fbpx
Þriðjudagur 23.apríl 2024
Fréttir

Bára svarar enn einni árásinni úr Hádegismóum: „Þá er ég að rugga réttum báti“

Ritstjórn Eyjunnar
Laugardaginn 5. janúar 2019 19:01

Ekki missa af Helstu tíðindum dagsins í pósthólfið þitt

Lesa nánar

Höfundum Reykjavíkurbréfs Morgunblaðsins, þar sem ritstjórinn Davíð Oddsson heldur oftast um penna, er endurtekið hugsað til Báru Halldórsdóttur. Bára er eins og flestum er nú kunnugt um konan sem tók upp samræður sex þingmanna á Klausturbar. Bára sendi síðan upptökurnar á DV, Stundina og Kvennablaðið. Bára hefur síðan þá verið kosin Maður ársins af hlustendum Rásar 2 og Bylgjunnar og þá varð hún í öðru sæti hjá lesendum DV. Bára segir í samtali við DV að hún láti árásirnar sem hún verði endurtekið fyrir ekki trufla tilveru sína að ráði.

Í kjölfarið á að fjölmiðlar birtu fréttir upp úr upptökunum fóru tveir þingmenn í leyfi, aðrir tveir voru reknir úr sínum flokki og samfélagið lagðist á hliðina. Í tvígang vildi Davíð meina að rangt hefði verið af Báru að taka upp þingmennina þar sem þeir fóru ófögrum orðum um samstarfsmenn, uppnefndu Freyju Haraldsdóttur, sögðu menntamálaráðherra spila á karlmenn og vildu „hjóla í helvítis tíkina“ og annar þingmaður talaði um ráðherrann sem skrokk sem typpið á honum dygði í. Tók Lilja talið mjög nærri sér. Fleiri fengu svo fyrir ferðina. Þá sagði Gunnar Bragi að hann hefði skipað Árna Þór Sigurðsson fyrrverandi þingmann VG sem sendiherra í Finnlandi til að draga athyglina frá þeirri ákvörðun að að skipa Geir Haarde sendiherra í Bandaríkjunum.

Óþörf umfjöllun

Upphaf Reykjavíkurbréfs

Í dag er enn og aftur skrifað á niðrandi hátt um Báru í Reykjavíkurbréfi Morgunblaðsins. Höfundur fjallar þar að mestu um mikilvægi reynslu þegar kemur að störfum fyrir land og þjóð og þekking sé ekki dæmt úr leik sökum aldurs. Er þar fjallað um þegar Ellert B. Schram sneri aftur á þing sem varaþingmaður hokinn af reynslu og síðan snýr höfundur sér að stjórnmálamönnum úti í heimi. Inngangurinn að þessum skrifum notar höfundur til að fjalla enn og aftur um Báru og bréfið varla hafið þegar höfundur heggur í hennar átt, er þessi hluti um Báru í raun óþarfur en bréfritari segir:

„Og jafnvel þótt myndir fylgdu spurningu um þingmenn myndu fáir þekkjast í sjón. Kona sleppti æfingu sem hún var að eigin sögn að fara á í Iðnó og sat í staðinn á fjórðu klukkustund takandi upp með leynd fyllerísröfl í hinum enda ölhússins. Sú var ekki upptekin. Konan sagðist aðeins hafa þekkt einn af þessum 6 í sjón en tók samt upp þeirra tal, því þeir höfðu svo hátt!

Því verður að ætla að þarna hafi verið á ferðinni mikill áhugamaður um þjóðfélagsmál. Og fyrir útsjónarsemi örlaganna reyndust þessir 5 við borðið, sem hún þekkti ekki haus né sporð á, en hleraði samt, vera í hópi óþekktra þingmanna og jafnframt í þessu tilviki í hópi óþekku þingmannanna. Því má ætla að upptökustjórinn þekki aðeins 10 þingmenn af 63 í sjón. Þó voru í þessum hópi, fyrir utan þann sem hún kannaðist við, einn fyrrverandi utanríkisráðherra og svo þingflokksformaður sem hefur haft töluverða fyrirferð í fjölmiðlum.“

Öryrki endurtekið til umfjöllunar í Hádegismóum

Bára og Jón Gnarr ræðast við fyrir utan dómsal en þangað mætti borgarstjórinn fyrrverandi til stuðnings Báru eins og fjölmargir aðrir.

Bára er 42 ára öryrki sem glímir við sjaldgæfan gigtarsjúkdóm. Hún hefur lýst sjálfri sér og aðstæðum sínum á þann hátt að hún á son, hund, tvo ketti og konu. Hún sinnir fræðslu og réttindabaráttu fyrir langveika og öryrkja eftir megni í gegnum samfélagsmiðla. Í samtali við DV, aðspurð um endurteknar árásir Morgunblaðsins svarar Bára:

„Í fyrsta í lagi vissi ég að um þingmenn væri að ræða. Í öðru lagi kom fljótlega fram í tali þeirra að þeir væru að koma af þingfundi. Það var fullkomlega á hreinu að þeir væru þingmenn,“ segir Bára sem hefur síðan áður greint frá því að ástæða þess að hún hóf að taka upp að henni blöskraði á hvaða hátt þingmenn ræddu saman undir áhrifum. Bára heldur áfram:

„Fyrir utan að þetta voru opinberir starfsmenn að tala, að mér finnst, á almannafæri, mjög óvarlega um hluti og málefni sem er á þeirra ábyrgð.“

Fjöldi manns tóku á móti Báru og þökkuðu henni fyrir að taka upp þingmennina á Klausturbar

Bára var boðuð fyrir Héraðsdóm Reykjavíkur í síðasta mánuði en þingmennirnir segjast með þessu vilja fá aðgang að frekari upptökum af Klausturbar og telur Sigmundur Davíð Gunnlaugsson að með því að það muni setja málið í annað samhengi. Þá hefur einnig verið bent á það á samfélagsmiðlum að yrði það gert myndi koma í ljós að þá myndi sjást hver sagði hvað við borðið og mögulega hægt að varpa ljósi á hvaðan selahljóðið kom þegar rætt var um Freyju Haraldsdóttur svo dæmi sé tekið. Aðspurð um það að vera kölluð fyrir dóm svarar Bára:

„Ég myndi vilja sjá umræðuna frekar snúast um hver sagði hvað og hvenær og af hverju þessir menn séu ekki farnir frá þingstörfum fyrir fullt og allt í stað þess að smjörklípan sé nú þetta dómsmál.“

En hvað finnst þér um árásir Morgunblaðsins? Tekur þú þær nærri þér?

„Á meðan Davíð Oddsson heldur að ég sé að gera eitthvað rangt þá er ég að rugga réttum báti tel ég.“

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Mest lesið

Nýlegt

Fréttir
Í gær

Jón Magnús um þráhyggju virkra í athugasemdum – Bólusetningum kennt um allt sem úrskeiðis fer

Jón Magnús um þráhyggju virkra í athugasemdum – Bólusetningum kennt um allt sem úrskeiðis fer
Fréttir
Í gær

Sundlaugargestir æfir yfir fyrirhuguðum breytingum: „Notið peningana í þarfari hluti“

Sundlaugargestir æfir yfir fyrirhuguðum breytingum: „Notið peningana í þarfari hluti“
Fréttir
Fyrir 2 dögum

Siggi hakkari fluttur til Danmerkur og veitti Ekstrabladet viðtal – Mikið gert úr njósnum en lítið úr kynferðisbrotunum

Siggi hakkari fluttur til Danmerkur og veitti Ekstrabladet viðtal – Mikið gert úr njósnum en lítið úr kynferðisbrotunum
Fréttir
Fyrir 2 dögum

Lögmaður fór dagavillt og því þarf að byrja allt málið upp á nýtt

Lögmaður fór dagavillt og því þarf að byrja allt málið upp á nýtt