Lesanda DV var mikið brugðið þegar hann veitti eftirtekt stórhættulegu svæði nálægt hesthúsahverfinu í Kópavogi. Svæðið virðist vera notað sem nokkur konar ruslahaugur en lesandi greindi DV frá því að Kópavogsbær heimili verktökum að geyma drasl þarna á svæði sem ætlað er sem stæði fyrir kerrur.
Lesandanum stóð hreint ekki á sama um ástandið.
„Þarna eru börn að leika sér, hestamenn að þjálfa hesta í um þriggja metra fjarlægð. Þarna standa oddhvassir teinar út og er þetta mikil slysahætta. Kópavogur leyfir verktökum að setja þarna efni og geyma.“
Svæðið er í miðju íbúahverfi, milli Kórahverfisins og Þingahverfis, en þar búa mörg börn. Þarna er einnig hestamannafélagið Sprettur til húsa. Grindverkið sem á myndunum sést er ekki til að varna börnum og hestum frá því að slasa sig á draslinu, heldur er þetta tamningagerði. Þarna geta því hestar sem enn er verið að temja átt hættu á að slasast, sem og knaparnir sem kynnu á þeim að sitja.