Rúmlega 130 manns verða í meðferð hjá SÁÁ yfir hátíðarinar og er útlit fyrir að öll rúm á Vík og á Vogi verði fullnýtt.
Þetta kemur fram á heimasíðu SÁÁ.
„Mjög margir eru í meðferð á jólunum. Fólk lætur það ganga fyrir að ná sér vegna áfengis- og vímuefnavanda, þrátt fyrir hátíðirnar,“ segir Valgerður Rúnarsdóttir, forstjóri sjúkrahússins Vogs, í fréttinni.
„Útlit er fyrir að nær öll rúm á Vík verði fullnýtt á jólum og áramótum og sömuleiðis á sjúkrahúsinu Vogi. Líklega verða þó engir unglingar hjá okkur á jólum sem er ánægjuefni. Síðan eru það þeir sem búa hjá okkur í búsetuúrræðinu Vin, þeir halda jól, fagna áramótum og njóta eins og við öll.“
Í fréttinni segir að það sé hátíðlegt um að litast í desember hjá SÁÁ. Búið er að skreyta hátt og lágt, setja upp jólatré og þá er von á dýrindis mat á hátíðunum. Eins og áður verður boðið upp á hátíðarmat og þá fá allir sjúklingar bók í jólapakka á aðfangadagskvöld.
„SÁÁ óskar landsmönnum öllum gleðilegra jóla og þakkar fyrir góðan stuðning á árinu sem er að líða. Bati er besta jólagjöfin! Gleðileg jól!“