fbpx
Föstudagur 26.apríl 2024
Fréttir

Jón Baldvin segir um samsæri að ræða gegn sér – Harðorður í garð öfgafemínista og Samfylkingarinnar

Kristján Kristjánsson
Mánudaginn 4. febrúar 2019 07:30

Aldís Schram og Jón Baldvin Hannibalsson.

Ekki missa af Helstu tíðindum dagsins í pósthólfið þitt

Lesa nánar

Jón Baldvin Hannibalsson segir að þær ásakanir sem hafa verið bornar á hann um kynferðisofbeldi að undanförnu séu ekki á rökum reistar og að hér sé um samsæri gegn honum að ræða. Til hafi staðið að fagna áttræðisafmæli hans þann 21. febrúar næstkomandi og hafi gamlir samherjar hans ætlað að beita sér fyrir útgáfu afmælisrits um arfleið jafnaðarstefnunnar og erindi hennar við komandi kynslóðir. Ýmislegt hafi átt að gera í tengslum við þessa útgáfu, halda málþing og leitað var til vina og velunnar og pólitískra andstæðinga um fyrirframáskrift þeirra að afmælisritinu og þá að nöfn þeirra yrðu rituð í heillaóskaskrá. Jón segir að þegar þetta var komið vel á veg hafi aðstandendur útgáfunnar farið að verða varir við draugagang sem erfitt var að henda reiður á.

Þetta kemur fram í grein, sem ber heitið Vörn fyrir æru, eftir Jón Baldvin í Fréttablaðinu í dag. Þar segir hann að fólk hafi farið að draga í land með að láta nöfn sín birtast á heillaóskaskrá bókarinnar. Smám saman hafi komið í ljós að skipulögð herferð hafi verið í gangi, rógsherferð til að koma í veg fyrir málþingið og útgáfu bókarinnar. Þemað hafi verið að Jón Baldin væri kynferðisbrotamaður sem heiðarlegt fólk gæti ekki látið bendla sig við.

„Seint og um síðir komu aðstandendur rógsherferðarinnar upp á yfirborðið. Þeir völdu sér vettvang við hæfi. Stundin byrjaði vitnaleiðslur. Aðrir fjölmiðlar, sem og samfélagsmiðlar, slógust með í för. Meira að segja Ríkisútvarpið lét ekki sitt eftir liggja. Loks loguðu allir fjölmiðlar í groddalegum frásögnum, sem áttu að spanna hálfa öld, og lýstu siðlausu dusilmenni, sem þjóðfélagið hafði slysast til að hampa til æðstu metorða, án vitneskju um, hvern mann hann hefði að geyma. Allt var þetta á sömu bókina lært, án athugasemda og án andmæla. Nú væri kominn tími til að afhjúpa fólið. Hér eftir skyldi hann vera óalandi og óferjandi í íslensku samfélagi; einangraður, útskúfaður og þar með hættulaus samborgurum sínum.“

Jón segir þessa áætlun hafa verið vel undirbúna og fjölmiðlar hafi spilað með eins og til var ætlast. Árangurinn hafi ekki látið á sér standa, málþingið hafi verið blásið af og útgáfu afmælisritsins frestað um óákveðinn tíma og heillaóskaskránni hafi verið hent í ruslið.

„Þetta er orðið að skólabókardæmi um vel heppnaða PR-herferð, eða aðför að æru manns – allt efir (sic) því, hvernig á þetta er litið.“

Boðar bók um ásakanirnar

Segir Jón sem boðar útkomu bókar á næstunni þar sem öllum ásökunum á hendur honum verði svarað lið fyrir lið. Þar verði byggt á fyrirliggjandi gögnum og staðreyndum sem hafi af einhverjum ástæðum týnst í moldviðrinu sem hefur verið þyrlað upp. Í greininni stiklar hann síðan á stóru varðandi þær ásakanir sem hafa verið bornar á hann og segir þær eiga rætur að rekja til geðhvarfasýki Aldísar dóttur sinnar. Veikindin séu einkamál og allt sé þetta fjölskylduharmleikur en hann eigi engra kosta völ en að segja sannleikann þótt öðrum komi þetta mál ekki við.

„Eitt af mörgum sjúkdómseinkennum geðhvarfasýki er stjórnlaus þráhyggja um kynlíf. Dóttir mín hefur í maníuköstum sakað mig um kynmök, eða kynverðislega áreitni, við eftirtaldar konur í okkar fjölskyldu:

Tengdamóður mína (ömmu hennar); sjálfa sig og dóttur sína; dætur mínar – systur hennar; systur Bryndísar, systurdóttur Bryndísar. Við þetta hafa svo bæst vinkonur hennar, en sú sakaskrá hefur verið breytileg eftir árstíðum. Eini maðurinn sem hún hefur kært formlega fyrir kynferðislega áreitni, þá gagnvart dóttur sinni, var móðurbróðir hennar, sem var svo vinsamlegur að annast dóttur hennar um skeið, meðan móðirin var vistuð á sjúkrastofnun. Það mál var rannsakað af þar til bærum yfirvöldum og úrskurðað tilhæfulaust.

Auðvitað er sjúklingnum ekki sjálfrátt. Auðvitað eru þetta órar, sem kvikna í sjúku hugarfari. Auðvitað á ég ekki að þurfa að skýra frá þessu opinberlega. Auðvitað eiga fjölmiðlar ekki, að óathuguðu máli, að birta athugasemdalaust sögur hinnar sjúku, sem þjónar þeim tilgangi einum að ræna foreldra hennar ærunni.“

Segir Jón um veikindi Aldísar. Bókin á að hans sögn að heita „Vörn fyrir æru – hvernig fámennur hópur öfgafeminista hefur sagt réttarríkinu stríð á hendur.“

Sviðsetning

Jón víkur síðan að nýjustu ásökununum í sinn garð og segir að stúlka, sem hann þekki ekki neitt, hafi smyglað sér inn á heimili hans og Bryndísar með móður sinni sem hafi ræktað mikinn vinskap við þau hjón. Þær hafi fengið gistingu og góðan beina.

„Það er varla fyrr sest að veisluborði en húsbóndinn, sem hafði verið upptekinn við að elda mat og bera á borð, var sakaður um áreitni. Þarna voru fleiri gestir. Tvær fullorðnar konur, sem viðstaddar voru við borðhaldið, hafa vottað það, að þetta er tilbúningur – helber lygi. Konurnar votta, að „þetta gæti ekki hafa farið fram hjá þeim“. M.ö.o. þetta var fyrirfram undirbúin sviðsetning.”

Segir Jón í greininni og víkur einnig að ásökunum í sinn garð af hálfu nemenda í Hagaskóla fyrir hálfri öld og að því sem hann segir vera skrumskældri frásögn af dimmission við Menntaskólann á Ísafirði 1979. Hann vísar þessum ásökunum á bug og segir að öllum, sem hann hafi rætt við, kennurum og nemendum, beri saman um að ekki sé mark takandi á þessum söguburði.

Öfgafemínistar

Í niðurlagi greinarinnar víkur Jón að öfgafeministum sem hann segir hafa sagt réttarríkinu stríð á hendur.

„Hópur öfgafeminista hefur hér með sagt réttarríkinu stríð á hendur, að því er virðist. Maður er sekur fundinn (í fjölmiðlum), af því að hann er ásakaður. Það þarf enga rannsókn, engar vitnaleiðslur, engar sannanir. Maður er fordæmdur, án réttarhalds. Dæmin eru að hrannast upp. Kennarar við kynjafræðiskor HÍ taka sér ráðningarvald við háskólann. Þótt viðkomandi maður fullnægi öllum hæfisskilyrðum til háskólakennslu, er hann samt undir atvinnubanni „Berufsverbot“, af því að það var illa talað um hann í fjölmiðlum. Það þarf engan dóm. Þær hóta að gera háskólann óstarfhæfan, ef þeim er ekki hlýtt.”

Segir Jón og bætir við:

„Og það er lúffað fyrir þeim. Þær hafa líka tekið sér ritskoðunarvald. Þær hóta mótmælum gegn málþingum og hafa sitt fram. Þær vilja banna bækur og ná þeim árangri, að útgáfu er frestað. Þær hafa tekið sér ráðningarvald, ritskoðunarvald og dómsvald. Er nema von, að spurt sé: Hafa öfgafeministar sagt réttarríkinu stríð á hendur? Ætlum við hin að lúffa? Höfum við gleymt því, að án réttarríkis þrífst ekkert lýðræði?”

Því næst víkur hann að þingflokki Samfylkingarinnar og er harðorður í garð flokksins.

”Athygli mín hefur verið vakin á því, að enginn í þingflokki Samfylkingar, sem telur sig a.m.k. á tyllidögum vera arftaka jafnaðarstefnu í íslenskum stjórnmálum, þorði að birta nöfn sín á heillaóskaskrá til „hins aldna leiðtoga íslenskra jafnaðarmanna“. Vildu þau kannski ekki? Eða þorðu þau einfaldlega ekki fyrir sitt litla líf að rísa gegn tyftunarvaldi öfgafeminista, sem hafa hreiðrað um sig í valdastöðum í flokknum? Hvort heldur er, vil ég segja við þá eftirfarandi: Heigulsháttur er alvarlegur ljóður á ráði stjórnmálamanna. Það eru ekki fólskuverk hinna illviljuðu, sem eru verst. Það er heilgulsháttur og afskiptaleysi hinna góðviljuðu, sem er verst. Það þarf kjark til að standa í stafni fyrir mannréttindabaráttu fólks gegn ofurvaldi auðs og valds. Þeir einir sem þora geta vakið okkur vonir um betri heim.”

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Mest lesið

Nýlegt

Fréttir
Fyrir 18 klukkutímum

Mótmælin á Tenerife – Vill ekki ferðamenn með „allt-innifalið“ armbönd

Mótmælin á Tenerife – Vill ekki ferðamenn með „allt-innifalið“ armbönd
Fréttir
Fyrir 21 klukkutímum
Pétur Einarsson látinn
Fréttir
Fyrir 21 klukkutímum

Sigur hjá Harvey Weinstein: Dómi gegn honum í New York snúið við

Sigur hjá Harvey Weinstein: Dómi gegn honum í New York snúið við
Fréttir
Fyrir 22 klukkutímum

Sendiherra Trump á Íslandi þykist vera kúreki í kosningabaráttu sinni – „Það er ekki hægt að skálda þetta“

Sendiherra Trump á Íslandi þykist vera kúreki í kosningabaráttu sinni – „Það er ekki hægt að skálda þetta“
Fréttir
Fyrir 2 dögum

Manndrápsmálið á Suðurlandi – Hinn látni sagður hafa hringt í kærustu sína skömmu fyrir andlátið og sagst hafa fallið úr stiga

Manndrápsmálið á Suðurlandi – Hinn látni sagður hafa hringt í kærustu sína skömmu fyrir andlátið og sagst hafa fallið úr stiga
Fréttir
Fyrir 2 dögum

Snorri furðar sig á Byggðastofnun – Sagður gera lítið úr þeim sem ekki tala íslensku

Snorri furðar sig á Byggðastofnun – Sagður gera lítið úr þeim sem ekki tala íslensku