Miðvikudagur 22.janúar 2020
Fréttir

„Það hafa verið kraftaverk unnin í ferðamennsku hérlendis“

Björn Þorfinnsson
Laugardaginn 15. september 2018 17:00

Ljósmynd: DV/Hanna

Ekki missa af Helstu tíðindum dagsins í pósthólfið þitt

Lesa nánar

„Íslendingar hafa staðið sig frábærlega við skipuleggja og taka á móti þessum gríðarlega fjölda ferðamanna sem leggur leið sína til landsins. Að mínu mati er þetta afrek sem á engan sinn líka í veröldinni. Það eru vissulega stór verkefni og áskoranir fram undan en ég er handviss um að Ísland verði áfram eftirsóttur ferðamannastaður,“ segir Björn Nygaard Kers í samtali við DV. Björn kom fyrst til Íslands fyrir rúmum 15 árum þegar hann hóf uppbyggingu Hótel Rangár ásamt Friðriki Pálssyni.

Hann segir að um ævintýralegt ferðalag hafi verið að ræða sem hafi gert það að verkum að hann elski Ísland. „Ég er fæddur í Svíþjóð, alinn upp í Bandaríkjunum, á pólska eiginkonu og hef búið víða um heim. En hjarta mitt er á Íslandi,“ segir Björn og hlær. Blaðamaður DV settist niður með honum og ræddi um farinn veg og hvernig Íslendingar hafa staðið sig í að takast á við ferðamannabyltinguna.

Krefjandi að byggja upp lúxushótel á Íslandi

Eins og áður segir er bakgrunnur Björns fjölbreyttur. „Faðir minn var ljósmyndari, Leif-Erik Nygaard, og við fluttum frá Svíþjóð til Chicago í Bandaríkjunum þegar ég var á barnsaldri. Hann var fær í sínu fagi og á meðal annars heiðurinn af því að hafa tekið síðustu ljósmyndina af Marilyn Monroe,“ segir Björn.

Björn stefndi um tíma á að feta listabrautina. „Ég fékk plötusamning sem rokksöngvari um tíma og sá fyrir mér heimsfrægð. Síðan starfaði ég sem kennari og síðan fjárfesti ég í nokkrum eldisfyrirtækjum og rak þau. Að lokum rak ég lúxusveitingastað um tíma og þaðan slysaðist ég inn í hótelbransann,“ segir hann.

Sameiginlegur vinur kynnti hann fyrir Friðriki Pálssyni og verkefni hans með Hótel Rangá og Björn kolféll fyrir hugmyndinni. „Mér fannst þetta verkefni vera gríðarlega spennandi áskorun. Á þessum tíma var lítið af lúxushótelum á Íslandi, sérstaklega úti á landsbyggðinni. Þá var Ísland líka eitt dýrasta land í heimi, rétt eins og í dag, en hafði ekki hlotið þá ótrúlegu landkynningu sem átt hefur sér stað á undanförnum árum. Það var því mjög erfitt að markaðssetja hótelið og sannfæra erlenda gesti um að það væri þess virði að eyða hárri upphæð í ferðalag til Íslands,“ segir Björn.

Liður í því hafi verið að skipta um samstarfsaðila. „Fyrst um sinn vorum við meðlimir í hótelkeðju Icelandair. Það hentaði ekki okkar rekstri og stefnu og því urðum við sammála um að ljúka því samstarfi í góðu. Hótel Rangá var lítið hótel með háan kostnað á hverja gistinótt. Við þurftum því að gera þjónustuna persónulegri og veita gestum margs konar þjónustu fyrir utan gistinguna, til dæmis við að skipuleggja ferðalagið þeirra,“ segir Björn.

Lottóvinningur að ganga í Great hotels of the world

Þegar samstarfinu við Icelandair lauk fékk Hótel Rangá inngöngu inn í Great hotels of the world-samtökin sem reyndist mikið gæfuspor. „Það var mikil vinna að komast þangað inn. Ég tók að mér að sjá um að Hótel Rangá uppfyllti ströng gæðastjórnunarskilyrði samtakanna. Að lokum reyndist innganga okkar sannkallaður lottóvinningur. Þar fengum við mikla og ódýra umfjöllun sem skilaði sér í fleiri gestum,“ segir Björn. Þá hafi hann einnig séð um hönnun hótelherbergjanna ásamt Olgu Rei frá Tiffany & Co í New York.

„Þau hafa vakið mikla athygli enda afar sérstök. Mín sýn var sú að markaðssetja hótelið einnig fyrir Íslendinga þannig að þeim liði eins og þeir væru komnir til útlanda. Það gekk ágætlega þótt útlendingar hafi verið mikill meirihluti gesta,“ segir Björn.

Frumkvöðlar í markaðssetningu norðurljósanna

Þá segir hann að aðstandendur hótelsins hafi lagt mikla vinnu í að markaðssetja Ísland á fjölbreyttan hátt, til dæmis með norðurljósunum. „Ég hef alltaf verið heillaður af norðurljósunum og hef aldrei séð þau fallegri en hér á Íslandi. Ég held að orðatiltækið „glöggt er gests augað“, eigi ágætlega við. Ég var agndofa yfir þessari fegurð en það var eins og Íslendingar væru svo vanir þeim að þeir gerðu sér ekki fyllilega grein fyrir verðmætunum,“ segir Björn.

Norðurljósin hafi því skipað veigamikinn sess í markaðsstarfi Hótel Rangár. „Ég held að mér sé óhætt að fullyrða að við höfum verið frumkvöðlar í þeim efnum hérlendis. Eitt af því sem skilaði miklum ávinningi var fræg ljósmynd af ótrúlegri ljósadýrð á himninum fyrir ofan Hótel Rangá. Þegar ég sá þessa mynd þá hugsaði ég strax að hún væri milljón dollara virði. Þessi mynd skipaði stóran sess í öllu okkar markaðsstarfi og hún fór um allan heim í tengslum við samstarfið við Great hotels of the world,“ segir Björn.

Björn segist elska að vinna með Íslendingum sem hann segir vera lausnamiðaða tækifærissinna, á góðan hátt. Ljósmynd: DV/Hanna

Íslendingar lausnamiðaðir tækifærissinnar

Þrátt fyrir góða upplifun gesta og viðunandi herbergjanýtingu mátti samt lítið út af bregða. Í kjölfar efnahagshrunsins hófst síðan blómaskeið í hótelrekstri og sérstaklega í kjölfar eldsumbrotanna á Fimmvörðuhálsi og Eyjafjallajökli sumarið 2010. Björn grínast með að það hafi verið eins og þessi markaðssetning hafi verið pöntuð af æðri máttarvöldum en þó efi hann að aðrar þjóðir en Íslendingar hafi gripið gæsina jafn hratt og vel.

„Mín upplifun af þeim Íslendingum sem ég hef unnið með er að þeir séu ótrúlega lausnamiðaðir tækifærissinnar. Ég meina það á mjög jákvæðan hátt og ég dáist að því hugarfari. Það hentar mínum persónuleika mun betur en hvernig verklagið er í heimalandi mínu. Hér eru verkin drifin af, boðleiðir stuttar og síðan er tekist á við þau vandamál og áskoranir sem koma upp. Í Svíþjóð hefði farið í gang nefndarvinna og skýrslugerð í rúmt ár áður en einhvers konar ákvarðanir hefðu verið teknar. Vissulega eru stundum mistök gerð í æðibunuganginum en almennt held ég að þetta hugarfar sé mun meira til góðs en ills,“ segir Björn og hlær.

Hann segist sannfærður um að þessi persónuleikaeinkenni hafi reynst Íslendingum nauðsynleg til þess að lifa af við harðneskjulegar aðstæður fyrr á öldum. „Ef hval rak upp í fjöru þá varð að bregðast hratt við og drífa sig með allt tiltækt lið áður en aðrir væru komnir á vettvang. Lífsbaráttan var svo hörð að þeir sem voru ekki sífellt með augun opin fyrir tækifærum urðu undir,“ segir Björn.

Minni sóðaskapur en áður við ferðamannaperlur

Hann segist vera fullur aðdáunar á því hvernig íslensk stjórnvöld og íslenski ferðamannaiðnaðurinn hafi tekist á við ferðamannasprenginguna. „Það hafa verið unnin kraftaverk í ferðamennsku hérlendis. Þetta er einstakt á heimsvísu að þjóð geti á svo skömmum tíma hrundið af stað svo öflugu markaðsstarfi og byggt upp innviði til þess að taka á móti svona ótrúlegum fjölda. Hrunið, eldgosin og fótboltaævintýrið hafa hjálpað til en það er ekki sjálfsagt að það skili sér beint í fjölgun ferðamanna. Stjórnvöld og hagsmunaaðilar hafa hamrað járnið á meðan það er heitt og það ber að lofa. Vissulega hafa verið vaxtarverkir og stundum hefur kerfið verið við þolmörk en annað væri í raun óeðlilegt. Um tíma fannst mér sóðaskapur við helstu ferðamannastaði vera orðinn stórt vandamál en eins og Íslendingum er tamt var tekist á við vandamálið hratt og örugglega. Ég tel mig sjá mikinn mun varðandi umgengni á tveimur árum. Að sama skapi er komin mikil þörf á fjárfestingu í vegakerfinu og ég trúi ekki öðru en að drifið verði í því,“ segir Björn.

Vill markaðssetja Íslendingasögurnar betur

Að hans mati verða Íslendingar að vera hugmyndaríkir við markaðssetningu landsins á næstunni og leggja áherslu á nýja áfangastaði í stað þeirra heimsfrægu. Þá verði þeir einnig að velja hvers konar ferðamennska verði í boði en ekki taka öllum fagnandi. „Suðurlandið er magnað svæði en að mínu mati er það komið að þolmörkum. Ferðamennirnir eru orðnir of margir og ef fjöldinn eykst enn frekar þá mun það skemma upplifun gestanna. Það þarf að grípa til aðgerða til þess að stýra ferðamönnum inn á aðra landshluta, til dæmis Vestfirði og Austurland. Menn verða líka að átta sig á að það geta falist verðmæti og tækifæri í einhverju sem heimamenn telja ekkert merkilegt. Hrjóstrug auðn getur haft mikið aðdráttarafl,“ segir Björn.

Þá telur hann að mikil tækifæri felist í söguarfi Íslendinga. „Íslendingasögurnar eru heimsfrægar og mér finnst of lítið gert í því að markaðssetja þær fyrir ferðamenn. Það þarf fleiri söfn og upplýsingar á slíkum söguslóðum um allt land. Ekki síður hvernig fólk hreinlega fór að því að lifa af hérna á árum áður. Það er eitthvað sem ferðamenn vilja kynnast og fá upplýsingar um,“ segir Björn og ástríðan leynir sér ekki í röddinni.

Sinnti besta starfi í heimi í ár

Samstarfi Björns við Friðrik og Hótel Rangá lauk fyrir nokkrum árum. Við tók verkefni sem hann kallar „besta starf í heimi“ og síðan barátta við erfið veikindi. „Eftir Rangárævintýrið þá fékk ég það verkefni hjá Great hotels of the world að ferðast um heiminn, gista á frábærum hótelum og gera úttekt á þeim. Það var tækifæri sem býðst aðeins einu sinni á ævinni, að fá að ferðast og njóta lífsins og skrifa skýrslu um það,“ segir Björn og hlær. Hann segist hafa lært mikið á ferðalaginu og það hafi gefið honum enn betri innsýn í hvaða þjónustu og upplifun ferðamenn eru að leita að.

Það varð þó bið á því að Björn gæti nýtt þá þekkingu í hótelrekstri því hann er nýlega skriðinn upp úr erfiðum veikindum. „Hótelreksturinn getur reynt mikið á og í alltof mörg ár þá vann ég myrkranna á milli og hugsaði ekki nægilega um heilsuna. Það kom síðan að skuldadögum,“ segir Björn. Hann fékk nokkur hjartaáföll og fór síðan í erfiða hjartaskurðaðgerð. „Það tók tíma að ná fullri heilsu en ég setti sjálfan mig í forgang og er eins og nýsleginn túskildingur í dag. Ég er fullur starfsorku en reynslunni ríkari varðandi hvað skiptir máli. Það er mikilvægt að sinna vinnunni vel, en það sem skiptir öllu máli er vinnan og fjölskyldan,“ segir Björn. Hann eignaðist nýlega dóttur ásamt eiginkonu sinni. Með norðurljósaáhuga hans í huga kom aðeins eitt nafn til greina: „Aurora. Það var ákveðið um leið og við vissum að vona væri á henni,“ segir Björn brosandi.

Hann hefur undanfarin misseri unnið sem ráðgjafi í hótelrekstri, aðallega í Póllandi, en hyggur á frekari landvinninga hér heima í tengslum við hótelrekstur. „Ég er að vinna við mjög spennandi verkefni sem snýr að lúxushóteluppbyggingu úti á landi. Ég elska að starfa með Íslendingum á Íslandi og ég vona því að þetta verkefni gangi eftir,“ segir Björn.

 

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Mest lesið

Ekki missa af

Fréttir
Í gær

Jóhann nennti ekki að horfa á sjónvarpið og fór í golf – Þar heyrði hann grunsamleg hróp og köll – Endaði á að bjarga mannslífi

Jóhann nennti ekki að horfa á sjónvarpið og fór í golf – Þar heyrði hann grunsamleg hróp og köll – Endaði á að bjarga mannslífi
Fréttir
Í gær

Bótúlismi staðfestur á Íslandi – Aðeins greinst þrisvar á Íslandi frá 1949

Bótúlismi staðfestur á Íslandi – Aðeins greinst þrisvar á Íslandi frá 1949
Fréttir
Í gær

Hávær öskur trufla skákmenn í Faxafeni – „Ég hef bara uppi efasemdir um hvert við erum komin sem samfélag“

Hávær öskur trufla skákmenn í Faxafeni – „Ég hef bara uppi efasemdir um hvert við erum komin sem samfélag“
Fréttir
Í gær

Íslendingum á Spáni brugðið: Verra veður en á Íslandi?

Íslendingum á Spáni brugðið: Verra veður en á Íslandi?