fbpx
Mánudagur 09.september 2024
Fréttir

Kennarar hugsi vegna fyrirlesturs Björns um skjátækjanotkun

Kristinn H. Guðnason
Sunnudaginn 5. maí 2019 13:30

Ekki missa af Helstu tíðindum dagsins í pósthólfið þitt

Lesa nánar

Björn Hjálmarsson læknir hefur flutt fyrirlestra fyrir foreldrafélög um snjalltækjavæðinguna og skjátíma barna. Dregur hann þar fram mjög marga neikvæða þætti sem fylgi notkuninni. Kennarar eru ekki á eitt sáttir við þennan málflutning og segja Björn beita hræðsluáróðri, hann geri ekki greinarmun á virkum og óvirkum skjátíma. Snjalltækin séu veruleiki barnanna og góð kennslutæki sömuleiðis. DV ræddi við Má Ingólf Másson kennara og Björn Hjálmarsson.

 

Opnar nýjar víddir

Már Ingólfur Másson er grunnskólakennari á Selfossi og hefur mikla reynslu af kennslu með skjátækjum. Fyrir nokkrum árum hófst snjalltækjavæðing skólanna en þeir beita mismunandi aðferðum. Sumir skólar láta alla nemendur í ákveðnum bekkjum hafa skjátæki en í öðrum er heimilt að koma með tæki að heiman.

Í samtali við DV segir Már að reynslan af kennslu með skjátækjum sé mjög góð og opni nýjar víddir í kennslunni. Hann segir:

„Skjátækin bjóða upp á hluti sem hafa hingað til ekki verið í boði. Mjög fjölbreytt verkefni fyrir nemendur. Þessi umræða um skjátíma og snjallsímabönn er í öngstræti. Ef við berum þetta saman við smíðakennslu þá væri slíkt bann eins og að láta nemendur nota gamlan handbor í stað nútímaverkfæra. Skjátækin eru það sem krakkarnir nota í daglegu lífi og það sem þau kunna á. Hér í skólanum kennum við þeim að nota tækin á skynsaman hátt, hvort sem þau eru sex eða sextán ára.“

 

Már Ingólfur Másson
Segir reynslu af skjátækjum við kennslu góða.

Einsleit sýn á tækjanotkun

Már segir að kennarar séu hugsi yfir þeim málflutningi sem Björn Hjálmarsson, barnalæknir á BUGL, fari með, til dæmis í fyrirlestrum og glærusýningum fyrir foreldrafélög. Í slíkri glærusýningu sem sýnd var í Smáraskóla í Kópavogi er dregin upp dökk mynd af skjátækjanotkun barna og takmörkun skjátíma boðuð. Í glærusýningunni eru útlistuð tengsl skjánotkunar við seinkaða máltöku, verri námsárangur, hegðanavandamál, geðtruflanir, offitu, svefntruflanir, stoðkerfavandamál, krabbamein og dauðsföll í umferðinni, svo eitthvað sé nefnt.

Hvað er það sem er ámælisverðast í málflutningi Björns Hjálmarssonar?

„Þetta er mjög einsleit sýn á tækjanotkun og úrelt hugmynd um skjátíma. Það er ekki hægt að setja allt undir sama hatt. Í skólunum erum við að vinna með virkan skjátíma. Þá eru nemendur ekki að meðtaka efni heldur að skapa sjálf og vinna með tækjunum. Eins og Björn talar þá eru börnin viljalausir þrælar fyrir framan skjáinn frá morgni til kvölds,“ segir Már.

Einnig segir hann að margt í glærusýningunni eigi sér ekki stoð í raunveruleikanum og heimildir séu handvaldar.

„Björn vísar jú í heimildir. En þegar þær eru skoðaðar eins og til dæmis grein Victoriu Dunckley sem mikið er vísað til, þá kemur í ljós að þetta er aðeins skoðanagrein í Psychology Today. Þetta er ekki ritrýnd heimild. Maður fær það á tilfinninguna að þetta sé hræðsluáróður og mjög ósanngjarn.“

Þá segir Már að sumt sem Björn dragi fram, til dæmis tengsl eftirtektarleysis í umferðinni og skjátíma barna, sé loðið og illskiljanlegt.

„Hann stekkur líka á rafsegulbylgjuvagninn.“ Það er að rafsegulbylgjur valdi krabbameini. „Sem er ekki búið að rannsaka eða sanna. Það verða að teljast mjög hæpin vísindi og hann dregur fram mjög dökka mynd af því sem sé að breytast samfara skjánotkun. Vaxandi svefnlyfjanotkun barna og unglinga, offitufaraldur, lækkandi greindarvísitala, vaxandi álagsverkir, vaxandi nýgengi krabbameina í börnum á heimsvísu! Ég held að það sé enginn kennari á Íslandi, og er að nota þessi tæki, sem tengir við neitt af því sem hann er að segja. Það er enginn að halda því fram að tækin séu töfralausn sem að bjarga öllu skólastarfi. En þetta er hluti af nútímanum og þessi orðræða er til þess að vekja óhug hjá fólki.“

Glærusýning
Dregur upp mjög dökka mynd af skjánotkun barna og unglinga.

Auschwitz í Minecraft

Er eitthvað til sem heitir heilbrigður skjátími?

„Það fer eftir því hvernig skjátími það er. Ég á fjögurra ára gamla dóttur og myndi aldrei leyfa henni að horfa á Youtube-myndbönd samfleytt í fimm klukkutíma, óvirkan skjátíma. Annað gildir um virkan skjátíma. Hér í skólanum eru 210 krakkar á unglingastigi með tæki frá átta um morgun til tvö á daginn. Þau eru að lesa smásögur, svara spurningum, taka upp myndbönd.“

Már segir að í allri þessari umræðu gleymist oft að ræða við kennarana sem eru að vinna með tækin á hverjum degi.

„Kennarar eru að gera ótrúlegustu hluti með nemendum sínum og hægt að fylgjast með á myllumerkinu Snjallirnemendur. Á Sauðárkróki lásu nemendur bókina Drengurinn í röndóttu náttfötunum og nokkrir strákar byggðu í kjölfarið sögusviðið Auschwitz í tölvuleiknum Minecraft. Sögur eins og þessar komast ekki að út af neikvæðu orðræðunni um skjátækin.“

 

Stöðug freisting

„Þetta er mjög öflug og góð tækni en við þurfum að gæta þess að við séum við stjórnvölinn en ekki tæknin. Við megum ekki láta tæknina taka af okkur ráðin,“ segir Björn Hjálmarsson í samtali við DV. Segir hann að margt sé enn órannsakað varðandi hina öru þróun snjalltækja og áhrif þeirra á börn og unglinga. Nefnir hann að Kópavogur hafi riðið á vaðið í snjalltækjanotkun og þá reynslu verði að skoða.

„Það vantar allar rannsóknir til að sýna að spjaldtölvuvæðing skólanna taki hefðbundnu námsaðferðunum fram. Ég er að kalla eftir því að þetta tilraunaverkefni Kópavogskaupstaðar verði tekið út, kostirnir og ókostirnir mældir, því nú eru komnir upp árgangar í framhaldsskóla sem hafa tekið þátt í þessari kennslutilraun. Það væri dýrmætt að heyra frá framhaldsskólum hvernig nemendur í spjaldtölvuvæddum skólum koma undirbúnir til framhaldsskólanáms borið saman við nemendur sem hafa notið hefðbundinna námsaðferða.“

Björn segir að grunnmenntun kennara hafi ekki tekið mið af snjalltækjavæðingunni og það sé vafasamt að byrja tilraunirnar á grunnskólastiginu. Betra væri að feta sig áfram á framhaldsskólastiginu, þar sem unglingar á þeim aldri hafi meiri þroska og sjálfsaga.

Gerir þú nægilegan greinarmun á virkum og óvirkum skjátíma?

Skjátíminn hérlendis var orðinn mikill hjá börnum og unglingum, jafnvel áður en snjalltækjabyltingin reið í garð. Yngstu börnin ráða ekki við þetta frelsi því það er stöðug freisting í gangi um að gera eitthvað annað en fást við námsefnið. En ég tek algjörlega undir það að það er mikill munur á námsefni og tölvuleikjum og þvíumlíku. Alþjóðaheilbrigðismálastofnunin hefur komið fram með nýja greiningu sem er leikjaröskun (gaming disorder).“

Björn Hjálmarsson
Hefur varað við mikill skjátækjanotkun barna.

Lítur til Austurlanda fjær

Þú dregur fram mjög svarta mynd, getur hún staðist?

„Ég hef reynt að fylgja leiðbeiningum bandarísku barnalæknasamtakanna sem hafa verið vakin og sofin yfir þessari byltingu og veitt foreldrum markvissa ráðgjöf.
Þetta er ný og öflug tækni og við verðum að nýta hana eins skynsamlega og við getum. Varðandi til dæmis ofþyngdina er hægt að sjá beintengingu við skjátíma í rannsóknum. En hvað varðar aukingu á greiningu krabbameina, þá tek ég það skýrt fram á fyrirlestrum að við vitum ekki hvernig á því stendur. Það gæti tengst öðrum þáttum í umhverfinu. Í fyrirlestri mínum bendi ég einfaldlega á þá lýðheilsuþætti hjá börnum og unglingum sem eru að breytast á sama tíma og stafræna byltingin reið í garð. Ef það eru til staðar skaðleg áhrif af snjalltækjum þurfum við að vernda börnin fyrir þeim. Það er siðferðileg skylda okkar fullorðna fólksins.“

Hvað varðar Victoriu L. Dunckley, þá viðurkennir Björn að hún sé umdeild en hafi reynslu og hafi skrifað bók um málefnið, Reset your child’s brain árið 2015.

„Ég legg ríka áherslu á það í mínum fyrirlestrum að þetta séu ekki ritrýnd skrif heldur hennar kenningar og hugarsmíð studd fjölmörgum klínískum dæmum úr sjúklingasamlagi Victoríu. Ég flyt erindi hennar því með þeim fyrirvara, en eftir hvern fyrirlestur koma til mín áhyggjufullir foreldrar sem segjast kannast við einhver af þessum einkennum sem Victoria L. Dunckley lýsir hjá börnum þar sem skjátími er orðinn lengri en barnið þolir. Rannsóknum fleygir fram og ég hef litið mikið til Austurlanda fjær í minni heimildaöflun, því þar reið stafræna byltingin fyrst í garð. Stjórnvöld í þessum löndum líta á hina stafrænu byltingu sem lýðheilsuvanda. Ég er alls ekki að boða einhvern endanlegan sannleik heldur hvet til samfélagslegrar umræðu um þessa miklu byltingu. Við þurfum að gæta að því að byltingin borði ekki börnin okkar.“

Tækin eru nútíminn sem börnin lifa í. Er ekki verið að vekja upp hræðslu hjá fólki við nútímanum?

„Þetta eru miklar samfélagsbreytingar sem tækin koma með og það væri mikil bjartsýni að halda því fram að þær væru algóðar. Allt sem ég bið um er að við umgöngumst þetta af skynsemi og yfirvegun. Hámörkum not okkar fyrir þessa nýju og öflugu tækni og lágmörkum fylgikvillana. Það hlýtur að verða sameiginlegt markmið okkar allra.“

Rætt í stjórnmálum og skólum

Snjallsímabönn hafa verið mikið til umræðu í samfélaginu á undanförnum árum, bæði erlendis og hér á Íslandi. Sveinbjörg Birna Sveinbjörnsdóttir, þáverandi óháður borgarfulltrúi, lagði fram tillögu um snjallsímabann í Reykjavík vorið 2018. Hlaut tillagan ekki brautargengi. Hún barðist einnig fyrir snjallsímabanni í kosningabaráttunni til sveitarstjórnar í fyrravor. Þá var hún oddviti flokksins Borgin okkar en hlaut einungis 0,4 prósenta stuðning kjósenda.

Aðrir stjórnmálamenn hafa látið sig málið varða. Til dæmis Björn Leví Gunnarsson, þingmaður Pírata. Hann hefur skrifað um að snjallsímar í skólum séu ekki vandamál í sjálfu sér. En nauðsynlegt væri að fræða börnin um hvernig ætti að nota tæknina.

Snjallsímabönn hafa vitaskuld verið mikið rædd innan skólanna. Síðastliðið haust lagði Fræðslunefnd Fjarðabyggðar til að nemendum yrði bannað að koma með snjalltæki í skólana. En tækin væru svo mikilvæg í kennslu að bannið væri ekki hægt að setja á fyrr en skólinn sjálfur hefði eignast nógu mikið af tækjum.

Í september síðastliðnum ræddi RÚV við Helgu Kristínu Gunnarsdóttur, aðstoðarskólastjóra Valhúsaskóla á Seltjarnarnesi. Sagði hún þá óraunhæft í framkvæmd að banna farsíma í skólum. Aðeins foreldrar gætu sett strangari reglur um farsíma.

 

 

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Mest lesið

Nýlegt

Fréttir
Fyrir 2 dögum

Óhugnanlegt ofbeldismál – Hlekkjuðu barnunga syni við rúm

Óhugnanlegt ofbeldismál – Hlekkjuðu barnunga syni við rúm
Fréttir
Fyrir 2 dögum

Strætó biður eigendur sína aftur um meiri pening

Strætó biður eigendur sína aftur um meiri pening
Fréttir
Fyrir 2 dögum

Sakaðir um að hafa sett á svið bílslys í Hafnarfirði – Stöðvaði bíl í 40 sekúndur og ók svo hægt út á gatnamótin

Sakaðir um að hafa sett á svið bílslys í Hafnarfirði – Stöðvaði bíl í 40 sekúndur og ók svo hægt út á gatnamótin
Fréttir
Fyrir 2 dögum

„Þetta er bara stórkostlegt gáleysi af fólkinu sem stýrir verkinu“

„Þetta er bara stórkostlegt gáleysi af fólkinu sem stýrir verkinu“
Fréttir
Fyrir 3 dögum

Manndrápstilraun í Vesturbænum – Sagði parið hafa verið að atast í sér og særði manninn lífshættulega

Manndrápstilraun í Vesturbænum – Sagði parið hafa verið að atast í sér og særði manninn lífshættulega
Fréttir
Fyrir 3 dögum

Fiskikóngurinn allt annað en sáttur við Reykjavíkurborg – „Valdníðsla og hroki“

Fiskikóngurinn allt annað en sáttur við Reykjavíkurborg – „Valdníðsla og hroki“
Fréttir
Fyrir 3 dögum

Hélstu að sumarið væri búið? 

Hélstu að sumarið væri búið? 
Fréttir
Fyrir 3 dögum

Birgir Örn: „Miklu alvarlegra en mörg ungmenni gera sér grein fyrir“

Birgir Örn: „Miklu alvarlegra en mörg ungmenni gera sér grein fyrir“