fbpx
Fimmtudagur 13.ágúst 2020
Fréttir

Ívar útvarpsmaður miður sín yfir Hatara og vill banna þá: „Aðgát þarf að hafa í nærveru sálar þegar fjölskyldur safnast saman“

Hjálmar Friðriksson
Mánudaginn 11. febrúar 2019 12:20

Ekki missa af Helstu tíðindum dagsins í pósthólfið þitt

Lesa nánar

Ívar Halldórsson, útvarpsmaður á Bylgjunni, segir hljómsveitina Hatari vega að siðferðiskennd sinni. Ívar er þekktur fyrir mjög íhaldsmaður skoðanir en líkt og DV hefur áður fjallað um þá hefur hann áður skrifað á gagnrýninn hátt um samkynhneigð, fóstureyðingar og íslenska veitingastaði.

Á Vísi birtist opið bréf til útvarpsstjóra RÚV, Magnúsar Geirs Þórðarsonar, þar sem hann biðlar til hans að grípa inn í og stöðva Hatara. Hljómsveitin komst áfram í undanúrslit Söngvakeppninnar um helgina. Hatara hefur verið spáð sigri af mörgum og telja erlendir áhugamenn um Eurovision að þarna sé kominn besti möguleiki Íslands til að ná árangri í keppninni í ár.

Pistill Ívars í heild sinni

Virðulegi útvarpsstjóri, sem íslenskur borgari, skattgreiðandi, tónlistarmaður og friðelskandi þjóðfélagsþegn get ég ekki orða bundist þegar ég sé þróun mála í forkeppni okkar fyrir Söngvakeppni evrópskra sjónvarpsstöðva. Hljómsveitin „Hatari“ hefur nú rutt sér til rúms og komist í úrslit, en ljóst er að þeir hafa ekki gott í hyggju ef þeir sigra úrslitakeppnina hér heima.

Söngvakeppnin lítilsvirt

Sjálfir hafa þeir lítilsvirt þessa frábæru söngvakeppni opinberlega og um leið RÚV með því að segja keppnina fáránlega. Orðrétt segja þeir í viðtali við Stundina: 

„Við erum í grunninn forréttindastrákar sem velja sér það hlutskipti að stíga fram sem hirðfífl í fáránlegri söngvakeppni.“ 

Þá er markmið þeirra að vera með pólitíska ádeilu á hendur gestgjafa keppninnar í ár. Markmið þeirra er greinilega ekki að sigra söngvakeppni fyrir okkar hönd með góðri lagasmíði. Öllu heldur er markmiðið að misnota aðstöðu sína sem keppendur og vera pólitísk málpípa þjóðarinnar og draga okkur sem aðhyllumst ekki aðferðafræði þeirra nauðug viljug í svaðið með þeim.

Þetta hryggir mig og særir meira en orð fá lýst. Því vil ég biðla til velvildar þinnar og virðingu gagnvart okkur sem viljum njóta góðrar tónlistarskemmtunar án þess að draga pólitík inn í þessa miklu gleðistund. Í gegnum tíðina höfum við séð þjóðir vera í pólitísku reiptogi undir fána ESC, en það hefur mér og ótalmörgum Íslendingum fundist sorglegt. Það varpar óþægilegum skugga á skemmtunina.

Opinber yfirlýsing án samþykkis

Kæri útvarpsstjóri, þú gætir verið í þeirri stöðu innan skamms að þurfa að gera upp við þig hvort að þú viljir draga okkur áhorfendurna inn í opinbera pólitíska deilu undir fána söngvakeppninnar, en það mun óhjákvæmilega draga neikvæðan dilk á eftir sér inn í alþjóðasamfélagið. 

Ég hef sjálfur tekið þátt í forkeppni þessarar keppni og hef alltaf horft á hana í faðmi fjölskyldunnar. En þetta er þó í fyrsta skipti sem ég finn fyrir kvíða og vanlíðan þegar ég hugsa um komandi keppni og hvað við gætum verið að koma okkur út í sem þjóð. Að senda hljómsveitina „Hatari“ út væri að senda opinbera yfirlýsingu um afstöðu heillar þjóðar til umdeilds ástands fyrir botni Miðjarðarhafs án samþykkis hennar – en skiptar eru skoðanir á þessu flókna máli. Efast ég um að símakosning keppninnar sé gild þjóðaratkvæðagreiðsla í pólitískum málum sem hafa áhrif á landsmenn alla. Mér fyndist verulega brotið á mér ef tekin væri slík opinber afstaða í mína óþökk. 

Siðferðisreglur keppninnar skýrar

Í siðferðisreglum keppninnar 10.2. er tekið skýrt fram að þátttakendur þurfi að „heita því að halda trúnað og hafa ekki í frammi ósæmilega hegðun sem getur sært blygðunarkennd áhorfenda eða annarra þátttakenda eða komið óorði á Söngvakeppnina, RÚV eða ESC. 

Textar, ræður eða látbragð/sviðshreyfingar af pólitískum eða svipuðum toga eru ekki leyfilegar í Söngvakeppninni eða ESC 18. Það sama á við um gróf blótsyrði eða annað óviðeigandi orðbragð í lagatextum. Einnig er óheimill allur áróður eða annað í þeim dúr í lagatextum eða sviðsetningu laga í Söngvakeppninni eða í ESC 18. Brot á þessari reglu getur leitt til brottvísunar úr keppni.“

Viljum ekki óþarfa fjölmiðlahneyksli

Meðlimir hljómsveitarinnar hafa opinberlega gefið sterklega í skyn að þeir muni ekki fylgja þessum reglum og hafa sagst alveg eins fagna því að vera reknir úr keppni á kostnað þess að koma pólitískum skoðunum sínum til skila. Tel ég brýnna en nokkru sinni fyrr að farið sé eftir siðferðisreglum sem settar hafa verið til þess að forða okkur frá óþarfa fjölmiðlahneyksli. 

Af gefinni reynslu okkar vitum við að fjölmargir erlendir ferðamenn myndu fyrirlíta slíkt útspil og margir eflaust sniðganga áfangastaðinn Ísland í ferðalögum sínum. Það gæti verið mikið undir og spurningin hvort það sé virkilega þess virði að ófrægja þessa stóru fjölskylduhátíð sem keppnin er orðin til að þóknast boðberum haturs í pólitískum vígahug. 

Særum ekki siðferðiskennd

Opinberlega fordæmir íslenska þjóðin hatur, lítilsvirðingu og illsku gagnvart manneskjum. Þess vegna megum við ekki freistast í einhverju offorsi til að ögra öðrum með slíkum vafasömum vopnum. Það væri auðvitað ekkert annað en hræsni. Við þurfum að gæta góðs siðferðis sem þjóð og hafa kærleika og virðingu að leiðarljósi í samskiptum okkar við aðrar manneskjur og þjóðir – og gæta þess auðvitað að særa ekki siðferðiskennd friðelskandi Íslendinga hér heima. 

Hugsunin ein um að þetta lag gæti hugsanlega verið flutt á alþjóðlegu sviði keppninnar særir nú þegar fyrirfram mína blygðunarkennd sem og annarra í fjölskyldu minni. Með því væri RÚV búið að taka risavaxið skref í áttina að því að vera alls ekki RÚV allra landsmanna. 

Niðurlag

Ég skrifa þessi orð í einlægni, og í þeirri trú að við getum verið sammála um að aðgát þurfi að hafa í nærveru sálar þegar fjölskyldur safnast saman til að njóta söngvakeppni sem á gefa okkur pásu frá harðri og flókinni pólitík. Tónlistin á að sameina okkur, en ekki sundra. Persónulega vil ég ekki vera bendlaður við ósmekkleg og vanhugsuð axarsköft sem varpa rangri mynd af mér og öðrum friðelskandi Íslendingum út í alþjóðasamfélagið. 

Til að vera trúr minni eigin siðferðiskennd, mun ég slökkva á sjónvarpstækinu og skammast mín upp fyrir haus ef „Hatarar“ fá leyfi RÚV til að ganga á svið í nafni íslensku þjóðarinnar með hatursfullan boðskap sinn; boðskap sem gerir auðvitað lítið annað en að kynda undir fyrirlitningu, siðleysi og kynþáttahatur. En auðvitað hlýst ekkert jákvætt eða gott af slíku ósiðlegu hátterni. Við getum ekki annað en tapað á þessu – á öllum vígstöðvum. Já, það yrði löng þögn á mínu heimili þessar þrjár mínútur sem hatrið fengi að traðka á friði og kærleika í evrópskum fjölmiðlunum.

Vona ég þó ágæti útvarpsstjóri að ekki komi til þess því ég hlakka svo sannarlega til þessarar dásamlegu dagskrárgerðar og frábæru fjölskyldustundar á hverju ári. Máltækið segir: „Það er ekkert lyf til lækningar á hatri“. 

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Mest lesið

Í vikunni