fbpx
Fimmtudagur 18.apríl 2024

Bryndís Scram skrifar um Hvað er í blýhólknum: Hefur eitthvað breyst?

Ritstjórn DV
Miðvikudaginn 28. mars 2018 08:30

Ekki missa af Helstu tíðindum dagsins í pósthólfið þitt

Lesa nánar

Bryndís Schram skrifar um leiklestur Í Hannesarholti, 22.mars, 2018

Hvað er í blýhólknum?
Höfundur: Svava Jakobsdóttir
Stjórnandi: Þórhildur Þorleifsdóttir
Persónur og leikendur: Guðbjörg Thoroddsen, Anna Einarsdóttir, Jón Magnús Arnarsson, Ragnheiður Steindórsdóttir, Arnar Jónsson, Sigurður Skúlason, Hanna María Karlsdóttir


Um þessar mundir eru nákvæmlega fimmtíu ár síðan stúdentar við Sorbonne háskóla gerðu byltingu og hættu ekki fyrr en París logaði í óeirðum og götubardögum – einhverjum þeim mestu í sögu borgarinnar. Verkamenn lögðu niður vinnu, flykktust út á götur til liðs við námsmennina og heimtuðu frelsi, jafnrétti og bræðralag. Konur fóru líka út á götu, steyttu hnefann og æptu: við erum líka manneskjur! Simone de Beauvoir var í fararbroddi, boðberi nýrra tíma hinnar frjálsu konu.

Nokkrum árum fyrr minnist ég þess, þegar stúdínur við Edinborgarháskóla fóru í kröfugöngu og heimtuðu pilluna – meira frelsi, jafnrétti og bræðralag. Sú krafa þótti slíkt hneyksli, að virðulegar og sómakærar húsfreyjur í höfuðstað Skotlands fóru huldu höfði og afneituðu kynsystrum sínum.

Hér heima liðu nokkur ár, og það var ekki fyrr en 1975, sem íslenskar konur lögðu niður vinnu og stormuðu til fundar í miðborg Reykjavíkur – einhvers þess fjölmennasta í sögu þjóðar. Allt stóð í stað um stund og það brakaði í innviðunum. Þetta var gaman, en samt argasta alvara. Konur á Ísafirði lögðu líka niður vinnu. Við vorum að svíkjast um allan daginn, og enginn matur á borðum fyrir börnin. – Og ég man það núna, að þetta var líklega í fyrsta skiptið – fjórum börnum seinna – sem maðurinn minn eldaði – og þurfti meira að ssegja að vaska upp á eftir! Hann gat það algerlega hjálparlaust! Já, við konur vorum að vakna til lífsins. Vorum smátt og smátt að sprengja utan af okkur fjötrana, Gátum ekki hugsað okkur að feta í fótspor mæðra okkar, vildum vera manneskjur – ekki bara mæður – hús-mæður.

Gegn fyrirframgefnum kynhlutverkum

Svava Jakobsdóttir

Ég man enn, hvað ég hreifst af Svövu Jakobsdóttur og skáldskap hennar á þessum árum. Ég átti þess meira að segja kost að vinna með henni á Lesbók Morgunblaðsins einn vetur. Hún sýndi mér traust og trúði mér fyrir verkefnum, sem ég hefði aldrei dirfst að leggja út í sjálf, jafnvel ljóðaþýðingar og smásöguskrif. Þá var hún nýbúin að gefa út smásagnasafnið „Tólf konur“ (1965), sem ég drakk í mig eins og ferskan og örvandi drykk á einni nóttu. Ég skynjaði fegurðina í skáldskap hennar, og ég skynjaði „absurd“ sýn hennar á veruleikann. En á þessum fyrstu árum var boðskapurinn ekki búinn að taka á sig skýra mynd, enn sem komið var.

Það var ekki fyrr en í „Veisla undir grjótvegg“ (1967), að hún tekur af skarið, verður einbeittari og harðari í afstöðu sinni – eiginlega hápólitísk og krefjandi. Og þar hitti hún í mark. Því að konur á Íslandi höfðu verið að bíða eftir einmitt svona bók. „Veisla undir grjótvegg“ varð fljótlega eins konar viðspyrnumark í frelsisbaráttu kvenna á Íslandi. Þegar hér var komið sögu, var henni efst í huga staða kvenna – og karla – innan þess ramma, sem samfélagið setur þeim. Aftur og aftur birtir hún okkur hrollvekjandi sýn a íslenskan veruleika, hvernig bæði konur og karlar eru sett í fyrirframgefin kynhlutverk. Þeim er sniðinn þröngur stakkur, sem íþyngir báðum, þó að á ólíkan hátt sé. Hann er fyrirvinnan, hún húsmóðirin. Undan því varð ekki vikist.

Allar sögur hennar draga upp kraftmikla mynd af óræðu sambandi einstaklingsins og samfélagsins í íslenskum veruleika. Augu hennar beinast að konum, sem eiga erfitt með að finna lífsgleðina innan veggja heimilisins – konum sem reynist erfitt að sætta sig við hin rammgerðu lögmál samfélagsins, en þrá frelsi, sjálfstæði – þrá að vera manneskja. Ein skýrasta vísbending um afstöðu Svövu til kvennabáráttunar er „Saga handa börnum“. Sú saga varð fljótlega eins konar dæmisaga um stöðu og hlutskipti konunnar. Hversu langt gengur konan til að tjá ást sína og umhyggju fyrir börnum sínum? Og hvað uppsker hún að lokum? Vanþakklæti. „Börnin heimsækja hana aldrei, bera við annríki“. Og hver er staðan í dag – hálfri öld síðar? Hefur eitthvað breyst?

Að falla ekki inn í mynstrið

Í vikunni sem leið áttum við, Reykvíkingar, þess kost að sjá (eða hlusta á) leiklestur eins þekktasta verks Svövu Jakobsdóttur, „Hvað er í blýhólknum?“ í Hannesarholti við Grundarstíg. Í því húsi býr mikill kúltúr. Glaðlegar konur hafa ekki undan að bera á borð gómsæta rétti í bóhemsku umverfi við undirleik snillingsins (og skólabróður míns) Pálmars Ólafssonar á píanóið. Tvisvar í viku er eitthvað skemmtilegt og spennandi að gerast á neðri hæðinni, og allir fá sæti, meðan húsrúm leyfir. Það er alveg þess virði að kynna sér dagskrána og kíkja inn (hannesarholt.is).

Nema hvað, að þessu sinni var það ónefndur leikhópur 50+, undir stjórn Þórhildar Þorleifsdóttur, sem las og lék líf hefðbundinnar fjölskyldu – fyrirvinnu og húsmóður og tvö börn þeirra. Þau eru hvert um sig fangar hinna rammgerðu lögmála samfélagsins, en falla samt ekki alveg inn í mynstrið. Og þó að reglugerðafárið hafi eitthvað breyst á seinni árum, þá er raunveruleikinn í rauninni óbreyttur. Við höfum öll upplifað á eigin skinni þá fordóma og vægðarleysi, sem viðgengst í samfélagi nútímans. Ef þú fellur ekki inn í mynstrið, þá ertu sniðgenginn. Tortryggilegur. Konur hafa sprengt af sér fjötrana – þær heimta að vera manneskjur, með allri þeirri áhættu, sem því fylgir. Frelsisbrautin er ekki alltaf auðveldasta leiðin.

Breyttir tímar?

Á þeim tímum, þegar Svava er að stíga sín fyrstu skref á skáldskaparbrautinni, eru hjónaskilnaðir fátíðir. Konur voru fangar samkvæmt lögmálinu. Ef þær höfnuðu húsmóðurhlutverkinu, áttu þær ekki margra kosta völ, urðu hálfgerðar hornrekur, utangátta og forsmáðar – féllu ekki inni í mynstrið. Í dag eru hjónaskilnaðir tíðir, og til dæmis búa 40% Reykvíkinga í einbýli. Þar við bætast 10% einstæðra mæðra, sem hafa farið út af hinni „réttu“ braut en eiga fullt í fangi með að hlíta kröfum samfélagsins – og vera jafnframt góðar mæður. Staða kvenna er breytt í dag, svo sannarlega. Konur hafa meira frelsi – meira val. En er það frelsi í sátt við lögmál samfélagsins? Hafa þau nokkuð breyst?

Þar sem ég sat og hlustaði á upplesturinn í Hannesarholti þetta kvöld, þá fannst mér oft eins og við sætum enn í sömu súpunni. Talsmátinn er hinn sami, fordómarnir vaða uppi. Ef einhver fer út af sporinu, fer sínar eigin leiðir, þá er vægðarleysið miskunnarlaust. Áhorfendur hlógu hvað eftir annað. Fannst fortíðin fyndin og fáránleg. En samt. Hvað hefur svo sem breyst? Þetta leikrit Svövu – „Hvað er í blýhólknum?“ markaði tímamót í íslenskri leikritun á sínum tíma. Það bar með sér ferska vinda, nýja hugsun, nýja sýn, sem var mörgum framandi á þessum árum. Svava var í uppreisn gegn ríkjandi skoðunum, og þess vegna varð hún eins konar mentor íslensku kvennahreyfingarinnar, sem var að hasla sér völl einmitt um sama leyti. Orð hennar eru jafn sönn í dag og þau voru þá. Þau eru tímalaus, þó svo fordómarnir hafi eitthvað færst til eða jafnvel horfið. Það eru bara komnir nýir í staðinn.

Meiri Svava í apríl

Það er merkilegt, hvernig orð á blaði fá líf, jafnvel nýja merkingu, í munni góðra flytjenda. Og þeir voru ekki af verri endanum þetta kvöld í Hannesarholti: Arnar Jónsson, Guðbjörg Thoroddsen, Sigurður Skúlason, Ragnheiður Steindórsdóttir, Hanna María Karlsdóttir – allt stórstjörnur íslenskra leikhúsa, sem maður hefur varla séð né heyrt í háa herrans tíð. Þau hafa samt engu gleymt og tókst með glæsibrag að bregða upp lifandi mynd frá liðinni öld, gefa okkur innsýn í líf og störf mæðra okkar og feðra. Tveir nýliðar voru í hópnum – unga fólkið – þau Anna Einarsdóttir og Jón Magnús Arnarsson, sem gáfu reyndar hinum ekkert eftir, falleg og skýrmælt.

Og hópurinn ætlar ekki að segja skilið við Svövu Jakobsdóttur alveg strax, því að þann 4. apríl verður lesið verkið „Æskuvinir“, undir stjórn Maríu Kristjánsdóttur – sem reyndar leikstýrði fyrsta verki Svövu, sem sett var á svið árið 1970 í Tjarnarbíói (Hvað er í blýhólknum). Þann 11. apríl ætlar sonur Svövu, Jakob S. Jónsson, að stjórna leiklestri á verkinu „Lokaæfing“. Að lokum – eða þann 18. apríl verður flutt verkið „Eldhús eftir máli“, sem er byggt á smásögu Svövu með sama nafni, en í leikgerð Völu Þórsdóttur og undir stjórn Þórunnar Magneu Magnúsdóttur. Það er því nóg að gera næstu vikurnar.

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Mest lesið

Nýlegt

Eyjan
Fyrir 3 klukkutímum

Sigurður Amlín nýr rekstrarstjóri hjá Stöð 2

Sigurður Amlín nýr rekstrarstjóri hjá Stöð 2
Fréttir
Fyrir 3 klukkutímum

Kíghósti greinist hjá nokkrum ótengdum einstaklingum á höfuðborgarsvæðinu

Kíghósti greinist hjá nokkrum ótengdum einstaklingum á höfuðborgarsvæðinu
Eyjan
Fyrir 4 klukkutímum

Orðið á götunni: Er Gallup vanhæft í aðdraganda forsetakosninganna?

Orðið á götunni: Er Gallup vanhæft í aðdraganda forsetakosninganna?
Fréttir
Fyrir 4 klukkutímum

Kostar sitt að kúka í Lystigarðinum – Akureyrarbær tvöfaldar verðmiðann

Kostar sitt að kúka í Lystigarðinum – Akureyrarbær tvöfaldar verðmiðann
Eyjan
Fyrir 6 klukkutímum

Þorsteinn Siglaugsson skrifar: Gervigreind og máttur tungumálsins

Þorsteinn Siglaugsson skrifar: Gervigreind og máttur tungumálsins
Fókus
Fyrir 6 klukkutímum

„Í dag er þetta eitthvað sem gerir mig sterkari“

„Í dag er þetta eitthvað sem gerir mig sterkari“