fbpx
Föstudagur 19.apríl 2024
Fréttir

Lögfræðingurinn sofnaði á fundi þegar Borghildur barðist fyrir börnunum: „Hæstiréttur er búinn að staðfesta niðurstöðuna, sorrí“

Lilja Katrín Gunnarsdóttir
Laugardaginn 22. júní 2019 16:00

Bogga varð sterk í baráttu sinni. Mynd: Eyþór Árnason

Ekki missa af Helstu tíðindum dagsins í pósthólfið þitt

Lesa nánar

Borghildur Guðmundsdóttir, ávallt kölluð Bogga. Bogga vakti athygli fjölmiðla hér heima og vestan hafs fyrir rúmum áratug þegar hatrömm forræðisdeila hennar við bandarískan barnsföður hófst. Í þrjú og hálft ár barðist Bogga fyrir sonum sínum tveimur, Brian og Andy, bæði fyrir dómstólum á Íslandi og í Bandaríkjunum sem endaði með fullnaðarsigri Boggu.

Þetta er ekkert skemmtiefni

Bogga skrifaði bókina Ég gefst aldrei upp á meðan hún stóð í málaferlunum og eftir að þeim var lokið. Bókin er í raun ítarleg lýsing á öllu því sem hún lenti í á þessu tveimur og hálfa ári, auk þess sem hún veitir innsýn í líf hennar sem eiginkona hermanns og hvernig hjónaband þeirra Colbys fór stigversnandi eftir að hann sneri aftur úr stríðinu í Írak. Bogga lítur á bókina sem kennslutól fyrir aðra í svipaðri stöðu og hún var í þá.

„Ég hef oft verið spurð: Hugsarðu einhvern tímann: Af hverju þú? Ég hef alveg pælt í því. Ef það er eitthvað planað í kosmósinu þá meikar það alveg sens að ég hafi gengið í gegnum þetta, því á endanum gat ég þetta. Mín saga og þessi bók hefur gert góða hluti fyrir þá sem hafa þurft á henni að halda. Trúðu mér, ég hefði frekar viljað skrifa bók um Denna dæmalausa, en mér líður eins og mér hafi verið gefið það hlutverk að vera tímabundinn kennari fyrir alla aðra sem þurfa að ganga í gegnum mál líkt og mitt. Bókin er til taks uppá að fólk geti leitað sér upplýsinga. Þetta er ekki skemmtiefni, en alveg nauðsynlegt efni. Þetta er bók sem ég hefði viljað getað lesið á sínum tíma til að fá einhverja innsýn í hvað maður var að fara að takast á við í raun og veru. Svo ég hefði geta verið pínulítið undirbúin,“ segir Bogga.

Vanþekking í íslensku dómskerfi

Í fyrrnefndri bók er farið yfir þá litlu hjálp sem Bogga fékk í íslensku stjórnkerfi þegar hún leitaði sér upplýsinga, örvæntingarfull í baráttu fyrir drengjunum sínum tveimur. Þá segir hún að ýmsir vankantar hafi verið á meðferð málsins á Íslandi og telur að málaferlin hefðu getað tekið mun styttri tíma ef rétt hefði verið haldið á spilunum. Hún gagnrýnir einnig lögfræðing sinn, sem er afar þekktur á Íslandi og tíður gestur á síðum blaðanna sökum starfa og einkalífs, harkalega í bókinni og sakar hann um vanrækslu í starfi. Þannig lýsir hún einum fundi með honum þar sem hann sofnaði, hvernig hann hafði verið í persónulegu stríði við verjanda Colbys og að hann hafi mætt of seint í réttarsal. Hún lýsir einnig sláandi atburðum sem gerðust þegar lögfræðingurinn áfrýjaði úrskurði Héraðsdóms Reykjavíkur um að Bogga ætti að snúa aftur til Bandaríkjana með drengina innan sex vikna. Þegar Héraðsdómur staðfesti úrskurðinn brá lögfræðingurinn á það ráð að tilkynna Boggu það með sms-i:

„Hæstiréttur er búinn að staðfesta niðurstöðuna, sorrí.“

Í kjölfarið reyndi Bogga í uppnámi að hringja í lögfræðinginn en hann svaraði ekki síma. Þetta, sem og meðferð íslenskra dómsstóla á málinu, situr enn í Boggu.

„Mér finnst hafa verið tekið á málinu af ofboðslegri vanþekkingu hér á Íslandi. Ég upplifði að ég væri sek um glæp sem ég þurfti að afsanna. Svoleiðis er upplifunin frá A til Ö. Það er ótrúlega erfitt að finna sig í þeim sporum þegar maður hefur aldrei verið uppi á móti neinu í réttarkerfinu og ávallt hagað sínu lífi á einfaldan, heimilislegan hátt. Þegar maður er ekki vanur að þurfa að kljást við neinar skuggahliðar eða grá svæði,“ segir Bogga. Eitt, sem var mikið deilumál, var farbann sem Colby fékk samþykkt á Boggu og drengina fyrir dómstólum í Bandaríkjunum, en það tók gildi daginn eftir að þau lentu á Íslandi. Annað deilumál var umboðið sem Bogga hafði frá barnsföður sínum til að taka allar ómögulegar og mögulegar ákvarðanir er varðaði þeirra hagi í hans fjarveru, svokallað General Power of Attorney. Þetta umboð hafði Bogga allt þeirra samband, enda Colby mikið í burtu vegna herskyldu og því þurfti hún oft að beita því.

Bogga hefur ávallt tileinkað sér að líta á björtu hliðarnar. Mynd: Eyþór Árnason

„Íslenskir dómstólar vissu ekki hvað þeir voru með í höndunum þegar kom að pappírunum, sem komu að utan, hvort sem það var farbann eða General Power of Attorney. Það var bara álitamál dómara hvað pappírarnir þýddu. Og hann rangtúlkaði þá, sem er svo sorglegt því það hafði svo afdrifaríkar afleiðingar. Það er leikur einn að lesa sér til um hvað General Power of Attorney þýðir í Ameríku. Það þýðir allt. Ég hefði geta tekið þetta skjal og skráð Colby í herinn næstu fjörutíu árin þess vegna. Nú, tíu árum seinna, hélt ég að Colby þætti það í lagi að ég færi til Íslands með strákana? Nei. Það í sjálfu sér hefði geta ógilt General Power of Attorney því ég vissi hver hans vilji var. Það er alveg staðreynd. Aftur á móti lendir maður undantekningarlaust í því í lífinu að maður þarf að taka ákvarðanir sem eru ekki alveg samkvæmt bókinni. Það er bara þannig. Ég myndi aldrei gera neitt öðruvísi. Ég myndi gera þetta nákvæmlega svona upp á nýtt,“ segir Bogga.

Fann styrk í Snæfríði

Henni finnst miður að í gegnum þetta ferli hafi hún í raun misst trú á íslenskt stjórn- og dómskerfi.

„Ég fékk lögfræðing og talaði við ráðuneyti og trúði því sem var sagt við mig. Ég á að trúa því. Ég á að hafa rétt á því að leita mér upplýsinga án þess að efast um allt. Svo lærir maður að þetta fólk hefur ekki alltaf rétt fyrir sér. Það er ekki alltaf að gefa þér réttar upplýsingar. Stundum veit þetta fólk ekki svarið, og í staðinn fyrir að segja bara: Ég veit það ekki, þá segir það nei, eða kannski. Í svona málum á maður að geta leitað að einhverjum, fundið einhvern,“ bætir hún við. Svo fór að Bogga fann loks einstakling sem hún gat leitað til, Snæfríði Baldvinsdóttur, sem lést árið 2013. Hún stóð í áralangri forræðisdeilu við ítalskan barnsföður sinn, Marco Brancaccia, yfir dóttur þeirra.

„Hún var gríðarlegur gagnabanki fyrir mig og stuðningur. Mig munaði um það. Það var í fyrsta sinn sem einhver gat gefið mér svigrúm til að anda og leitt mig. Það var ótrúlegur fengur í henni og aðstoð hennar skipti mig rosalega miklu máli,“ segir Bogga og brýnir fyrir fólki að treysta ekki öllu sem yfirvöld segja þegar svo mikið er í húfi. „Þú verður að treysta þér. Ef þér finnst eitthvað gruggugt þá skalt þú tékka á því betur, sama hvað hver segir. Það er ofboðslega margt sem manni klæjar í að vilja breyta, eins og ferli fyrir einstaklinga sem lenda í svona málum. Maður hleypur á milli ráðuneyta og enginn veit neitt því þetta var svo sjaldgæft mál. Hvern langar að vera að ryðja braut þegar maður er að berjast fyrir því heilagasta? Þú átt að geta hringt eða fengið fund með einhverjum sem getur útskýrt málið fyrir þér. Það er ein af ástæðunum fyrir því að bókin er til því það er svo hræðilegt að þurfa að læra á lagaramma, læra á kerfið og læra á ráðuneyti. Þetta er bara hafsjór af hlutum sem enginn kynnir sér fyrr en hann þarf þess.“

Ágætt samband við barnsföðurinn

Bogga segir að samband þeirra Colby sé ágætt í dag. Þegar Boggu var dæmt forræði yfir sonum þeirra tveimur fékk Colby réttinn til að heimsækja þá og fá þá til Bandaríkjanna í heimsóknir. Það nýtti hann sér ekki í mörg ár og Bogga segir það hafa tekið á drengina. Hann hefur hins vegar snúið við blaðinu og auk þess að fá synina nokkrum sinnum í heimsókn til sín vestur um haf heimsótti Colby Ísland til að verja tíma með þeim Brian og Andy.

„Mér þykir vænt um að hann hafi komið hingað og það var í fyrsta sinn sem við ræddum saman að ráði. Hann var þakklátur fyrir að ég hafi farið í málaferli. Hann er þakklátur fyrir það að ég barðist fyrir strákunum. Hann er feginn að ég var ekki að gera þetta á einhverjum frekjuforsendum. Hann er feginn að börnin hans fengu að alast upp hér og hann treystir mér þúsund prósent fyrir börnunum. Mér þykir vænt um það. Stundum lendir maður í aðstæðum þar sem maður verður að berjast með kjafti og klóm fyrir velferð barnanna sinna og kannski fyrrverandi maka líka. Hann var ekki á góðum stað. Ég hugsa að hann verði aldrei hundrað prósent heilbrigður, ekki frekar en ég. En mér þykir vænt um að hann skildi koma og vildi sjá um hvað þeirra líf snýst – sjá hvar þeir eru í skóla, hvar þeir búa, sjá herbergin þeirra, fara á rúntinn, kynnast vinum þeirra, spila tölvuleiki. Það hlýtur að hafa tekið á fyrir hann að koma hingað. Hann veit að Ísland er samheldið samfélag og þjóðfélag. Mér þótti rosalega vænt um að hann skyldi koma þrátt fyrir að fólk vissi sögu hans. Hann var tilbúinn að horfast í augu við hlutina og það sagði mér helling.“

„Ekki missa af góðu mínútunum“

Þegar Bogga flutti loksins heim með drengina eftir tæplega þriggja ára forræðisdeilu átti hún ekkert – ekkert heimili, engan bíl, varla nokkuð í veskinu. Eftir flutninginn heim tók við eitt ár af málaferlum í viðbót þar sem Colby áfrýjaði úrskurði bandarískra dómstóla en hafði ekki erindi sem erfiði. Hún var fljót að byggja sig upp með aðstoð góðra vina og ættingja, en þurfti í raun að byrja að plana lífið upp á nýtt. Þessi breyting var auðvitað líka erfið fyrir syni hennar, þá Brian og Andy, og tóku við mörg ár þar sem mæðginin þurftu að vinna vel og vandlega í sinni andlegu heilsu til að geta virkað aftur í íslensku samfélagi. Þó þau séu á góðum stað í dag bera þau merki þessa tíma að eilífu. Bogga segist oft hugsa um þennan tíma en sjaldan tala um hann. Þetta eru sárar minningar og játar hún fúslega að hún geti enn, eftir allan þennan tíma, fellt tár yfir því sem gekk á. Þá liggur beinast við að spyrja Boggu: Hvernig fór hún að þessu?

„Ég gat þetta ekki af því að ég var svo sterk. Ég gerði þetta því ég hafði ekki um annað að velja. Í kjölfarið varð ég sterk. Því þyngri lóð sem þú færð, því sterkari verður þú. Ég sótt einnig styrk í þá sem stóðu með mér eins og klettar – eitthvað sem gleymist aldrei. Svo var það þessi gullna setning sem fleytti mér áfram: Ég er alltaf degi nær því að komast heim. Hvað ef þetta eru bara hundrað dagar og ég er búin með áttatíu? Hefði ég byrjaði þetta ferli og hugsað: Þetta eru þrjú ár og svona margir mánuðir, hefði ég getað þetta? Nei, ég hefði ekki farið út í þetta. Ég er ekkert öðruvísi en nokkur annar með það. En það er eitt sem ég hef haldið í síðan ég var unglingur: Fyrir hverja leiðinlega mínútu í lífinu áttu tvær góðar. Á erfiðustu tímunum er þetta rosalega gott hálmstrá. Í dag líður mér eins og ég sé að fá svo mikið til baka. Lífið getur verið ótrúlega erfitt en ekki missa af góðu mínútunum.“

Viðtalið við Boggu í heild sinni má lesa í nýjasta DV:

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Mest lesið

Nýlegt

Fréttir
Í gær

Hvað má barnið heita? – Herkúles en ekki Boom

Hvað má barnið heita? – Herkúles en ekki Boom
Fréttir
Í gær

Stefnir í miklar úrbætur á stöðu leigjenda á Íslandi – Þetta eru helstu skyldurnar sem munu falla á herðar leigusala

Stefnir í miklar úrbætur á stöðu leigjenda á Íslandi – Þetta eru helstu skyldurnar sem munu falla á herðar leigusala
Fréttir
Í gær

Halla tjáir sig um ferilskrána: „Ég hef enga ástæðu til að ýkja eitt eða neitt í mínum bakgrunni“

Halla tjáir sig um ferilskrána: „Ég hef enga ástæðu til að ýkja eitt eða neitt í mínum bakgrunni“
Fréttir
Í gær

Tveir nýir meðeigendur hjá Expectus

Tveir nýir meðeigendur hjá Expectus