fbpx
Þriðjudagur 19.ágúst 2025
Fréttir

Foreldrar ósáttir við sameiningu skóla í Grafarvogi: Framtíðardraumurinn breytist í martröð

Ágúst Borgþór Sverrisson
Fimmtudaginn 28. mars 2019 18:56

Ekki missa af Helstu tíðindum dagsins í pósthólfið þitt

Lesa nánar

Skóla- og frístundasvið Reykjavíkurborgar hefur lagt til að Keldu- og Vættaskóli verði sameinaðir og Engjaskóli gerður að safnskóla fyrir unglinga. Sameiningin fæli í sér  að nemendur 1.-7.bekk Engi og Korpu færu í Vík og Borgir og 8.-10.bekkur í Engi. Með sameiningunni er stefnt að aukinni fjölbreytni í námsvali og æskilegri stækkun árganga. Helgi Grímsson, sviðsstjóri Skóla- og frístundasviðs, benti í samtali við Morgunblaðið í byrjun mánaðarins að aðeins væri 61 nemandi í Kelduskóla og sé hann fámennasti grunnskólinn sem rekinn sé af sveitarfélagi á suðvesturhorni landsins. Vegna fámennisins væri ekki hægt að halda uppi æskilegum gæðum og fjölbreytni í náminu.

Mikil óánægja ríkir meðal foreldra í norðanverðum Grafarvogi vegna þessara sameiningahugmynda. Foreldrar stúlku í 1. bekk Vættaskóla Engjum benda á að þau hafi keypt fasteign í hverfinu með það í huga að dóttir þeirra sækti skóla í hverfinu. Í greinargerð sem foreldrarnir hafa sett saman vegna málsins og sent á fjölmiðla segir meðal annars:

„Fyrir tveimur árum ákváðum við að stækka við okkur húsnæði. Við bjuggum í Grafarvogi og leið vel þar og ákváðum því að leita að stærra og hentugra húsnæði innan hverfisins. Við höfðum búið í tveggja herbergja íbúð með dóttur okkar og var orðið heldur þröngt um okkur í einu svefnherbergi. Okkur leist vel á Engjahverfið þar sem stutt var í alla þjónustu. Við fundum draumaeignina þar, raðhús með fjórum svefnherbergjum og sáum fram á framtíðareign. Við settum aleiguna í eignina og komum húsinu í lag og fór mikil vinna og tími í það. Við sáum fram á að þetta væri fallegt og gott hverfi þar sem dóttir okkar gæti gengið í skóla og frístund án þess að þurfa að hafa áhyggjur af öryggi hennar þar sem hún þyrfti ekki að fara yfir götur. Hins vegar blasir nú við að húsið sem við lögðum allt í og við sáum sem framtíðar eign sé að breytast í martröð. Skóla- og frístundasvið (SFS) hefur lagt fram tillögu þess efnis að sameina eigi Keldu- og Vættarskóla og gera Engjaskóla að safnskóla fyrir unglinga. Ef af þessu verður getum við ekki verið örugg um líf dóttur okkar þar sem hún þyrfti að ganga í um 15-20 mín í skólann og þyrfti að fara yfir hættulega götu þar sem menntaskólakrakkar keyra leið sína í skólann. Sumir þessara krakka keyra hratt og gleyma sér við stýrið í símanum sem getur endað með því að keyrt verði á barn ef SFS tekst ætlunarverk sitt. Ekki eru undirgöng né göngubrýr á þessari leið.

Ef Engjaskóli er gerður að safnskóla fyrir unglinga teljum við hættu á að ,,villingarnir“ hópi sig saman og finni stað nálægt skólanum til að stunda ósiði. Helsti staðurinn væri líklega undirgöngin að Egilshöll sem gerir það að verkum að yngri krakkar myndu forðast þau. Undirgöngin eru eina örugga leiðin fyrir þessa sömu krakka til að komast í tómstundirnar sínar í Egilshöll eftir skóla.“

Segir lítinn sparnað fylgja sameiningum

DV hafði samband móður barnsins, Katrínu Pétursdóttur, vegna málsins og spurði hvað hún segði við þeim röksemdum að árgangar gætu verið of fámennir í Kelduskóla, námsval aukist við sameininguna og sparnaður hlytist af sameiningu. Hvaða ókostir vega upp á móti þessum kostum?

Katrín bendir á að nægur fjöldi sé af börnum á grunnskólaaldri í hverfunum miðað við þann fjölda sem skólahúsnæðin rúma. Þetta sýni tölur frá Hagstofunni. Katrín segir enn fremur:

„Þær rannsóknir sem hafa verið gerðar á fyrri sameiningum leik- og grunnskóla sýna að lítill sem enginn sparnaður fylgdi þeim. Tryggja þarf nægilegt fjármagn til breytinganna til að þróa nýja stefnu, þjálfa starfsmenn, þróa nýjar aðferðir og endurskipuleggja stofnunina. Ekki virðast hafa verið birt gögn opinberlega sem sýna fram á fjárhagslegan ávinning fyrri sameininga. Bitnaði sameining helst á faglegu hliðinni þar sem mikið af reynslumiklu starfsfólki sagði upp og ríkti mikil óánægja meðal þeirra og foreldra.

Með tillögunni voru ekki birtar tölur yfir fjárhagslegan ávinning þegar hún var kynnt foreldrum. Byggði tillagan á áhyggjum um félagaval og valfög eldri bekkinga. Engin haldbær gögn voru birt sem rökstuddu þær áhyggjur önnur en að Korpuskóli væri fámennur skóli. Hins vegar hafa um 60 nemendur sem búa í því hverfi verið fluttir yfir í Víkurskóla. Heilbrigðisteftirlitið hefur gert athugasemdir við of lítið rými frístundarinnar í Vík. Ef Korpa færi yfir þyrfti að flytja frístundina í annað húsnæði með tilheyrandi raski og kostnaði. Ekki hefur verið sýnt fram á með gögnum að námsval sé ábótavant í skólunum og kemur fram í starfsáætlunum beggja skólanna að fjölbreytt valfög séu í boði fyrir 8.-10.bekk. Einnig virðist ekkert hafa breyst varðandi námsframboð eftir fyrri sameingar 2012 sem byggðu á sama markmiði.“

Tillagan samrýmist ekki Barnasáttmála SÞ

Katrín veltir einnig upp þeirri spurningu hvort sameiningar af þessu tagi geti leitt til þess að fjölskyldu flýi viðkomandi hverfi og að fasteignaverð lækki en staðsetning á Vættaskóla Engjum var ein af lykilástæðunum fyrir því að þau hjónin fjárfestu í fasteign í hverfinu.

Katrín segir enn fremur:

„Tillagan samræmist ekki Barnasáttmálanum sem segir að ávallt skal hafa í forgangi það sem barni er fyrir bestu þegar stjórnvöld taka ákvarðanir sem varða börn og er þar einkum nefnt öryggi. En með sameiningunni er ætlast til að börn ferðist í önnur hverfi yfir hættulegar götur til að sinna sinni skólaskyldu. Börnin þurfa að fara yfir Mosaveg sem liggur að menntaskóla hverfisins eða Strandveg. Á þessari leið eru hvorki göngubrýr eða undirgöng. Vill Reykjavíkurborg virkilega hafa líf barns á samviskunni vegna hagræðingaráætlunar sem virðist illa unnin og ekki taka með í reikninginn kostnað sem hlýst við að sameina skólana og bæta samgöngur? Ef af þessu verður tekur það sum börn um 30 mín að ganga í skólann sem ýtir undir að foreldrar aki börnunum í og úr skóla. Þannig myndast aukin umferð í kringum skólana sem stofnar öryggi barnanna í hættu. Einnig er tillagan um frekari sameiningar skólanna á skjön við aðalskipulag borgarinnar um sjálfbæra þróun og skipulag vistvænna hverfa.“

 

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Mest lesið

Nýlegt

Fréttir
Í gær

Sara gagnrýnir kennaranámið: „Ég þarf ekki að mæta í heil­an tíma og gera þessa hluti“

Sara gagnrýnir kennaranámið: „Ég þarf ekki að mæta í heil­an tíma og gera þessa hluti“
Fréttir
Í gær

Var á gangi í Osló – Þá hringdi Trump óvænt

Var á gangi í Osló – Þá hringdi Trump óvænt