fbpx
Laugardagur 27.apríl 2024
Fréttir

Dagur B. borgarstjóri minnist Jónu Halldóru – „Engilinn á hjólinu“

Ritstjórn DV
Mánudaginn 21. október 2019 13:35

Ekki missa af Helstu tíðindum dagsins í pósthólfið þitt

Lesa nánar

Dagur B. Eggertsson minnist ömmu sinnar, Jónu Halldóru Bjarnadóttur, í fallegri minningargrein sem birtist í Morgunblaðinu í dag. Jóna var frá frá Hóli í Bolungarvík en lést á hjúkrunarheimili 9. október 2019. Hún var 97 ára.

„Elsku amma Jóna er látin, 97 ára að aldri. Hún var frá Hóli í Bolungarvík og var stolt af upprunanum. Amma var annars hógværasta og umtalsbesta kona sem ég hef kynnst og einstök fyrirmynd. Hún var trúuð og andlega sinnuð. Þessi sterka trú á hið góða gerði að verkum að hún reyndi að rækta það upp í öllum í kringum sig. Amma reyndi ýmislegt á langri ævi en var langt á undan sinni samtíð að svo mörgu leyti. Æskuvinir mínir í Árbænum kölluðu hana „ömmuna á hjólinu“. Fullorðin kona sem ég hitti í búðinni kallaði hana hins vegar „engilinn á hjólinu“ og það var betri lýsing. Amma var iðulega hvítklædd og silfrað hárið sveiflaðist í vindinum þegar hún sveif eftir Rofabænum. Þannig fór hún allra sinna ferða fram yfir áttræðisaldur,“ skrifar Dagur.

Lykt af ljósu teppi

Hann rifjar upp eitt sumar þar sem hann borðaði ávallt með henni. „Lykt af ljósu teppi. Er ekki furðulegt að heilinn bjóði upp á svona kúnstir þegar ég bið hann um jafn hversdagslegan hlut og að rifja upp minningar um kynni mín af ömmu Jónu? Ljósa teppið í Hraunbænum. Amma hafði fengið mig til að vera fulltrúi sinn í viðgerðarteyminu í blokkinni. Frábært sumar. Komst ekki að því fyrr en kominn var ágúst að amma laumaðist til að hjóla niður í Miklagarð sem nú gengur undir nafninu Holtagarðar alla leið úr Hraunbænum, til að fá nógu ferskt grænmeti með hádegismatnum sem var alltaf til reiðu. Hálftímapása. Kannski þrjú korter því ég náði alltaf að leggja mig á ljósa teppinu í stofunni. Sofnaði á maganum. Á meltunni. Hef líklega aldrei borðað jafn heilsusamlega nokkurn tímann á ævinni og þetta sumar. Kvölds og morgna, og alltaf með ömmu. „Fáðu þér meira, Dagur minn. Þér veitir ekki af því.“ Og svo bar hún höndina upp að andlitinu á meðan hún skellti upp úr,“ skrifar Dagur.

Ein fyrsta grænmetisætan

Dagur segir að Jóna hafi líklega verið meðal þeirra fyrstu sem voru grænmetisætur í Reykjavík. „Í herberginu hennar ömmu voru myndir af jóganum hennar, Indverjanum með langa nafninu, Maharishi Mahesh Yogi. Amma gat rúllað sér auðveldlega upp á herðablöðin og hafði betra jafnvægi en annað fólk eftir áralanga þjálfun. Hún uppgötvaði þennan yoga löngu áður en Bítlarnir gerðu það og var langt á undan sinni samtíð í hugleiðslu og hreyfingu, að ekki sé talað um mataræðið. Amma var líklega ein fyrsta grænmetisætan í Reykjavík. Hún ráðlagði okkur að klippa ekki hárið heldur safna því. Við bræðurnir vorum helst á því að hún vildi að við værum eins og Jesús. Og þannig fannst okkur amma vera. Einhvers konar Jesús – full af væntumþykju og hlýju og bananabrauði,“ segir Dagur.

Kynntust almennilega erlendis

Hann segir að lokum að Jóna hafi kvatt södd ævidaga. „Ég hafði kynnst ömmu fyrir alvöru þegar við þvældumst saman um Kanada og Bandaríkin þegar ég var fimmtán ára. Amma sagði mér líka frá fólkinu sínu og uppvextinum fyrir vestan. Hvernig konurnar grétu en íhaldsmennirnir sturluðust þegar Hannibal Valdimarsson hélt fundi í Bolungarvík. Hún sagði mér stolt frá afrekum föður síns, Bjarna sterka Bárðarsonar. Og hún sagði mér frá afa. Hvernig þau hefðu kynnst þegar hún var í síld, og hvernig þau höfðu dansað, því afi var góður dansari, sagði hún. Amma kvaddi södd ævidaga en verður sárt saknað af öllum sem henni kynntust. Blessuð sé minning ömmu Jónu.“

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Mest lesið

Nýlegt

Fréttir
Fyrir 17 klukkutímum

Lögregla kölluð út vegna tjaldbúða í miðborginni

Lögregla kölluð út vegna tjaldbúða í miðborginni
Fréttir
Fyrir 17 klukkutímum

Fordæmalaus staða gæti komið upp á gosstöðvunum á Reykjanesskaga – „Þetta er fyrsta skiptið sem við sjáum svona“

Fordæmalaus staða gæti komið upp á gosstöðvunum á Reykjanesskaga – „Þetta er fyrsta skiptið sem við sjáum svona“
Fréttir
Fyrir 2 dögum

Jóhann hlaut dóm í héraði – Leigði ólöglega brunagildru í Þverholti til búsetu og stofnaði lífum í hættu

Jóhann hlaut dóm í héraði – Leigði ólöglega brunagildru í Þverholti til búsetu og stofnaði lífum í hættu
Fréttir
Fyrir 2 dögum

Ólafur Þ. Harðarson: Stjórnarflokkarnir eru að koma sér upp þægilegum merkimiðum þegar styttist í kosningar

Ólafur Þ. Harðarson: Stjórnarflokkarnir eru að koma sér upp þægilegum merkimiðum þegar styttist í kosningar
Fréttir
Fyrir 2 dögum

Stofna góðgerðarfélag til minningar um Þuríði Örnu – Blásið til tónleikaveislu 1. maí

Stofna góðgerðarfélag til minningar um Þuríði Örnu – Blásið til tónleikaveislu 1. maí
Fréttir
Fyrir 2 dögum

Næsta skref – byltingakenndar breytingar

Næsta skref – byltingakenndar breytingar