fbpx
Föstudagur 09.júní 2023
Fréttir

Dettifossvegur verður kláraður

Vegurinn fer aftur á samgönguáætlun – „Ég yrði óskaplega hamingjusamur“

Ritstjórn DV
Föstudaginn 16. september 2016 16:05

Ekki missa af Helstu tíðindum dagsins í pósthólfið þitt

Lesa nánar

„Við þurfum að fá umferð hérna allt árið, svo við þurfum ekki áfram að vera á atvinnuleysisbótum yfir vetrartímann.“– Ævar Ísak Sigurgeirsson í Ásbyrgi.

Dettifossvegur verður kláraður á næstu tveimur árum. Um það er samstaða í umhverfis- og samgöngunefnd, sem vinnur að breytingartillögum um málið. Tilkoma vegarins gæti haft mikla þýðingu fyrir íbúa í Öxarfirði, á Kópaskeri og Raufarhöfn en með honum geta ferðamenn og aðrir ekið frá Dettifossi niður í Hljóðakletta og Ásbyrgi allt árið um kring. Hingað til hefur vegurinn verið lokaður stærstan hluta ársins en fyrir það hafa ferðaþjónustubændur í nærsveitum liðið svo um munar.

„Ég yrði óskaplega hamingjusamur með það,“ segir Ævar Ísak Sigurgeirsson, verslunareigandi í Ásbyrgi, sem er þó brenndur af loforðum fyrri ára. „Þegar ég sé tækin komin á staðinn þá fagna ég. Ekki fyrr,“ segir hann við DV. Öxarfjörður hefur farið á mis við meginþunga ferðamannastraumsins vegna skort á heilsársvegi frá Mývatni, um Dettifoss, niður í Ásbyrgi.

Erlendum ferðamönnum, sem bóka gistingu, er oft, að sögn heimamanna, ókunnugt um ástand þeirra vega sem þeir sjá í GPS-tækjum sínum. Afbókanir þeirra sem ætla frá Dettifossi niður í Öxarfjörð – um 24 kílómetrar í beinni loftlínu – eru fremur regla en undantekning. DV sagði frá því í vor að einn ferðaþjónustubóndi hefði í desember þurft að takast á við 28 afbókanir af þeim 30 sem skráðar voru. Allir nema tveir hringdu við Dettifoss og boðuðu forföll vegna ófærðar.

Katrín Júlíusdóttir er varaformaður umhverfis- og samgöngunefndar. Hún segir að fullkomin sátt sé um að ljúka við veginn.
Allir sammála Katrín Júlíusdóttir er varaformaður umhverfis- og samgöngunefndar. Hún segir að fullkomin sátt sé um að ljúka við veginn.

Mynd: Mynd DV

Út í hött

Katrín Júlíusdóttir, þingmaður Samfylkingarinnar, er varaformaður umhverfis- og atvinnuveganefndar. Hún segir í samtali við DV að allir nefndarmenn séu sammála um mikilvægi þess að ljúka við veginn, sem hefur farið inn og út af samgönguáætlunum um árabil. Katrín segir að fjárframlög til samgöngumála séu í sögulegu lágmarki, þó við blasi að ráðast þurfi í miklar vegabætur og viðhaldsaðgerðir víða um land. „Það sem réð því að þetta var tekið fyrir í nefndinni var umræða okkar á milli um að þetta væri út í hött,“ segir hún aðspurð um aðdraganda þess að ákveðið hefur verið að ljúka við Dettifossveg.

Síðast í vor var ákveðið að taka veginn út af samgönguáætlun fyrir tilstilli sparnaðar. Allt stefndi því í að haftið á milli Hljóðakletta og Dettifoss yrði skilið eftir.

Annar gullinn hringur

Katrín bendir á að allt sem snúi að veginum sé klárt – því hafi ákvörðunin verið auðveld. Öll hönnun sé tilbúin og fyrir liggi hvað hann muni kosta. Hún vonast til þess að vegurinn muni verða mikilvægur hlekkur í þeirri viðleitni stjórnvalda að auka dreifingu ferðamanna um landið. Ekki stoði að hafa þá stefnu á borði ef því sé ekki fylgt eftir með fjármagni til samgöngumála.

Þá bendir hún á að svæðið sé á lista yfir brothættar byggðir. Því verði vegabótin kærkomin. „Hann getur orðið til þess að búa til mótvægi við gullna hringinn hér fyrir sunnan,“ segir hún en með veginum verður hægt að aka á bundnu slitlagi frá Mývatni, að Dettifossi, Hljóðaklettum, Ásbyrgi, um Húsavík og aftur að Mývatni – svo dæmi sé tekið.

Tvöföldun til Akureyrar

Katrín segir að þau í minnihlutanum muni styðja breytingartillögu meirihlutans en í henni felist fleiri vegaúrbætur, sem snúa meðal annars að veginum að Látrabjargi og lagfæringum á hringtorgi við Fitjar á Reykjanesbraut, svo eitthvað sé nefnt. Minnihlutinn muni þrátt fyrir það leggja fram eigin breytingartillögu þar sem rök eru færð fyrir því að leggja meira fé í viðhald vega. Hún segir ljóst að umferð um þjóðveginn sé orðinn svo mikil að ef vel ætti að vera þyrfti að aðskilja akstursstefnur á leiðinni Reykjavík – Akureyri. Í grunninn þurfi að stórauka framlög til vegamála til frambúðar.
Samgönguáætlunin nær til áranna 2016–2018. Katrín segir að fljótt megi hefjast handa við Dettifossveg.

Verslunin í Ásbyrgi var lokuð síðastliðinn vetur, í fyrsta sinn í áraraðir. Ævar Ísak vonast auðvitað til að Alþingi samþykki breytingartillögurnar en er brenndur af loforðum fyrri ríkisstjórna. Hann segir að málið snúist ekki um að græða peninga heldur að fólk hafi vinnu allt árið um kring. „Við þurfum að fá umferð hérna allt árið, svo við þurfum ekki áfram að vera á atvinnuleysisbótum yfir vetrartímann.“

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Mest lesið

Nýlegt

Fréttir
Fyrir 2 dögum

Svarar ummælum Kára um vesalinga í sjómennsku fullum hálsi – „Örlög okkar að falla í gleymskunnar dá vegna aumingjaskapar“

Svarar ummælum Kára um vesalinga í sjómennsku fullum hálsi – „Örlög okkar að falla í gleymskunnar dá vegna aumingjaskapar“
Fréttir
Fyrir 2 dögum

Nýjar tölur um tjón Rússa í stríðinu

Nýjar tölur um tjón Rússa í stríðinu
Fréttir
Fyrir 3 dögum

Vildi skila taflborði sem hann hafði keypt á 27 milljónir – Páll í Polaris mátaði andstæðing sinn í Héraðsdómi

Vildi skila taflborði sem hann hafði keypt á 27 milljónir – Páll í Polaris mátaði andstæðing sinn í Héraðsdómi
Fréttir
Fyrir 3 dögum

Sendi eiginmanni ástkonunnar myndskeið af sér og henni í samförum

Sendi eiginmanni ástkonunnar myndskeið af sér og henni í samförum