Í júlímánuði bárust 68 tilkynningar um innbrot til lögreglunnar á höfuðborgarsvæðinu. Þetta kemur fram í mánaðarskýrslu lögreglu um skráð hegningarlagabrot í umdæminu. Alls voru skráð 725 hegningarlagabrot og fjölgaði þeim lítillega frá júnímánuði.
Í skýrslunni kemur fram að 34 innbrot á heimili hafi verið skráð í mánuðinum sem er það næstmesta í einstökum mánuði þar sem af er ári. Þau voru 32 í júní, 26 í maí, 29 í apríl, 28 í mars, 35 í febrúar og 20 í janúar. Þegar á heildina er litið voru tilkynnt innbrot innan útreiknaðra marka fyrir síðustu sex og síðustu tólf mánuði á undan. Er þá einnig tekið tillit til innbrota í fyrirtæki og ökutæki.
Þá kemur fram í skýrslunni að töluverð fjölgun hafi orðið á tilkynningum um eignaspjöll, eða 23 prósent á milli mánaða. „Af þeim flokkum sem teknir eru fyrir í þessari skýrslu var mesta fjölgunin á minniháttar eignaspjöllum. Skráðum fíkniefnabrotum fækkaði töluvert á milli mánaða og fóru úr 155 brotum í 118 brot. Engin stórfelld fíkniefnabrot voru skráð á höfuðborgarsvæðinu í júlí.“
Þá segir lögregla að heilt yfir hafi tilkynningum um þjófnað fækkað á milli mánaða. Lögregla vekur þó athygli á að tilkynningum um þjófnað á farsímum fjölgaði nokkuð. „Lögreglan vill því nota tækifærið og benda fólki á óskilamunasíðu lögreglunnar inná www.logreglan.is en þar setur lögreglan meðal annars inn myndir af farsímum sem hafa komið í leitirnar.“