkur hf., Fiskitangi ehf., KG Fiskverkun ehf. og FISK-Seafood eignarhaldsfélag (í dag RE-13 ehf.) hafi myndað yfirráð í Brimi. Fyrir eftirlitinu liggur að afla frekari gagna og gefa öllum aðilum málsins ítrasta tækifæri á að koma skýringum og sjónarmiðum á framfæri. Ekki er hægt að fullyrða um endanlega niðurstöðu málsins fyrr en að undangenginni þessari rannsókn.“
Tilkynning Samkeppniseftirlitsins