fbpx
Miðvikudagur 05.október 2022
Fréttir

Leitin að gullskipinu á Skeiðarársandi: Möstrin sáust í hundrað ár

Hollenska gullskipið hraktist undan „æðiveðri“ – Dýrasti farmur strandaðs skips á Íslandi – Perlur, hrádemantar og japanskur kopar á farmskrá – Tugir skipbrotsmanna fluttir á Kjalarnes

Ritstjórn DV
Laugardaginn 23. apríl 2016 07:48

Ekki missa af Helstu tíðindum dagsins í pósthólfið þitt

Lesa nánar

Gullskipið eða Het Wapen van Amsterdam, var í sinni fimmtu ferð milli Indlands og Hollands þegar það fórst við suðurströnd Íslands. Í Morgunblaðinu í nóvember 1960, í dálknum „Menn og málefni“, er saga skipsins rakin. Þar segir að talið sé að skipið hafi strandað um 20 kílómetra vestan við Ingólfshöfða.

Þegar grafið var niður á þeim stað þar sem talið var að gullskipið lægi, kom í ljós togari.
Gullskipið fundið Þegar grafið var niður á þeim stað þar sem talið var að gullskipið lægi, kom í ljós togari.

Morgunblaðið vitnar til þess í umfjöllun sinni að einu samfelldu heimildirnar um strandið sé að finna í grein Árna Óla, ritstjóra Lesbókar Morgunblaðsins, frá árinu 1936. Greinina byggði hann á ótal annálum og lagði í mikla heimildavinnu.

„Het Wapen van Amsterdam (Skjaldarmerki Amsterdam,) var eitt glæsilegasta skip hollenska flotans, hlaðið dýrara farmi en nokkurt skip, sem strandað hefur hér við land og einnig mun aldrei hafa orðið jafn mikið manntjón við nokkurt strand eins og þá.“

Brottför frá Indlandi seinkaði

Árni Óla sagði í grein sinni um hollensku kaupförin: „Á þessum árum var stríð milli Hollendinga og Englendinga. Hin stóru kaupför sem til Indlands sigldu og komu þaðan aftur með hina dýrmætustu farma, þorðu því ekki að sigla um Ermarsund, heldur fóru þau vestan við Bretlandseyjar.“

Skipin komu oft að landi í Færeyjum og sigldu þaðan til Hjaltlandseyja, þar sem hollensk herskip tóku á móti þeim og sigldu með þeim síðasta spölinn til Hollands.

Skipin yfirgáfu Indland oftast nær milli jóla og nýárs og tók siglingin til Hjaltlandseyja á bilinu átta til níu mánuði og voru skipin að nálgast Skotland í lok sumars, þar sem herskipin biðu þeirra til að verja þau fyrir breskum herskipum.
Árið 1667 lögðu hollensku kaupskipin nokkru síðar af stað frá Indlandi, eða ekki fyrr en undir lok janúar. Skipin voru í samfloti eftir því sem gerlegt var. Árni Óla skrifar: „Fæ ég ekki séð hve mörg þau voru saman, því að í heimildum er talað aðeins um „nokkur skip“.“

Hollendingar áttu glæsilegan flota kaupskipa á þessum árum.
Glæsilegt skip Hollendingar áttu glæsilegan flota kaupskipa á þessum árum.

Tvö skip fórust

Ferðin hafði gengið vel en þó lentu skipin nokkru vestar en ráð var fyrir gert og voru þau komin í námunda við Ísland, á 62. breiddargráðu þann 17. september. Þessa nótt skall á „æðiveður“ og leystist þá flotinn sundur. Flest skipin hleyptu til Færeyja upp á líf og dauða. Eitt skipið, Walcheren, sökk skammt frá Færeyjum.
Het Wapen van Amsterdam strandaði sömu nótt og ofsaveðrið skall á. Skipið rak upp í fjöru við suðurströnd Íslands og sökk tveimur sólarhringum síðar.

Áhöfn skipsins, hermenn og farþegar töldu á bilinu 200–300 manns. Einungis á bilinu 50–60 var bjargað og segir í Morgunblaðinu: „… og munu þeir hafa bjargað á land með sér nokkru af farmi skipsins. Höfuðsmaðurinn á Bessastöðum hirti góðan hlut af því er á land rak úr skipinu, taldi hann það vogrek og réttmæta konungseign.“
Dagblaðið Vísir fjallaði um málið í janúar 1968 og ræddi þá við Berg Pálsson sem fengið hafði opinbert leyfi undirritað af forsætisráðherra, Ólafi Thors, átta árum áður. Bergur hafði leitað árum saman á söndunum en án árangurs. Hann sagði í viðtali við blaðið: „Lengi stóðu möstrin upp úr sandinum og voru eini leiðarvísirinn að legstað þess. Þau voru söguð af hundrað árum eftir strandið, að því er sagt er. Vafalaust hafa þau þótt gott smíðaefni. Sandurinn huldi það sem eftir var. Lengi höfðu menn þó hugmynd um hvar skipið væri niðurkomið.“

Betur varðveitt en Vasa

Bergur segist í þessu viðtali sannfærður um að það sem var í skipinu sé þar enn. „Það strandaði þarna í vitlausu veðri og vindáttin var suðlæg. Skipið hefur fljótlega fyllt af sjó og síðan af sandi. Eftir það hefur ekki nokkur máttur getað haggað því. Sandurinn hefur færst talsvert fram síðan og skipið er nú nokkurn spöl uppi í landi. Það er hins vegar ágiskun hversu langt frá sjó það er.“

Það er að öllum líkindum betur varðveitt en Vasa, sem grafið var upp í Svíþjóð.

Þá spurði blaðamaður Berg: Og skipið er ófúið þarna í sandinum?

„Já, á því er ekki nokkur vafi. Það er að öllum líkindum betur varðveitt en Vasa, sem grafið var upp í Svíþjóð fyrir nokkrum árum og menn muna. Í sandinum eru engin lífræn efni og hann varðveitir skipsskrokkinn mun betur en leir, eins og Vasa sökk í.“

Jakob Ásgeirsson skrifaði mikla umfjöllun um gullskipið í Morgunblaðið í júlí 1982. Var meðal annars fjallað um afdrif skipbrotsmanna. Þar segir: „Það rak margt á land, þegar skipið tók að brotna og liðast í sundur og þar á meðal vínámur og gerði það skipbrotsmönnum lífið um stund léttara en einnig dauðann. Þeir urðu margir sökum ölvunar ófærir um að bjarga sér en þá líklega fengið hægari dauða en hinir mörgu sem börðust ódrukknir meðan þeim entist þrekið.“

Þeir urðu margir sökum ölvunar ófærir um að bjarga sér.

Gríðarlegt magn af demöntum og perlum

Farmskrá skipalestarinnar er mjög forvitnileg. Hún er sameiginleg fyrir öll skipin, að því er virðist vera. Samtals er um að ræða 56 vörutegundir – margs konar vefnaðarvöru, krydd, sykur, hnetur, silki og lyf. Það sem vekur án efa mestan spenning hjá gullleitarmönnum eru 323 tonn af japönskum kopar og yfir fjögur þúsund tonn af hrádemöntum. Þá segir í farmskránni að 1.827 tonn af perlum hafi verið í skipalestinni.

Ljóst er að skipbrotsmenn dreifðust víða um Suðurland. Þannig voru margir um veturinn í vist á þeim bóndabæjum sem voru í Öræfum. Annálar segja frá því að einhverjir skipbrotsmenn komust utan strax um haustið. Aðrir voru fluttir á Kjalarnes og Seltjarnarnes. Þannig eru sagði 60 erlendir „eftirlegumenn“ í Kjalarnesþingi um veturinn.

Segja má að leit að skipinu hafi staðið með hléum frá árinu 1960 fram til ársins 1983 að „gullleitarmenn“ töldu sig hafa fundið skipið. Vonbrigðin sem leitarmenn upplifðu þegar í ljós kom gamall togari, voru mikil. Frá þeim tíma hefur lítið gerst á Skeiðarársandi í tengslum við formlega leit.

Íslenskir fjölmiðlar hafa fjallað mikið um gullskipið og örlög þess.
Mikil umfjöllun Íslenskir fjölmiðlar hafa fjallað mikið um gullskipið og örlög þess.

Leit hefst aftur í sumar

Eins og DV greindi frá í síðasta tölublaði hefur nýr aðili nú fengið leyfi til hefja leit með ákveðnum skilyrðum á Skeiðarársandi. Það er hlutafélagið 1667 ehf., sem er í eigu Gísla Gíslasonar athafnamanns. Gísli er mjög bjartsýnn á að ný tækni geti gert að verkum að skipið eða flak þess finnist. Alþjóðlegt teymi fjársterkra aðila og reynslubolta við leit að flökum, hefur tekið höndum saman við verkefnið.

Gísli hefur óskað eftir fundi með forsætisráðherra til að ræða málið og fá fram vilja ríkisins í tengslum við leitina. Ólafur Thors samdi við leitarmenn árið 1960 um að ríkið fengi 12% af hagnaði leitarmanna á þeim tíma. Óvíst er hvað Sigurður Ingi er tilbúinn að semja um.

Gísli hefur þegar byrjað að ræða við landeigendur um samstarf vegna leitarinnar og segir hann í samtali við DV að hann leggi ofuráherslu á að slíkt samstarf náist. Hann segist enn fremur leggja kapp á að öll umgengni verði til fyrirmyndar, hvað varðar lífríki og umhverfi.

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Mest lesið

Nýlegt

Fréttir
Fyrir 21 klukkutímum

Norðmenn kalla mörg þúsund heimavarnarliða til starfa

Norðmenn kalla mörg þúsund heimavarnarliða til starfa
Fréttir
Í gær

Nafn hins látna í harmleiknum í Ólafsfirði

Nafn hins látna í harmleiknum í Ólafsfirði
Fréttir
Í gær

Hvað vitum við um harmleikinn í Ólafsfirði? – Þrjú í gæsluvarðhaldi

Hvað vitum við um harmleikinn í Ólafsfirði? – Þrjú í gæsluvarðhaldi